Vegasalt eða reiptog

Á Safna­eyj­unni í hjarta Berlín­ar á bráðum að af­hjúpa minn­is­varða um frelsi og sam­stöðu til að minn­ast sam­ein­ing­ar Þýska­lands eft­ir kalda stríðið. Þetta er risa­verk, minn­ir á af­langa skál eða bát sem verður um sex metr­ar á hæð og 50 metr­ar á lengd. Þegar um 20 manns safn­ast sam­an á ann­arri hliðinni mun minn­is­varðinn byrja að hall­ast. Ef um 50 manns safn­ast þar sam­an mun hann fara niður um 1,5 metra. „Við erum fólkið. Við erum ein þjóð“ verður skrifað á palli minn­is­varðans.

Hug­mynda­fræðin á bak við verkið er í stuttu máli sú að það sé fé­lags­leg­ur skúlp­túr sem lifni við og kom­ist á hreyf­ingu þegar fólk safn­ast sam­an og á sam­skipti sín á milli. Ein­hvers kon­ar vega­salt. Ef hall­inn verður of mik­ill stefn­ir hins veg­ar í óefni. Samstaða fólks komi hlut­um þannig á nauðsyn­lega hreyf­ingu, öfg­ar sökkvi bát­um.

Íslenska sum­arið hef­ur verið gegn­sýrt af reip­togi stjórn­mál­anna um hval­veiðar. Til að gæta ná­kvæmni þá voru það fyrst og fremst þing­menn stjórn­ar­meiri­hlut­ans sem röðuðu sér á kaðal­inn. Nú eru kafla­skil og þess má vænta að málið verði tölu­vert rætt á þingi á kom­andi vik­um og mánuðum. Spurn­ing­in er hvort við beit­um þar hug­mynda­fræði vega­salts­ins eða reip­togs­ins. Sam­vinna eða sundr­ung?

Með fullri virðingu fyr­ir hval­veiðimál­inu þá hvíla brýnni úr­lausn­ar­efni á lands­mönn­um. Hafi ein­hverj­ir látið sig dreyma um að áskor­an­ir sem varða sturlaða vaxtaáþján ís­lenskra heim­ila og fyr­ir­tækja, him­in­háa verðbólgu og brota­lam­ir í heil­brigðis­kerf­inu okk­ar myndu hverfa í sum­ar þá voru það alltaf mjög óraun­hæf­ir draum­ar. Önnur ri­sa­mál eru líka mjög aðkallandi. Við þurf­um að rjúfa kyrr­stöðu í orku- og auðlinda­mál­um og í hús­næðismál­um.

Allt eru þetta mál sem stjórn­mál­in hafa tog­ast á um og það reip­tog hef­ur oft­ar en ekki verið fyrst og fremst á milli stjórn­ar­flokk­anna eins frá­leitt og það nú er. Ef rík­is­stjórn­in var ekki mynduð um lausn­ir á þess­um kjarna­mál­um sem varða þjóðina svo miklu, um hvað var hún þá mynduð?

Viðreisn vill koma mál­um á hreyf­ingu. Nota vega­saltið. Í þeim anda hef­ur Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir formaður flokks­ins óskað eft­ir breiðu sam­tali formanna allra flokka á Alþingi til að kanna mögu­leik­ann á breiðri sam­stöðu um lög­gjöf um út­lend­inga. Enn eitt málið sem stjórn­völd hafa tog­ast á um.

Sam­skipti og jafn­væg­islist þýða ekki enda­lok póli­tískr­ar hug­mynda­fræði. Þvert á móti. Það er gam­aldags krafta­keppni sem gef­ur mis­mun­andi hug­mynda­fræði lítið sem ekk­ert pláss. Því þurf­um við að breyta.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. september