Tærnar á Tenerife

Ég til­heyri kyn­slóð sem óx úr grasi án in­ter­nets­ins. For­eldr­ar mín­ir gengu til dæm­is ekki frá fjár­mál­um sín­um í gegn­um sím­ann held­ur sátu um hver mánaðamót við eld­hús­borðið og breiddu úr reikn­ing­un­um. Svo var reiknað. Eitt árið náðu þau að reikna fjöl­skyld­una í sum­ar­frí til Spán­ar. Ég man ekki til þess að seðlabanka­stjóri eða stjórn­völd hafi haft sér­staka skoðun á því. Og þó var óðaverðbólga og allt of sveiflu­kennt efna­hags­ástand líka rík­ur þátt­ur æsku minn­ar.

Það kem­ur stjórn­völd­um auðvitað ekk­ert við hvað fólk ger­ir í sum­ar­frí­inu sínu. Það er hins veg­ar verk­efni þeirra að búa svo um hnút­ana að fólk geti ráðið mál­um sín­um þannig að það eigi þess kost að fara í frí. Að tryggja að all­ur þorri al­menn­ings sjái ekki pen­ing­ana sína brenna til ösku á verðbólgu­bál­inu eða hverfa vegna sér­ís­lenskr­ar glóru­lausr­ar vaxta­byrði. Ég held að það sé ekki um það deilt að nú­ver­andi rík­is­stjórn fær enga topp­ein­kunn fyr­ir það verk­efni. Hag­fræði eld­húss­borðsins hef­ur ekki verið þeim of­ar­lega í huga. Hver hef­ur enda tíma fyr­ir slíkt í miðjum stóla­leik? Þegar það þarf að búa til glær­ur til að hæðast að sam­ráðherr­um með skeyt­um sem missa reynd­ar al­gjör­lega marks. Eða þegar það þarf að ríf­ast inn­byrðis en samt mjög op­in­ber­lega um hval­veiðar. Ríf­ast um orku­mál. Um mál­efni inn­flytj­enda. Og svo fram­veg­is.

Á meðan held­ur fólk áfram að sinna sínu. Reyn­ir að standa við skuld­bind­ing­ar sín­ar á all­an mögu­leg­an máta. Hlust­ar á ráðlegg­ing­ar seðlabanka­stjóra og stjórn­valda um að lengja bara í lán­um, spara við sig, ganga á sparnað, vera nægju­söm, þol­in­móð og þæg. Vinna meira og sleppa Tene.

Stjórn­mál­in verða að eiga eitt­hvað annað í poka­horn­inu. Til að bregðast við þeim bráðavanda sem fjöldi heim­ila stend­ur frammi fyr­ir núna og ekki síst til að koma í veg fyr­ir að vaxta­okrið og verðbólgu­brjálæðið end­ur­taki sig aft­ur og aft­ur. Engri rík­is­stjórn ís­lensku krón­unn­ar hef­ur tek­ist að finna raun­veru­leg svör. Enda­laus­ar til­raun­ir til þess hafa hins veg­ar reynst heim­il­um lands­ins og flest­um fyr­ir­tækj­um dýr­keypt­ar.

Það er frá­leitt að hunsa það að nú­ver­andi staða er sí­end­ur­tek­in af­leiðing þess að hér hef­ur ekki verið brugðist við með skýrri sýn á hvernig við tryggj­um mik­il­væg­an stöðug­leika í efna­hags­líf­inu til lengri tíma. Risa­sveifl­urn­ar sem ís­lensk­um heim­il­um er boðið upp á aft­ur og aft­ur eru ekki nátt­úru­lög­mál. Það er ís­lenska krón­an sann­ar­lega ekki held­ur. Þetta þarf alls ekki að vera svona.

 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. október 2023