Fjárans feluleikirnir

Hanna Katrín Friðriksson Alþingiskosningar 2021 Reykjavík Suður RS 1 sæti Viðreisn

Við þekkj­um það lík­lega mörg að ham­ast eins og hamst­ur á hjóli við hin ýmsu verk­efni sem dúkka upp og ljúka svo vinnu­deg­in­um án þess að hafa kom­ist í að sinna þessu eina máli sem var á dag­skránni þann dag­inn. Þó við get­um flest verið sam­mála um hver hin stóru verk­efni stjórn­valda séu þá veg­ast dag­lega á mis­mun­andi hags­mun­ir ólíkra hópa og viðleitni til að leysa úr slík­um árekstr­um get­ur auðveld­lega orðið til þess að kjarna­mál­in lendi und­ir.

Þá reyn­ir á stefnu­festu stjórn­valda og hversu sam­stiga þau eru. Ekki síður er mik­il­vægt að muna fyr­ir hverja er unnið. Það verður að segj­ast eins og er að það síðar­nefnda virðist stund­um falla milli skips og bryggju, að minnsta kosti ef litið er til þess hvernig mik­il­væg­um upp­lýs­ing­um er kerf­is­bundið haldið frá al­menn­ingi, ekki síst þegar um er að ræða mál þar sem stjórn­völd­um virðist hafa orðið hált á svell­inu.

Tvö slík mál hafa verið áber­andi í umræðunni und­an­farið. Ann­ars veg­ar illa heppnuð sala rík­is­ins á hlut í Íslands­banka þar sem stjórn­völd hafa staðið í vegi fyr­ir skip­an rann­sókn­ar­nefnd­ar svo við kom­umst til botns í því hvað fór úr­skeiðis. Hitt málið er auðvitað langa­vit­leys­an um Lind­ar­hvol. Þar hef­ur stjórn­völd­um á næst­um því aðdá­un­ar­verðan hátt tek­ist að láta umræðuna snú­ast um form frek­ar en efni.

Þessi tvö mál eiga það sam­eig­in­legt að um er að ræða gríðarlega fjár­hags­lega hags­muni al­menn­ings. Það er því erfitt að skilja hvernig hægt er að halda því fram að málsmeðferðin í heild sinni komi þess­um sama al­menn­ingi ekki við. Eða að um til­tekna hluta henn­ar, helst þá sem varða aðkomu stjórn­valda, þurfi að ríkja sér­stök leynd.

Senni­lega er það þessi sama stjórn­mála­menn­ing sem kem­ur í veg fyr­ir að við ræðum í al­vöru þann sam­fé­lags­lega kostnað sem ís­lenska krón­an hef­ur í för með sér. Bara vaxtamun­ur krónu og evru hleyp­ur á hundruðum millj­arða króna þegar litið er til skulda heim­ila, at­vinnu­lífs, rík­is og sveit­ar­fé­laga.

Mun hærri vext­ir vegna krón­unn­ar um­fram það sem er inn­an evr­unn­ar hef­ur marg­föld­un­ar­áhrif á kostnað og veld­ur þar með hærra verðlagi á vöru og þjón­ustu hér á landi. Hin nei­kvæðu áhrif krón­unn­ar koma mun víðar fram; í fákeppn­is­um­hverfi á fjár­mála- og trygg­inga­markaði, í veik­um hluta­bréfa­markaði með til­heyr­andi verri ávöxt­un­ar­tæki­fær­um hér á landi og svona mætti áfram telja.

Sjálfsagt eru ein­hverj­ir kost­ir við ís­lensku krón­una. En á vett­vangi stjórn­mál­anna er staðan sú að rík­is­stjórn­in tel­ur hags­mun­um Íslands best borgið með krónu. Punkt­ur. Af hverju og hvernig er ekki til umræðu af henn­ar hálfu. Það er mjög miður.