Faraldurinn í fjárlögum

Þegar rík­is­stjórn­in er gagn­rýnd fyr­ir áfram­hald­andi halla­rekst­ur þá er hún gjörn á að benda á heims­far­ald­ur­inn sem skýr­ingu. Vanda­málið er hins veg­ar að það var kom­inn far­ald­ur í fjár­lög­in löngu fyr­ir heims­far­ald­ur og að það verður far­ald­ur í fjár­lög­un­um löngu eft­ir heims­far­ald­ur.

Fjár­fest­ing stjórn­valda í heil­brigðisþjón­ustu er á sama tími minni en á öðrum Norður­lönd­um. Fátt ein­kenn­ir heil­brigðis- og öldrun­arþjón­ustu á Íslandi meira en biðin eft­ir þjón­ustu. Þetta er reynd­in þrátt fyr­ir að hér á landi sé starf­andi frá­bært heil­brigðis­starfs­fólk, allt frá lækn­um, hjúkr­un­ar­fræðing­um og sjúkra­liðum til fé­lags­ráðgjafa og iðjuþjálfa. Fjár­fest­ing­in er lít­il en skatt­heimta óvíða hærri en á Íslandi. Hvað er það þá sem veld­ur?

Ævin­týra­leg­ur vaxta­kostnaður

Vaxta­gjöld rík­is­ins á næsta ári verða 111 millj­arðar skv. fjár­laga­frum­varpi fjár­málaráðherra. Vaxta­kostnaður er því fjórði stærsti út­gjaldaliður rík­is­ins. Þess vegna geng­ur ekki upp í umræðu um fjár­lög og stöðu rík­is­ins að ræða ekki kostnað rík­is­ins af skuld­um. Þessi æv­in­týra­legi vaxta­kostnaður hef­ur áhrif á getu stjórn­valda til að fjár­festa í heil­brigðisþjón­ustu og innviðum sem og að veita sann­gjörn­um til­færsl­um til heim­ila í vanda.

Árið 2021 námu skatt­tekj­ur hins op­in­bera að viðbættu fram­lagi í sjóðasöfn­un líf­eyr­is­sjóða næst­um 45% af lands­fram­leiðslu sam­kvæmt OECD. Aðeins Dan­mörk var hærri en Ísland á þess­um mæli­kv­arða. Við erum að nálg­ast heims­meist­ara­titil að þessu leyti. Við þurf­um að taka sjóðasöfn­un líf­eyr­is­sjóða með í reikn­ings­dæmið þegar um­fang hins op­in­bera er skoðað í alþjóðlegu sam­hengi vegna þess að mörg lönd fjár­magna líf­eyri­s­kerf­in sín með gegn­um­streymi.

Háskattalandið Ísland

Það er merki­lega lít­il umræða um hversu háir skatt­ar eru á Íslandi og hvernig það má vera að þess­ir háu skatt­ar skila engu að síður heil­brigðisþjón­ustu sem ein­kenn­ist fyrst og fremst af biðlist­um. Svo hár skatt­ur ætti að skila heil­brigðum op­in­ber­um rekstri og sterkri vel­ferð sem stenst sam­an­b­urð við kerfi hinna Norður­land­anna. Svo er ein­fald­lega ekki. Ábyrg hag­stjórn snýst um að sýna hóf­semi í skatt­lagn­ingu og að fara vel með fjár­muni al­menn­ings. Skyn­söm vel­ferðar­stefna snýst um að for­gangsraða fjár­fest­ing­um í þágu al­manna­hags­muna.

