Ótti gömlu flokkanna

Ég er reglu­lega spurð af er­lend­um koll­eg­um hvort umræðan um Evr­ópu­sam­bandsaðild hafi ekki tekið flugið síðasta árið í ljósi auk­inn­ar áherslu á ör­ygg­is- og varn­ar­mál. Og þau sem vita að ís­lenska vaxta­báknið er raun­veru­legt en ekki ein­hver kol­svört kó­medía trúa því ekki að við séum ekki á fleygi­ferð inn í ESB. Svar mitt er, jú umræðan er há­vær meðal al­menn­ings, þögn­in jafn há­vær meðal stjórn­mála­manna.

Það er ekki rétti tím­inn núna að mati þeirra sem vilja óbreytt ástand. Svo margt annað að gera og græja í póli­tík­inni og svo hef­ur fólk líka eng­an áhuga. Þar er vísað í kosn­ing­ar og skoðanakann­an­ir sem sýna vissu­lega að meiri­hluti at­kvæða ligg­ur hjá flokk­um sem vilja ekki að þjóðin sé spurð álits. En þjóðin hef­ur nú samt verið spurð. Í ný­legri skoðana­könn­un var vel rúm­ur helm­ing­ur aðspurðra hlynnt­ur þjóðar­at­kvæðagreiðslu um fram­hald aðild­ar­viðræðna. Það var meiri­hluti hjá stuðnings­fólki fjög­urra stjórn­mála­flokka fyr­ir því að ganga í ESB og meiri­hluti hjá öll­um flokk­um nema ein­um fyr­ir því að leyfa þjóðinni að kjósa um fram­hald viðræðnanna.

Af hverju ætli svo stór hluti þjóðar­inn­ar láti sér þá lynda að málið sé ekki sett á odd­inn í kosn­ing­um? Kannski trú­ir það flokkn­um sem er á móti þjóðar­at­kvæðagreiðslu og full­yrðir að nú sé Ísland orðið lág­vaxta­land til allr­ar framtíðar. Kannski kaup­ir það söng­inn um að ekki sé hægt að bæta heil­brigðisþjón­ust­una á sama tíma og þjóðin kýs um aðild­ar­viðræður. Kannski sé best að horfa á skamm­tíma­lausn­irn­ar þar sem flest­ir flokk­ar kepp­ast um að toppa sjálfa sig og aðra og vona að í þetta sinn verði þær lausn­ir lang­líf­ari en við höf­um van­ist hér. Vona til dæm­is og trúa að vaxta- og verðbólgu­hring­ekj­an stoppi hér og nú þó ekk­ert sé gert til að ráðast að rót­um vand­ans, aðeins kynnt­ar til sög­unn­ar gaml­ar til­lög­ur um auk­in rík­is­út­gjöld og hærri skatta.

Ég þekki eng­an sem held­ur því fram að ESB-aðild sé mark­mið í sjálfu sér. Né að í henni fel­ist ein­hver töfra­lausn fyr­ir Íslend­inga. Nema reynd­ar stjórn­mála­menn, sem vita auðvitað bet­ur, en hent­ar ein­hverra hluta vegna að búa til slíka strá­menn til að af­vega­leiða umræðuna. Staðreynd­in er sú að fólk hef­ur alls kon­ar ástæður enda er ávinn­ing­ur­inn marg­vís­leg­ur, bæði til skemmri og lengri tíma, og mark­mið ESB um frið og efna­hags­legt ör­yggi jafn mik­il­væg Íslandi og öðrum Evr­ópuþjóðum.

Hin áleitna spurn­ing er þessi; af hverju eru gömlu flokk­arn­ir svona hrædd­ir við að spyrja þjóðina?

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. maí