Íslandsmót í kyrrstöðu

Á meðan landsmenn njóta samvista hver við annan í sumar hafa ríkisstjórnarflokkarnir varið sumrinu í opinberar erjur. Hávær hróp úr stjórnarráðinu sýna alvarlegan ágreining og að samstarfið snýst fyrst og fremst um hvaða flokkur er bestur í að stöðva mál samstarfsflokkanna. Það er eins og að í stjórnarráðinu fari fram Íslandsmót í kyrrstöðu. Keppni um hver sé bestur í því að gera ekkert. Sem stendur virðast Vinstri græn leiða miðað við hávaðann í Sjálfstæðisstúkunni.

Á dögunum dró hins vegar til tíðinda þegar Óli Björn Kárason þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks skrifaði grein hér í Morgunblaðið þar sem hann býsnaðist yfir öðrum flokkum en samstarfsflokkunum. Í þetta sinn beindist gremjan m.a. að tillögum Viðreisnar við fjárlagagerð síðastliðinn vetur. Var á orðum hans að skilja að hann styddi ábyrg ríkisfjármál. Tvennt þarf að nefna í kjölfar skrifanna.

Hver er maðurinn?

Hið fyrra ætti að vera augljóst en það er sú staðreynd að formaður Sjálfstæðisflokksins er fjármálaráðherra. Það hefur hann raunar verið um margra ára skeið. Hallarekstur upp á 120 milljarða í ár er þess vegna fyrst og fremst á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins. Fjárlagafrumvarp boðaði 89 milljarða halla þegar það var lagt fram í september en í desember hafði ríkisstjórninni tekist að gera betur. Lokaniðurstaðan varð 120 milljarða halli. Markmið ríkisstjórnarinnar um samfelldan hallarekstur í tæpan áratug er sömuleiðis á ábyrgð Sjálfstæðisflokks.

Síðara atriðið er að Viðreisn lagði fram hagræðingartillögur við afgreiðslu fjárlaga. Útgjaldatillögur flokksins voru fjármagnaðar. Tillögurnar voru hins vegar felldar af þingmönnum Sjálfstæðisflokks og hinna ríkisstjórnarflokkanna. Þessu virðist þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks alveg hafa gleymt.

Viðreisn lagði til að skuldir ríkisins yrðu lækkaðar um 20 milljarða strax á þessu ári. Það munar um slíkar tölur og í því samhengi má að nefna að hallarekstur ríkisstjórnarinnar hófst árið 2019, áður en mikil útgjöld vegna heimsfaraldurs skullu á. Það virðist þannig litlu skipta fyrir Sjálfstæðisflokkinn hvort efnahagsaðstæður eru góðar eða erfiðar, niðurstaðan er og verður hallarekstur. Vaxtakostnaður er þriðji stærsti fjárlagaliður ríkisins, sem sýnir mikilvægi þess að vinda ofan af því að tekjur dugi ekki fyrir útgjöldum. Þess vegna gengur ekki upp í fjárlagaumræðu að ræða aldrei um kostnað af skuldum.

Viðreisn lagði jafnframt til að dregin yrði tilbaka fjölgun ráðuneyta ríkisstjórnarinnar og þannig hagrætt fyrir þrjá milljarða. Ekki há upphæð í stóra samhenginu en hefur þýðingu. Tillögur um tekjuöflun voru lagðar fram, veiðigjöld yrðu hækkuð um sex milljarða. Methagnaður var í sjávarútvegi árið 2021; um 65 milljarðar eftir skatta og gjöld. Markaðsvirði veiðiréttinda var um sex milljörðum hærra en veiðigjöld og hækkun því samsvarandi. Önnur tillaga til tekjuöflunar laut að því að nýta græna skatta og hvata til að takast á við loftslagsvandann, en í sumar lagði OECD einmitt til slíkt kolefnisgjald. Það hefði aukið tekjur ríkissjóðs um 13,5 milljarða.

Þá lögðum við til að Íslandsbanki yrði seldur að fullu á árinu, en nú er orðið ljóst að árangur fjármálaráðherra í síðara útboði bankans hefur haft þær pólitísku afleiðingar að af frekari sölu getur ekki orðið í bráð. Til þess nýtur fjármálaráðherra ekki trausts innan ríkisstjórnarinnar. Tugmilljarða tekjur af næstu sölu, sem reiknað var með fyrir ríkissjóð á þessu ári, mun því vanta. Söluandvirði af frekari sölu hefði mátt nýta til að greiða niður skuldir.

Hvað varðar útgjöld þá lagði Viðreisn til að sex milljörðum yrði varið til að efla heilbrigðiskerfið og að sjö og hálfur milljarður færi í að styðja við barnafjölskyldur og ungt fólk í formi vaxtabóta, húsnæðisbóta og barnabóta. Það er sá hópur sem hefur tekið á sig þyngstu byrðarnar vegna vaxtahækkana. Útgjöld vörðuðu heilbrigði og velferð.

Með lyklavöld í fjármálaráðuneytinu

Þegar fjármálaáætlun 2024-2028 var lögð fram í vor stóðu vonir til að hún tæki mið af tólf stýrivaxtahækkunum í röð. En útgjaldapólitíkin var enn að mestu hin sama. Viðreisn var ekki ein um gagnrýni. Fjármálaráð benti á að þörf væri á aðhaldi í opinberum fjármálum sem og fjölmargir umsagnaraðilar. Þingmenn Sjálfstæðisflokks svöruðu gagnrýni aðallega með því að segja að stjórnarandstaðan hefði ekki liðsinnt þeim um tillögur. Það er í sjálfu sér heiðarleg viðurkenning á því að ríkisstjórnin stendur ráðalaus frammi fyrir verkefninu. Sömu tilburðir sjást nú hjá þingflokksformanninum.

Staðreyndin er sú að flokkur sem fer með lyklavöld í fjármálaráðuneytinu getur auðvitað skrifað sig rauðan í framan í Morgunblaðið um tillögur Viðreisnar í ríkisfjármálum. Eftir stendur að Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt í verki að hallarekstur verður áfram einkennismerki flokksins í fjármálaráðuneytinu. Og eins og jafnan þá endar hallarekstur með skattahækkunum, eins og sést nú þegar fjármálaráðherra boðar 1% skattahækkun á fyrirtæki landsins í nýrri fjármálaáætlun.

Þannig eru ríkisfjármál á vakt Sjálfstæðisflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.