Fjár­lög næsta árs hafa gengið í gegn­um fyrstu umræðu á þingi og áfram er halli á rík­is­stjórn­ar­heim­il­inu. Heim­ili og fyr­ir­tæki glíma við mikla verðbólgu og enn hærri vexti en á sama tíma fer orka rík­is­stjórn­ar­inn­ar í inn­byrðis erj­ur. Sundruð rík­is­stjórn­in sýn­ir al­menn­ingi aft­ur og aft­ur að hún starfar ekki eft­ir skýrri stefnu og er fyr­ir vikið stefnu­laus í lyk­il­mála­flokk­um. Sundruð bæði hvað varðar hag­stjórn og vel­ferð. Hún er sundruð í lög­gæslu-, út­lend­inga-, hús­næðis- og orku­mál­um og reynd­ar í flest­um mál­um sem snerta venju­legt fólk í land­inu. Þetta ástand hef­ur af­leiðing­ar því að á meðan bíða verk­efn­in ein­fald­lega næstu rík­is­stjórn­ar.

Millistétt­in gleym­ist

Seðlabank­inn hef­ur ít­rekað óskað eft­ir því að rík­is­stjórn­in beiti sér gegn verðbólgu og vinni með bank­an­um. Seðlabank­inn hef­ur hins veg­ar verið skil­inn einn eft­ir með verk­efnið. Fyr­ir vikið hef­ur Seðlabank­inn hækkað stýri­vexti 14 sinn­um í röð og vext­ir nálg­ast nú rúss­neskt vaxta­stig. Tugþúsund­ir finna fyr­ir hærri af­borg­un­um af hús­næðislán­um og enn aðrir sjá hvernig höfuðstóll hús­næðisláns hækk­ar þrátt fyr­ir að borgað sé af láni mánaðarlega. Hvert sem komið er heyr­ist að fólk er með hug­ann við verðbólgu og heim­il­is­bók­haldið.

Þess­ar vaxta­hækk­an­ir bitna harðast á ungu fólki og barna­fjöl­skyld­um. Þetta er millistétt­in. Aldrei hafa fleiri keypt sér sína fyrstu íbúð en á ár­un­um 2020 og 2021. Fyrstu kaup­end­ur og millistétt­in eiga hins veg­ar ekk­ert skjól hjá rík­is­stjórn í landi þar sem meðal­vext­ir á óverðtryggðum hús­næðislán­um eru yfir 10%, marg­falt hærri en inn­an evru­svæðis­ins. Rík­is­stjórn­in hef­ur ekki viljað beita hús­næðis-, vaxta- og barna­bót­um til að verja millistétt­ina og skil­ur hana eft­ir með höggið af full­um þunga.

Síðan er það fólkið sem komst ekki inn á fast­eigna­markaðinn fyr­ir hækk­an­ir. Núna get­ur varla nokk­ur keypt sér fyrstu íbúð nema að eiga bak­land sem get­ur veitt fjár­hags­leg­an stuðning. Fast­eigna­verð hef­ur aldrei verið hærra í hlut­falli við laun. Á síðasta ára­tug hef­ur fast­eigna­verð á Íslandi hækkað mest í sam­an­b­urði 41 lands OECD; um 100% að raun­v­irði. Þessi hækk­un er um fjórðung­ur á hinum Norður­lönd­un­um.

Stjórn­völd verða að sýna for­ystu í ástandi sem þessu og vera skýr um mark­mið aðgerða og for­gangs­röðun. Það gerði Viðreisn við af­greiðslu fjár­laga fyr­ir árið 2023. Þá lögðum við fram til­lög­ur til að verja millistétt­ina í gegn­um vaxta- og hús­næðis­bóta­kerfið og með greiðslum barna­bóta. Það mun­um við aft­ur gera í ár. Við lögðum ein fram hagræðing­ar­til­lög­ur sem beind­ust að því að fara bet­ur með fjár­muni í stjórn­sýsl­unni, að ráðuneyt­um yrði aft­ur fækkað og skuld­ir rík­is­ins yrðu greidd­ar niður um 20 millj­arða á ár­inu. Við lögðum til tekju­öfl­un með hækk­un veiðigjalda og kol­efn­is­gjalda. All­ar til­lög­ur Viðreisn­ar spegluðu þá hug­mynda­fræði að sýna ábyrgð í efna­hags­mál­um og trú­verðugar til­lög­ur í vel­ferðar­mál­um.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu