Eitt örstutt skref

Þær jákvæðu fréttir bárust fyrir páska að heilbrigðisyfirvöld hefðu samið um 700 liðskiptaaðgerðir á þessu ári við tvær einkareknar læknastofur hér á landi. Markmiðið að auka afköst heilbrigðiskerfisins og jafna aðgengi einstaklinga að þessari mikilvægu heilbrigðisþjónustu. Fjöldi fólks hefur þurft að bíða lengi eftir samningum sem þessum og því er um mikið heillaskref að ræða þótt vissulega mætti það vera stærra.

Í ársbyrjun biðu um 2.000 einstaklingar eftir liðskiptaaðgerðum hjá Landspítala, Heilbrigðisstofnun Vesturlands og Sjúkrahúsinu á Akureyri og langflestir höfðu beðið lengur en 90 daga. Það liggur því ljóst fyrir að þörfin er mikil og fer vaxandi ef marka má tölur undanfarinna ára. Og hér er eingöngu talað um liðskiptaaðgerðir, bið eftir nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu er víðar mun lengri en við getum unað við.

Á sama tíma og þessu framtaki er fagnað er því eðlilegt að velta upp öðrum slíkum skrefum í átt að betri heilbrigðisþjónustu á forsendum notenda heilbrigðiskerfisins. Það ætti að vera óumdeilt að sé rétt staðið að málum er einkarekin heilbrigðisþjónusta til þess fallin að létta undir með ríkisreknum heilbrigðisstofnunum. Og þar með til þess fallin að bæta heilbrigðiskerfið okkar og þjónustu við almenning.

Landspítalinn sinnir heilbrigðisþjónustu sem aðrar heilbrigðisstofnanir geta ekki veitt, hvorki ríkisreknar né einkareknar. En spítalinn sinnir líka heilbrigðisþjónustu sem aðrir geta sannarlega séð um. Á sama tíma og álagið á starfsfólk Landspítalans og aðstöðuna þar er augljóslega óviðunandi hlýtur að þurfa að grípa til aðgerða hér sem fyrst.

Það bíður betri tíma að lista upp heilbrigðisþjónustu sem veitt er á Landspítala en skynsamlegt væri að bjóða annars staðar að því gefnu að vandað væri til verka við kostnaðarmat og samninga. Reynslan sýnir að þannig fæst gjarnan betri þjónusta fyrir lægri kostnað auk þess sem Landspítalinn fengi meira svigrúm til að sinna því sem engir aðrir geta gert.

Það er hins vegar ekki hægt að slá botninn hér án þess að nefna fílinn á herberginu, þá staðreynd að Landspítalinn er í reynd eitt okkar stærsta hjúkrunarheimili. Þetta er auðvitað óboðleg staða fyrir það aldraða fólk sem þar liggur og aðstandendur þess, auk þess að hafa neikvæð áhrif á aðra starfsemi spítalans. Hvernig væri sem næsta skref – risaskref – að semja við einkaaðila um byggingu hjúkrunarheimila gegn tryggum rekstrarsamningum til lengri tíma?

 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. apríl