Prófsteinn Alþingis

Hanna Katrín Friðriksson Alþingiskosningar 2021 Reykjavík Suður RS 1 sæti Viðreisn

Það vakti athygli og undrun margra, jafnvel stjórnarþingmanna og ráðherra, hversu fljótt þingið var sent í sumarfrí í ár. Fjölmörg stjórnarmál voru sett út af sakramentinu til að flýta ferlinu, jafnvel mál sem ekki var vitað til að sérstakur ágreiningur væri um meðal stjórnarflokkanna. Og nóg var nú um slík mál líka.

Mat mitt á stöðunni var að óþolið meðal stjórnarþingmanna væri orðið slíkt að hætta væri á að upp úr syði. Að planið væri að sleppa taumunum, leyfa einstaka þingmönnum að blása og kæla hópinn í sumar. Koma svo hress og sameinuð til leiks í haust.

Ekki svo vitlaust plan ef hægt væri að skrifa endanlegt handrit inni á skrifstofu forystufólks stjórnarflokkanna. En kaflinn „Klúðrið við sölu ríkiseigna“ var alls ekki inni í handriti ríkisstjórnarinnar – og handritið sennilega ekki skrifað fyrir almenning eða almannahagsmuni.

Við söluna á Íslandsbanka stóðu vonir til að með vönduðum undirbúningi og aðferðafræði fengist sem hæst verð fyrir hlutinn og með skýrum leikreglum væri tryggt að ekki væru einhverjir sérvaldir að maka krókinn.

Niðurstaða Fjármálaeftirlits er að þessar væntingar stóðust ekki. Aðalatriðið núna er að komast að því hvað fór raunverulega úrskeiðis og hvernig. Rannsóknarskýrsla er mikilvægt tæki til þess. Stjórnarandstaðan hefur þess vegna kallað eftir að Alþingi skipi rannsóknarnefnd en forsætisráðherra sér ekki ástæðu til þess að kalla þingið úr sumarfríi.

Það er vont fyrir stjórnmálin að ríkisstjórnin móist svona við og standi vörð um þessi vinnubrögð. Það er auðvitað ekki þannig að þriðja stærsta hlutafjárútboð Íslandssögunnar við sölu á ríkiseign hafi ekkert með stjórnvöld að gera. Það eru hagsmunir okkar að vita hvað fór úrskeiðis á öllum stigum, líka því pólitíska, svo að við getum gert betur næst.

Nýbirt greinargerð setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvolsmálið er annað dæmi um að við þurfum að fara betur ofan í saumana á sölu ríkiseigna. Félagið Lindarhvoll var stofnað í apríl 2016 til að annast umsýslu og sölu eigna sem ríkið fékk afhent vegna samkomulags við kröfuhafa gömlu bankanna. Eignirnar voru mörg hundruð milljarða króna virði. Greinargerðin hefur legið undir leyndarhjúp frá 2018.

Í báðum þessum málum eru gríðarlegir hagsmunir almennings undir. Þess utan er mjög mikilvægt fyrir pólitíkina að klára þau með sóma. Að velta við öllum steinum, skilja ekkert eftir. Allra síst eigin aðkomu. En forsætisráðherra sér heldur ekki ástæðu til að kalla þing saman vegna Lindarhvolsmálsins.

Alþingi á ekki að láta bjóða sér þessi vinnubrögð. Alþingi á ekki heldur að bjóða almenningi upp á þessu vinnubrögð.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. júlí 2023