Eigið traust fer aftar í forgangsröðina

Þorsteinn Pálsson

Bankasýslan hefur ekkert lært. Í vikunni birti ríkisendurskoðandi þetta mat sitt á stöðu Íslandsbankamálsins.

Jafnframt krefur ríkisendurskoðandi ríkisstjórnina um skýringar á því hvers vegna hún hefur ekki brugðist við ábendingum hans í skýrslunni frá því í fyrra, meðal annars um ábyrgð hennar á Bankasýslunni.

Í raun er ríkisendurskoðandi að segja: Ríkisstjórnin hefur ekkert lært.

Síðustu daga hafa ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna gengið vasklega fram í því að endurheimta traust á Íslandsbanka. Það er virðingarvert. En þeir hafa ekkert aðhafst til að endurheimta það traust, sem glataðist vegna athafna og athafnaleysis þeirra sjálfra.

Söluferlið var utan armslengdarreglu

Athyglisvert er að ríkisstjórnin og einstakir þingmenn stjórnarflokkanna segja nákvæmlega hvaða starfsmenn eigi að víkja og hvaða skjöl eigi að birta svo að endurheimta megi traust bankans.

Einhverjir kunna að spyrja hvort slík leiðbeiningaskylda samræmist armslengdarreglum í lögum um Bankasýsluna.

Þær gera ekki ráð fyrir að ríkisstjórnin og einstakir þingmenn hlutist almennt til um ákvarðanir af þessu tagi. Armslengdarreglur eru einmitt settar til að byggja upp traust.

Í þessu tilviki er hins vegar ekki unnt að áfellast leiðbeiningar ráðherra og stjórnarþingmanna um innri málefni bankans. Ástæðan er einföld: Armslengdarreglan á ekki við söluferli á hlutum ríkisins.

Þar gildir um allt ferlið ábyrgð ráðherra á framkvæmd stjórnsýslulaga og laga um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

Merki um framför

Líta verður svo á að leiðbeiningar ráðherra og þingmanna um stjórn bankans núna séu einfaldlega viðurkenning á að armslengdarreglan átti aldrei við um söluferlið. Það var og er í heild sinni á ábyrgð ríkisstjórnarinnar sjálfrar.

Þetta þýðir að ríkisstjórnin gætti ekki að ábyrgð sinni þegar hún hleypti söluferlinu af stokkunum, en gengst við henni nú þegar skaðinn skeður í bankanum. Það er merki um framför.

Umræðan hefur þroskast

Forsætisráðherra sagði í fyrra að fjármálaráðherra hefði axlað fulla ábyrgð með því að biðja ríkisendurskoðun um stjórnsýsluúttekt. Formaður fjárlaganefndar og aðrir stjórnarþingmenn keyptu þau rök.

Umræðan hefur þroskast mikið síðan. Þannig hefur Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir þingmaður bent á að það flögraði ekki að bankastjóra Íslandsbanka að axla ábyrgð með því að biðja endurskoðanda um skýrslu.

Hvorki forsætisráðherra né formaður fjárlaganefndar kaupa kattarþvott í bankanum. Við erum komin þar í ferlinu að traust verður aðeins endurheimt með tafarlausri birtingu allra gagna og afsögnum.

Traust á Íslandsbanka í forgang

Ný skoðanakönnun sýnir að fjögur prósent kjósenda eru mjög ánægð með ríkisstjórnina þótt fleiri styðji hana. Hún stendur vafalaust betur en Íslandsbanki. Varla getur þó talist ónákvæmt að draga þá ályktun að vísar ríkisstjórnarinnar og bankans séu sömu megin á mælistiku ánægjuvogarinnar.

Ríkisstjórnin sýnist hafa ákveðið að setja traust á Íslandsbanka í forgang og áhyggjur af eigin trausti aftar í forgangsröðina.

Í þeim tilgangi eru nú haldnir fundir í fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd.

Ekki kæmi þó á óvart að ráðherrarnir eða formenn nefndanna gerðu þar einnig grein fyrir því hvernig ríkisstjórnin hyggst endurvinna eigið traust.

Hitt kæmi reyndar mjög á óvart ef tilkynningar um slíkar ráðstafanir yrðu ekki birtar á þessum fundum áður en sumri tekur að halla.

Þrjár spurningar

Þrjár spurningar vakna strax í þessu sambandi:

Er ekki alveg öruggt að ríkisstjórnin ætlar ekki að draga fram á haust að fallast á að rannsókn fari fram á þeim atriðum, sem út af standa, varðandi lagalega- og pólitíska ábyrgð æðstu handhafa framkvæmdavaldsins?

Er ekki alveg öruggt að sama lögmál gildir um ábyrgð á æðsta stigi stjórnsýslunnar eins og í ríkisfyrirtækjum?

Er ekki alveg öruggt að ríkisstjórnin ætlar að sjá til þess að nýr formaður og nýr framkvæmdastjóri Bankasýslunnar mæti á næsta hluthafafund Íslandsbanka til að fylgja þar eftir hæstu viðmiðum æðstu handhafa framkvæmdavaldsins um gott siðferði og trausta stjórnarhætti?

Greinin birtist fyrst á Eyjunni 6. júlí 2023