Framtíð fjölmiðla

Þau hafa verið alls konar viðbrögðin við því að útgáfu Fréttablaðsins og útsendingum Hringbrautar hefur verið hætt. Högg fyrir fjölmiðlun á Íslandi, slæmt fyrir lýðræðislegt samfélag. Þetta eru algengustu viðbrögðin og það með réttu. Svo eru það þeir sem hemja ekki þórðargleði sína líkt og ritstjóri Morgunblaðsins í Reykjavíkurbréfi helgarinnar. Líklega er það þó frekar gamli stjórnmálaforinginn sem fagnar afdrifum þessa frjálslynda, alþjóðasinnaða og hófsama miðils en ritstjórinn sem gleðst yfir því að samkeppnin verður minni á fjölmiðlamarkaði. Það er enda ekki fjöldi keppinauta á markaði sem er að fara illa með fjölmiðana, þótt vissulega skipti hann máli, það er umgjörðin sem er biluð.

Þegar bilaða umgjörðin er rædd stoppa flestir við þá staðreynd að ríkismiðillinn RÚV er að keppa við einkamiðla á auglýsingamarkaði, auk þess að geta gengið að tryggum greiðslum úr ríkissjóði. Þar er vissulega skakkt gefið. Hins vegar er áhyggjuefni ef setja á blátt bann við að RÚV afli sér aukinna tekna með auglýsingum, á meðan ekki hefur verið mótað hvert framhaldið verður. Á RÚV að draga saman seglin og hvar þá? Í almennri þáttagerð? Hverjar verða afleiðingarnar ef ákveðið verður að taka skýran kúrs í þá áttina að RÚV dragi verulega saman, ef ekki er vitað hvert sú stefna leiðir?

Á RÚV kannski ekki að reka fréttastofu? Fjölmiðlar eiga að veita valdhöfum aðhald, það er brýnasta verkefni þeirra. Þess vegna er hrollvekjandi að fylgjast með kerfisbundnum upphrópunum úr hópi þeirra sem lengst hafa ráðið för í íslensku samfélagi um hömlulausan áróður fréttastofu RÚV og ætlaða misbeitingu miðilsins. Kannanir hafa þó sýnt að þjóðin treystir þessum fjölmiðli sínum vel.

Staðan er óviðunandi. Ráðherra málaflokksins, Lilja D. Alfreðsdóttir, er ekki öfundsverð af því að ná samstöðu um aðgerðir og það mun taka tímann sinn ef marka má reynsluna. Þangað til þurfum við málamiðlanir. Drífa í að skattleggja auglýsingatekjur erlendra netmiðla hér á landi. Hætta þeim
tvískinnungi að banna íslenskum miðlum að birta áfengisauglýsingar, enda berast þær
Íslendingum daglega eftir öðrum leiðum. Og það þarf að setja RÚV einhverjar hömlur til að draga úr yfirburðastöðu fjölmiðilsins á auglýsingamarkaði.

Erfitt rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla er sannarlega ekki séríslenskt fyrirbæri. Við erum hins
vegar í annarri stöðu en önnur stærri samfélög. Viðkvæmari en einnig í betra færi til að bæta úr.  Verkefnið er að ná samstöðu um þær breytingar á fjölmiðlamarkaði sem jafna samkeppnisstöðu fjölmiðla. Þegar þær liggja fyrir höfum við betri sýn á það hver þörfin á sérstökum ríkisstyrkjum til einkarekinna fjölmiðla er.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. apríl 2023