Upprás næstu stjórnar

Þorsteinn Pálsson

Umræðan um stefnuræðu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra á Alþingi í gærkvöldi var eins konar sambland af svanasöng og upprás fyrir málefnagrundvöll næstu ríkisstjórnar.

Þá ályktun má draga af umræðunni að nú gefist flokkum í stjórnarandstöðu rúmur tími til að horfa lengra fram á við og ræða hugmyndir um málefnagrundvöll næstu ríkisstjórnar meðan þingmenn stjórnarflokkanna sjá sjálfir um að sýna fram á að sameiginlegu pólitísku erindi stjórnarsamstarfsins sé lokið, þótt ríkisstjórnin sitji.

Þá og nú

Skoðanakannanir hafa um nokkurn tíma sýnt að vilji kjósenda standi til þess að Kristrún Frostadóttir formaður Samylkingar taki við lyklavöldum í stjórnarráðinu af Katrínu Jakobsdóttur.

Samfylkingin er nú langstærsti flokkur landsins í könnunum með ríflega 28% fylgi. Í aðdraganda kosninga 2017 var VG hins vegar leiðandi afl á vinstri væng stjórnmálanna og næst stærsti flokkur landsins með 20 til 25% fylgi.

Í kosningunum það ár tókst VG að halda þessari forystustöðu með rúmlega 17% atkvæða.

Fylgisþróun Samfylkingar nú er hliðstæð en þó heldur sterkari en VG fyrir sex árum.

Málefnaleg hliðstæða

Umræðan í gærkvöldi sýnir að hliðstæðan kemur einnig fram í málflutningi.

Fyrir kosningarnar 2017 lagði VG mestan þunga í umbætur í heilbrigðismálum og náði yfir 17% fylgi þrátt fyrir að fara ekki dult með fyrirætlanir um skattahækkanir upp á allt að 70 milljarða króna.

Kristrún Frostadóttir einskorðar pólitík sína við þann hluta af kjarna jafnaðarstefnunnar, sem snýr að auknum útgjöldum til heilbrigðis- og velferðarmála. Hún kynnti ekki tölur um skattahækkanir í gærkvöldi. En á Samstöð sósíalista fyrir nokkru sagði hún að skattar hækki ekki bara á hæstu laun heldur einnig á millitekjufólk.

Þessar miklu almennu skattahækkanir munu koma ofan á ný umferðar- og flýtigjöld, sem ríkisstjórnin er með á prjónunum samkvæmt samgöngusáttmálanum.

Hrein vinstristjórn

Málefnalegi munurinn er helstur sá að Kristrún Frostadóttir hefur lagt önnur mál til hliðar og ætlar hinum flokkunum að kljást við umdeild verkefni. Það á til að mynda við um orkumál, loftslagsmál, sjávarútvegsmál og Evrópumál.

Það sem skiptir sköpum í þessum samanburði er þó hitt að kannanir sýna að hún gæti myndað hreina vinstristjórn um skattahækkanir og aukin velferðarútgjöld með Pírötum, VG og Flokki fólksins. Nái  Sósíalistar inn á Alþingi styrkist þessi meirihluti enn.

Katrín Jakobsdóttir gat aftur á móti ekki myndað hreina vinstri stjórn. Þá kaus meirihluti þjóðarinnar flokka, sem ekki boðuðu skattahækkanir. Þess vegna urðu þær ekki.

Nái Kristrún Frostadóttir þeim vinstri meirihluta, sem kannanir sýna, þarf hún hins vegar ekki að fara í málamiðlanir um skattahækkanir. Í raun hefur hún heldur ekki mikið svigrúm til málamiðlunar eftir að hafa gefið önnur mál frá sér fyrir kosningar.

Miðjustjórn

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir dró upp breiðari og frjálslyndari mynd af málefnagrundvelli, sem Viðreisn vildi sjá miðjuna í stjórnmálunum sameinast um.

Hún benti á að Ísland er í hópi þeirra ríkja, sem hafa hæsta heildarskatta og að vandi velferðarkerfisins sé ekki of lágir skattar heldur of mikill vaxtakostnaður ríkissjóðs. Hann er sannarlega margfalt hærri en þeirra velferðarlanda sem við berum okkur helst saman við.

Meðan Kristrún Frostadóttir segir að það sé ekki kjarnahlutverk jafnaðarstefnunnar að eyða þeim gífurlega aðstöðumun, sem felst í því að heimili, minni fyrirtæki og velferðarkerfið greiða tvöfalt hærri vexti en stóru útflutningsfyrirtækin, segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir að miðjustjórn megi ekki loka augunum fyrir því óréttlæti. Þetta er ný pólitísk staða.

Fjarlægari kostir

Í umræðunum í gærkvöldi var miðjustjórn eini kosturinn sem nefndur var gegn þeirri vinstristjórn, sem Kristrún Frostadóttir hefur á hendi í skoðanakönnunum.

Vandi Framsóknar og Viðreisnar, sem nú mælast með svipað fylgi, er sá að flokkarnir þyrftu hvor um sig að fá allt að 5% fylgisaukningu til þess að frjálslynd miðjustjórn þeirra með Samfylkingu gæti talist raunhæfur kostur.

Miðjustjórn til hægri skortir líka atkvæði auk þess sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki gefið til kynna að honum þóknist slíkt samstarf. Hrein hægristjórn Sjálfstæðisflokks og Miðflokks er svo enn fjarlægari.

Greinin birtist fyrst á Eyjunni 14. september 2023