Verðmæti okkar allra

Þau eru ófá málin sem bíða umræðu og afgreiðslu á Alþingi þegar þingstörf hefjast í næsta mánuði. Vonandi verður fókusinn á stóru verkefnin í þágu þjóðarinnar í stað þess að vera áfram litaður af því mikla óþoli sem komið er í samstarf stjórnarflokkanna.

Eitt af stóru hagsmunamálunum er fyrirkomulag nýtingar sameiginlegra verðmæta þjóðarinnar, hvort sem um er að ræða orkuframleiðslu, sjávarútveg eða ferðaþjónustu. Þar þarf að fara saman áhersla á sjálfbærni og sanngjarnan ávinning samfélagsins. Það er mikilvægt að setja skýran ramma utan um nýtingu auðlindanna samfara auðlindagjaldi sem greitt yrði fyrir að nýta sameiginleg verðmæti. Í Viðreisn höfum við verið mjög skýr með þá sýn að markaðslausnir séu nýttar til að leggja mat á verðmætið og þar með afrakstur þjóðarinnar. Þannig er gegnsæið mest og hagur almennings best tryggður.

Á þessu kjörtímabili hefur staðið yfir vinna á vegum Svandísar Svavarsdóttur ráðherra sjávarútvegsmála undir yfirskriftinni Auðlindin okkar. Nú liggja fyrir 60 bráðabirgðatillögur sem á einn eða annan hátt snerta umhverfismál, hámörkun verðmæta eða sanngjarna dreifingu verðmætanna. Ráðherra hefur boðað að frumvörp sem byggja á einhverjum þessara tillagna verði lögð fram og afgreidd í vetur.

Í ljósi reynslunnar er kannski ekki ástæða til sérstakrar bjartsýni á að grundvallarbreytingar verði kynntar á dreifingu verðmætanna þannig að stærri og sanngjarnari hlutur renni til samfélagsins. En þó er aldrei að vita. Þungi í gagnrýni á núverandi fyrirkomulag verður sífellt meiri enda um að ræða fáheyrða auðsöfnun meðal handhafa veiðiheimilda. Andstaða stjórnvalda við að tímabinda afnotaréttinn, líkt og m.a. Viðreisn hefur talað fyrir, gerir svo að verkum að rétturinn til að nýta sjávarauðlindina færist á milli kynslóða líkt og um einkaeign sé að ræða.

Við í Viðreisn viljum tímabinda afnotaréttinn af því að þannig er hægt að ná tveimur mjög mikilvægum markmiðum í löggjöf um þessi efni. Annars vegar því að lagareglurnar endurspegli með ótvíræðum hætti sameign þjóðarinnar og hins vegar því að þær stuðli að sem mestri hagkvæmni veiðanna. Þessar áherslur eru ekki nýjar af nálinni, áratugum saman hefur verið talað fyrir því að markaðurinn meti verðmæti auðlindarinnar og arður til þjóðarinnar taki mið af því mati. Með öðrum orðum að útgerðin sjálf verðleggi auðlindarrentuna í frjálsri samkeppni.

Það er ekki vinstri flokkurinn í ríkisstjórn Íslands sem sér þessari nálgun allt til foráttu. Ekki heldur miðjuflokkurinn í ríkisstjórninni. Nei, það er hægri flokkurinn í ríkisstjórn Íslands sem vill ekki nýta markaðslausnir til að skera úr um eðlilega greiðslu útgerðarinnar til þjóðarinnar.

Já, þetta verður áhugaverður þingvetur.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu