Rokkarnir þögnuðu

Þorsteinn Pálsson

Forsætisráðherra hitti naglann á höfuðið þegar hún sagði að kergjan í stærsta stjórnarflokknum lýsti fremur veikleika innanbúðar þar á bæ en brestum í ríkisstjórninni. Rokkarnir þögnuðu.

Katrín Jakobsdóttir getur pollróleg staðhæft þetta. Hún veit sem er að hugmyndafræði meirihlutans í stærsta þingflokki ríkisstjórnarinnar er nær Miðflokknum en frjálslyndum öflum umhverfis pólitísku miðjuna. Meðan sú staða er læst skapa ólguraddirnar litla hættu.

Málefnalega hefur ekkert óvænt komið upp. Öllum var ljóst frá byrjun hvað kyrrstöðupólitík þýðir og að hún yrði dýrkeypt fyrir fyrirtæki og heimili í landinu.

Lengri verðbólgutími en í Evrópu

Öfugt við önnur ríki fór verðbólga af stað á Íslandi um leið og heimsfaraldurinn skall á. Ástæðan er sú að krónan hrapaði þegar ferðaþjónustan stöðvaðist, en gjaldmiðlar annarra þjóða héldu þá að mestu gildi sínu.

Verðbólga vegna heimsfaraldursins hefur því staðið lengur á Íslandi en annars staðar.

Um leið og efnahagslífið fór aftur í gang tók verðbólgan hvarvetna kipp. Hún varð jafn mikill hér og í grannríkjunum þótt orkuverðshækkanir hefðu helmingi minni áhrif í okkar þjóðarbúskap.

Svarið er: Þögn

Nú lækkar verðbólgan. En það gerist hægar en í almennt í Evrópu. Þetta er svona þrátt fyrir tvöfalt til þrefalt hærri vexti.

Að þessu leyti fer Ísland mun verr út úr heimsfaraldrinum en flestar aðrar þjóðir.

Gefum okkur að ríkisstjórnin hafi lög að mæla þegar hún segir að verðbólgan fari upp vegna aðstæðna, sem eru ekki á hennar valdi, en lækki svo vegna aðgerða hennar. Þá er eðlilegt að hún svari því hvers vegna þrefalt hærri vextir skili á lengri tíma minni árangri en í flestum grannlöndunum.

Svar hennar við þessari spurningu er: Þögn.

Samanburður við efnahagslegt olnbogabarn

Grikkland hefur lengi verið efnahagslegt olnbogabarn Evrópu. Í Vísbendingagrein í síðasta mánuði benti Ásgeir Brynjar Torfason hagfræðingur á að hagvöxtur hefði verið einna mestur í Grikklandi á evrusvæðinu, en eigi að síður væri verðbólga þar komin niður fyrir þrjú prósent.

Hitt er líka athyglisvert, sem hagfræðingurinn staðhæfir, að gríðarlega hátt skuldahlutfall gríska ríkisins hafi lækkað um tíunda hluta á síðasta ári, en hér hafi lágt skuldahlutfall hækkað þrátt fyrir mikinn hagvöxt.

Öllu alvarlegri er þó sú staðreynd að Grikkir greiða lægra hlutfall af opinberum útgjöldum í vexti en Íslendingar.

Þessi samanburður við efnahagslegt olnbogabarn Evrópu er vísbending um að hér séu kerfislægar brotalamir, sem kyrrstöðupólitíkin leyfir ekki að tekið sé á.

Betri lífskjör versna hér en lakari lífskjör að batna þar.

Heilræði OECD

Fyrr í sumar gaf OECD ríkisstjórninni nokkur mikilvæg heilræði, sem kalla á erfiðar ákvarðanir.

Nefna má tillögu um að innleiða fjármálaregluna fyrr en ráðgert er. Klípan er að það sem því fylgir fellur fyrir utan ramma kyrrstöðustefnunnar.

Þá er ríkisstjórnin hvött til að hækka virðisaukaskatt í ferðaþjónustu til jafns við almenna skatthlutfallið. Ritstjórar Morgunblaðsins tóku undir þessa tillögu í síðustu viku. Þrátt fyrir þann veigamikla stuðning telst slík aðgerð vera í andstöðu við kyrrstöðustefnuna.

Enn fremur er lagt til að kolefnisgjald verði lagt á alla losun gróðurhúsalofttegunda. Háleit loftslagsmarkmið breyta ekki hinu að slík kerfisbreyting samræmist ekki kyrrstöðustefnunni.

Ábyrgðin

Ríkisstjórnin hefur ekki einu sinni tekið ráð OECD til umræðu. Hún getur að sjálfsögðu valið aðrar leiðir til að draga úr þenslu, auka aðhald í ríkisfjármálum og ná lágmarksárangri í loftslagsmálum.

OECD er fyrst og fremst að benda á að það er ekki kostur í stöðunni að sitja með hendur í skauti. En það er einmitt eðli stjórnarsamstarfsins. Það fellur bara utan við verksvið sérfræðinga OECD að skilja það.

Stærsti þingflokkurinn í stjórnarsamstarfinu valdi af hugmyndafræðilegum ástæðum kyrrstöðusamstarf lengst til vinstri fremur en málamiðlanir við frjálslynd öfl á miðjunni og þær breytingar sem því hefðu fylgt.

Í Morgunblaðsgrein í gær staðfestir formaður þingflokks sjálfstæðismanna að það hugmyndafræðilega mat hefur ekki breyst. Þar liggur ábyrgðin á þeirri sjálfheldu, sem Alþingi er í og verður í til kosninga.

Heimilin og fyrirtækin borga brúsann.

Greinin birtist fyrst á Eyjunni 3. ágúst 2023