Vinskapur án áttavita

Þorsteinn Pálsson

Stjórnmálafræðingar segja gjarnan að styrkur stjórnarsamstarfsins felist í vináttu formanna Sjálfstæðisflokks og VG. Á hinn bóginn ræða þeir sjaldnar um pólitíska stefnu þessarar vináttu.

Myndin sem við blasir er þessi: Við búum við samstæða ríkisstjórn, sem byggir á vináttu en hefur ekki pólitískan áttavita.

Nú má ekki gera lítið úr því að traust skiptir máli við ríkisstjórnarborðið. En ríkisstjórn án pólitíkur breytir ekki miklu og er enn fremur ólíkleg til að leysa efnahagsvanda og færa Ísland fram á við, hvort sem horft er frá hægri eða vinstri.

Eftir kosningarnar 2017 var erfitt að mynda annars konar ríkisstjórn. Hins vegar var galopið eftir kosningarnar 2021 að mynda ríkisstjórn um pólitíska stefnu. En þá völdu formenn Sjálfstæðisflokks og VG vináttu fram yfir pólitík.

Breytingar

Nú hafa skoðanakannanir í langan tíma sýnt afgerandi breytingar á fylgi flokka. Samfylkingin hefur meir en tvöfaldað fylgi sitt með því að taka málefnalega sömu stöðu og VG fyrir kosningarnar 2017.

Í stjórnarandstöðunni að öðru leyti hefur Viðreisn haldið kjörfylgi en aðrir flokkar heldur gefið eftir.

Þrátt fyrir vináttu er giftu flokkanna við ríkisstjórnarborðið líka misskipt. Fylgi forystuflokks ríkisstjórnarinnar hrynur. Framsókn missir fylgisaukninguna frá síðustu kosningum. En Sjálfstæðisflokkurinn heldur sínu fylgi að mestu.

Margir skýra þetta misgengi með því að VG hafi gefið miklu meira eftir en Sjálfstæðisflokkurinn. Í raun sýnist þó hafa verið ágætt jafnvægi í gagnkvæmu neitunarvaldi jaðarflokkanna.

Tap Framsóknar gæti skýrst af því að hún hefur ekki skapað sér sjálfstæða stöðu í samstarfinu.

Jafnvægi

Í utanríkismálum hefur Sjálfstæðisflokkurinn haldið vel á sínum hlut. VG kyngdi NATO í verki, sem lengi hafði þó verið veruleiki.

Aftur á móti fékk VG ráðið því að endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar, sem heyrir undir forsætisráðherra, snerist einvörðungu um almannavarnir en ekki hervarnir og öryggi á stríðstímum í Evrópu. Í þeirri umræðu tapaði Sjálfstæðisflokkurinn forystuhlutverkinu til Viðreisnar.

Í ríkisfjármálum hafa ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sætt mikilli gagnrýni úr eigin röðum, einkum í atvinnulífinu, fyrir að kynda undir verðbólgu með eyðslu umfram efni.

Á þessu sviði virðist VG ráða meir um aukin útgjöldin en Sjálfstæðisflokkurinn meir um lækkun skatta. VG fékk þó hækkun á fjármagnstekjuskatti. Þingmenn sjálfstæðismanna gagnrýna svo fjármálaráðherra stöðugt fyrir fjölgun ríkisstarfsmanna og staðhæfa að hann hafi hækkað laun þeirra umfram aðra.

Heildarmynd ríkisfjármálanna bendir þannig til þess að VG hafi síður en svo haft minni áhrif en Sjálfstæðisflokkurinn.

Halli

Í virkjanamálum ræður kyrrstöðustefna VG för. Það veldur því að ríkisstjórnin hefur litlum árangri náð í orkuskiptum. Fyrri hluta samstarfsins réði hugmyndafræði VG öllu í heilbrigðismálum með óleystum afleiðingum. Í báðum tilvikum hallar verulega á Sjálfstæðisflokkinn.

Aftur á móti hallar á VG í innflytjendamálum, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur stýrt. Eins er með sjávarútvegsmálin þó að þau hafi flust yfir til VG.

Áfangaskipt endurskoðun stjórnarskrárinnar er stórt mál, sem VG fór af stað með. Sjálfstæðisflokkurinn ýtti því út af borðinu.

Misgengið

Að þessu virtu verður tæpast sagt að misgengið stafi af því að málefnaleg slagsíða sé öll þeim megin sem VG stendur.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur gefið eftir í köldum kjarnamálum. VG hefur hins vegar látið í minni pokann í tilfinningaríkari málum. Það gæti skýrt misgengið að hluta.

Helsta skýringin er þó líklega sú að forsætisráðherra hefur nokkuð oft þurft að nota betri trúverðugleikainnistæðu sína til að bjarga ráðherrum samstarfsflokkanna þegar þeir hafa komið sér í vandræði. Stundum hefðu þeir hreinlega ekki bjargast án vinarbragðs.

Kjósendur VG eru skiljanlega síður sáttir með þessi bjargráð en kjósendur samstarfsflokkanna.

Biðtími

Á fundi VG í fyrrahaust sagði varaformaðurinn að flokkurinn myndi sækjast eftir vinstra samstarfi eftir næstu kosningar.

Á dögunum sagði varaformaður Sjálfstæðisflokksins aðspurð að hún væri orðin svolítið þyrst í meira hægri.

Þannig virðist framtíðarforysta flokkanna fremur horfa til samstarfs um pólitík en vináttu. En þessi ummæli segja líka að tíminn til kosninga verði bið eftir nýrri pólitískri forystu. Það er dýr biðtími.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 9. mars 2023