Stýring óskast

Það er aðdá­un­ar­vert hvað við höf­um náð að byggja hér upp sterkt heil­brigðis­kerfi í okk­ar stóra og fá­menna landi. Það er hins veg­ar ámæl­is­vert hvað það brenna víða eld­ar í kerf­inu, gríðarlegt álag er á starfs­fólki og óá­sætt­an­leg bið eft­ir alls kyns mik­il­vægri þjón­ustu. Sí­fellt stærri hluti út­gjalda rík­is­ins fer í heil­brigðisþjón­ustu á sama tíma og skömm er að því hvað marg­ir þætt­ir heil­brigðis­kerf­is­ins eru illa fjár­magnaðir.

Útgjöld til heil­brigðismála á Íslandi nema rúm­lega fjórðungi út­gjalda rík­is­ins. Í inn­gangi að heil­brigðis­stefnu stjórn­valda til 2030 seg­ir að við ráðstöf­un þeirra fjár­muna verði ríkið að ráða för og axla ábyrgð sem vel upp­lýst­ur og gagn­rýn­inn kaup­andi þjón­ustu í þágu heild­ar­inn­ar. Það sé lög­bundið hlut­verk heil­brigðisráðherra að marka stefnu í heil­brigðismál­um, for­gangsraða verk­efn­um og tryggja fjár­mögn­un þeirra.

Þetta er býsna skýrt. Stein­unn Þórðardótt­ir, formaður Lækna­fé­lags Íslands, tal­ar líka tæpitungu­laust í grein í nýj­asta tölu­blaði Lækna­blaðsins. Hún tal­ar þar um ört vax­andi álag á heil­brigðis­kerfið vegna hraðrar fjölg­un­ar íbúa til viðbót­ar við fjölda ferðamanna, vegna öldrun­ar þjóðar­inn­ar og vegna skorts á heil­brigðis­starfs­fólki. Af þessu leiði að hin ís­lenska „þetta redd­ast“-nálg­un sem bygg­ist á meðvirkni ein­stak­linga með kerf­inu dugi ekki leng­ur. Ekki verði leng­ur við það búið að gögn um mönn­un og álag á lækna séu ekki til staðar eða ófull­nægj­andi og að aðgerðir til að mæta álag­inu séu fáar og ómark­viss­ar. Eins þurfi að bæta úr þeim mis­bresti að ár­ang­ur slíkra aðgerða sé ekki met­inn hlut­lægt og aðgerðirn­ar end­ur­skoðaðar út frá því.

Það er full ástæða til að leggja við hlust­ir þegar sér­fræðing­ar inn­an heil­brigðis­kerf­is­ins tala um stöðuna. Skila­boðin frá stjórn­end­um heil­brigðis­stofn­ana og heil­brigðis­starfs­fólki eru þau að það vant­ar stýr­ingu á kerf­inu. Hvert fer fjár­magnið, af hverju og hvernig nýt­ist það? Hvar þarf að bæta í, hvar á að draga úr?

Í gær til­kynnti formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins að hann stigi úr stól fjár­málaráðherra eft­ir áfell­is­dóm umboðsmanns Alþing­is í tengsl­um við sölu á hlut rík­is­ins í Íslands­banka. Það eru vissu­lega stór tíðindi, annað en þær oft frek­ar óá­huga­verðu uppá­kom­ur sem tengj­ast raun­um ósam­lyndr­ar rík­is­stjórn­ar og þjóðin hef­ur neyðst til að fylgj­ast með í beinni út­send­ingu síðustu vik­ur og mánuði. Má láta sig dreyma um að næstu frétt­ir af rík­is­stjórn­inni verði þær að hún sjái til sól­ar þegar kem­ur að því að hafa stjórn á heil­brigðismál­um þjóðar­inn­ar? Að hún hafi dug í sér til að lyfta nauðsyn­legu grett­i­staki í mál­efn­um hjúkr­un­ar­heim­ila eða efla grunn­heil­brigðisþjón­ustu um land allt svo dæmi séu tek­in. Hverj­ar eru lík­urn­ar á því?

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. október 2023