Réttlæti, velferð og kvennakjör

Ég man vel hvað ég var stolt dag­inn sem ég fékk að fara með mömmu í strætó úr Breiðholt­inu ofan í bæ til að taka þátt í bylt­ing­unni. Þetta var 24. októ­ber 1975. Á leiðinni út­skýrði mamma, kenn­ari til ára­tuga, fyr­ir mér að með sam­stöðunni væru kon­ur að ryðja braut­ina fyr­ir okk­ur sem yngri vær­um. Við mynd­um njóta þess síðar. Það var rétt hjá henni. Ég hef alla ævi notið góðs af bar­áttu mömmu minn­ar og henn­ar kyn­slóðar.

Und­an­far­in ár og ára­tugi hef­ur margt áunn­ist í jafn­rétt­island­inu Íslandi. Við stönd­um framar­lega í mál­efn­um sem varða jafn­rétti kynj­anna, höf­um reynst góð fyr­ir­mynd og hvatt aðra til góðra verka. En það er líka margt óunnið. Til dæm­is höf­um við ekki náð því sjálf­sagða mark­miði að upp­ræta kyn­bund­inn launamun og kyn­bundið of­beldi er því miður enn ljót­ur blett­ur á sam­fé­lag­inu okk­ar.

Jafn­rétti hef­ur frá upp­hafi verið einn af horn­stein­um Viðreisn­ar. Við höf­um komið í gegn mál­um sem hafa mik­il og góð áhrif til jafn­rétt­is og erum hvergi nærri hætt. Við feng­um lög­um um skilnað breytt á hátt sem ger­ir þolend­um of­beld­is auðveld­ara að losna úr hjóna­bandi. Við feng­um skil­grein­ingu á nauðgun breytt þannig að hún nær nú yfir skort á samþykki. Við kom­um í gegn lög­fest­ingu á jafn­launa­vott­un. Við kom­um í gegn banni við bæl­ingu, þar sem gert var refsi­vert að neyða ein­stak­ling til að bæla eða breyta kyn­hneigð, kyn­vit­und eða kyntján­ingu. Og við feng­um í gegn samþykki Alþing­is á þings­álykt­un­ar­til­lögu um þjóðarsátt um bætt launa­kjör kvenna­stétta. Fjár­mála- og efna­hags­ráðherra var falið að leiða viðræður við aðila vinnu­markaðar­ins og full­trúa sveit­ar­fé­laga til að tryggja jafn­ræði við launa­setn­ingu ólíkra starfs­stétta hjá hinu op­in­bera. Þetta var vorið 2018 en síðan hef­ur því miður lítið gerst.

En nú er von­andi lag. Í tengsl­um við kvenna­verk­fallið í liðinni viku sagðist Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra vilja end­ur­meta virði svo­kallaðra kvenna­stétta og að mið verði tekið af því við næstu kjaraviðræður.

Þjóðarsátt um leiðrétt kjör kvenna­stétta inn­an op­in­bera geir­ans er ekki bara rétt­læt­is­mál, held­ur mik­il­vægt fram­lag til vel­ferðar­mála. Við höf­um látið það viðgang­ast of lengi að fjöl­menn­ar kvenna­stétt­ir beri uppi vel­ferðar­kerfið okk­ar á laun­um sem byggj­ast á skökku verðmæta­mati. For­sæt­is­ráðherra hef­ur gefið bolt­ann upp og nú þarf að spila hon­um áfram. Verk­efnið er ann­ars veg­ar að leiðrétta kjör­in og hins veg­ar að koma í veg fyr­ir mögu­legt höfr­unga­hlaup sem slík leiðrétt­ing gæti haft í för með sér. Til þess þarf sam­eig­in­leg­an skiln­ing á verk­efn­inu, rétt­mæti þess og mik­il­vægi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. október