Verðbólguríkisstjórnin kastar inn handklæðinu

Nú liggur endanleg útgáfa fjármálaáætlunar fyrir. Hún stendur óbreytt frá því að hún var lögð fram í vor. Þrátt fyrir þunga ágjöf og merkilega samhljóða gagnrýni frá SAASÍBHM og fleirum er viðbragð ríkisstjórnarinnar lítið sem ekkert. Með því neitar ríkisstjórnin að vera hluti af lausninni og kastar inn handklæðinu í baráttunni við verðbólguna. Ríkisstjórnin hefur valið að lengja í erfiðum kafla fyrir heimilin og fyrirtæki landsins. Ríkisstjórn sem hagar sér þannig er í engri stöðu til að biðla til vinnumarkaðar eða almennings að sýna ábyrgð.

Hver eru markmiðin og hver verða áhrifin?

Ég furðaði mig á því þegar ég las fréttatilkynningu ríkisstjórnarinnar hvers vegna ekki kom fram hvaða væntingar ráðherrar hafa um árangur af stefnu sinni og tillögum. Munu aðgerðirnar kæla hagkerfið og draga úr verðbólgu og framleiðsluspennu? Hvernig mun fjármálastefnan vinna með peningastefnunni? Hvernig er byrðunum dreift? Býst ríkisstjórnin við að endanleg (og reyndar óbreytt) útgáfa fjármálaáætlunar hafi áhrif á stýrivexti í landinu? Skýr skilaboð um markmið og árangur hafa þýðingu í augum almennings. Slík skilaboð er þó auðvitað ekki hægt að senda þegar engar aðgerðir eru kynntar. Í langri fréttatilkynningu voru endurteknar hugmyndir og tillögur. Þar glittir í hringrásarkerfi hugmynda. Gömul saga kynnt sem ný. Vandamálið er að það voru tillögur sem allir og amma þeirra voru sammála um að myndu ekki duga til að kæla verðbólgu og hjálpa heimilum og þeim fyrirtækjum sem hafa tekið á sig miklar og séríslenskar vaxtahækkanir.

Sumir sigra, aðrir tapa

Síðustu þrjú ár eru einstök í hagsögunni. Hjól hagkerfisins nær stöðvuðust á skömmum tíma og lækkun raunvaxta var sömuleiðis nær fordæmalaus í alþjóðlegum samanburði.  Aukið peningamagn, uppsafnaður sparnaður og launahækkanir sköpuðu eftirspurnarþrýsting sem margfaldaðist þegar hagkerfið tók við sér á methraða. Innflutt verðbólga bætti gráu ofan á svart. Sá hluti þjóðarinnar sem var í vari fyrir áhrifum heimsfaraldurs hagnaðist á þessum aðstæðum. Nær öllum kostnaði af verðbólgu og vaxtahækkunum er núna verið velt yfir á ungt fólk. Þetta fólk trúði á lágvaxtaskeiðið. Þjóðin spyr hvers vegna þetta þarf að vera svona, hvers vegna það þarf þrefalt hærri vexti á Íslandi til að taka á verðbólgu sem er svipuð og annars staðar? Svörin eru án undantekningar að það sé vegna þess að hér er svo mikill hagvöxtur. Við erum í öfundsverðri stöðu segir fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. En er það svo?

Sagan af afkomunni og hagvextinum

Þegar  fjármálaráðherra mælti fyrir fjármálaáætlun í vor talaði hann um öfundsverða stöðu Íslands og um að hagvöxtur á Íslandi hafi verið miklu meiri en í nágrannaríkjunum undanfarin ár. Ríkisstjórnin segir þjóðinni söguna af hagvextinum, þjóðinni sem glímir nú við verðbólgu og séríslenska vexti. Ekki er víst að þjóðin finni mikið fyrir þessum hagvexti á eigin skinni því staðreyndin er sú að hagvöxtur á Íslandi á hvern íbúa er bæði lægri en í nágrannaríkjum okkar og sá lægsti af öllum OECD ríkjum. Fólk hefur flutt í miklum mæli hingað til lands til að vinna í ferðaþjónustu og byggingageiranum. Framleiðni í ferðaþjónustu er lítil og landsframleiðsla á mann dregst nú saman. Ferðaþjónustan hefur sömuleiðis töluverð ruðningsáhrif á húsnæðismarkað. Á þetta hefur verið bent t.d. af BHM. Þetta þurfum við að geta rætt opinskátt.

Útgjöld eru miðuð við mesta hagvöxt Evrópu

Þegar aðgerðir stjórnvalda byggja á  hæpnum forsendum er auðvitað hætta á að útkoman verði röng. Ættu stjórnvöld að auka aðhaldið og miða útgjaldaáætlanir í meiri mæli við framleiðniþróun og þróun í hagvexti á mann?  Stafar verðbólguþrýstingur ríkissjóðs mögulega af því að útgjaldaáætlunin miðar við ranga mælikvarða? Samhengið er flókið en það er alltaf hættulegt að taka samhengi úr sögunni. En þannig er sagan af hagvextinum og fjármálaáætluninni sem stjórnvöld segja almenningi. Ríkisstjórn neitar með fjármálaáætlun sinni að vera hluti af lausninni í baráttunni við verðbólguna og helstu áskoranir hagkerfisins. Hún er þvert á móti stór hluti þess vanda sem við blasir.

Greinin birtist fyrst Eyjunni 7. júní 2023