Hvert fara skattarnir?

Það eru all­ir að tala um heil­brigðismál. Flest þekkj­um við sem bet­ur fer góðar sög­ur af því hvernig heil­brigðis­kerfið hef­ur tekið utan um fólk, en hinar sög­urn­ar eru líka til. Af slæmri stöðu í bráðaþjón­ustu Land­spít­al­ans og vax­andi biðlist­um eft­ir geðheil­brigðisþjón­ustu, þjón­ustu sér­fræðilækna, sjúkraþjálf­ara og tal­meina­fræðinga. Staðan þegar kem­ur að þjón­ustu við elstu íbúa þessa lands er skamm­ar­leg.

Það sem brenn­ur nú á fólki til viðbót­ar er staðan í grunnþjón­ust­unni. Víða inn­an heilsu­gæsl­unn­ar eru biðlist­arn­ir komn­ir í harða bar­áttu við aðra ill­ræmda biðlista inn­an heil­brigðis­kerf­is­ins.

Það er risa­vaxið verk­efni að veita stöðuga og góða heil­brigðisþjón­ustu óháð efna­hag og bú­setu og á því eru marg­ar hliðar. Mig lang­ar að setja málið í sam­hengi við skatta. Í fjár­laga­frum­varpi rík­is­stjórn­ar­inn­ar fyr­ir árið 2024 eru skatt­tekj­ur rík­is­sjóðs og trygg­inga­gjöld áætluð um 1.200 millj­arðar kr. eða um 27% af VLF. Það þýðir að 27% af markaðsvirði allr­ar vöru og þjón­ustu sem fram­leidd er inn­an­lands renna í rík­is­sjóð í gegn­um skatta og gjöld.

Það er sam­fé­lags­leg sátt velflestra í ís­lensku sam­fé­lagi um að við leggj­um okk­ar af mörk­um í gegn­um skatt­kerfið til að tryggja hér mik­il­væga grunnþjón­ustu, ekki síst heil­brigðisþjón­ustu. Vax­andi til­finn­ing fyr­ir því að skatt­arn­ir séu ekki nýtt­ir nægi­lega vel til að standa und­ir þess­ari grunnþjón­ustu er hins veg­ar rauður þráður í sam­töl­um við fólk. Og svo hitt, að flest bend­ir til að millistétt­inni verði áfram gert að bera þyngstu byrðarn­ar.

Þessu til viðbót­ar kem­ur svo sturluð vaxta­byrði á heim­ili og fyr­ir­tæki sem þurfa að sætta sig við krónu­hag­kerfið. Þessi vaxta­byrði er sann­ar­lega sam­svar­andi viðbót­ar­skatt­lagn­ingu, þó ekki sé á hana bæt­andi. Mun­ur­inn er þó sá að þess­ar álög­ur leggj­ast þyngst á nýja íbúðakaup­end­ur, yf­ir­leitt ungt fólk. Þar að auki skila þess­ar álög­ur sér ekki beint í rík­is­sjóð líkt og skatt­arn­ir held­ur er um að ræða fjár­streymi frá heim­il­um til fjár­magnseig­enda. Viðbót­ar­vaxta­kostnaður rík­is­sjóðs vegna ís­lensku krón­unn­ar er svo sér­kapítuli fyr­ir sig. Senni­lega grát­leg­ustu tug­millj­arða út­gjöld Íslands­sög­unn­ar.

Það er brýnna úr­bóta þörf víða í heil­brigðis­kerf­inu. Um það er ekki deilt. Það er líka ljóst að í til­tek­in verk­efni þarf meira fjár­magn til að bæta úr upp­söfnuðum bráðavanda. En það er mik­il­væg­ara en nokkru sinni að sýna ábyrgð og aðhald og leggja áherslu á bætta for­gangs­röðun. Með skýrri sýn, auknu gegn­sæi og sam­stilltu átaki er hægt að nýta skatt­pen­inga heim­ila og fyr­ir­tækja bet­ur. Það hafa verið og verða áfram skila­boð okk­ar í Viðreisn.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. sept