Þegar þjóðinni var gefið langt nef

Þorsteinn Pálsson

En ef til vill gætirðu af gæsku og náð
gleymt þessu sjálfur, vor Herra.“

Þetta eru ljóðlínur úr kvæði eftir Stein Steinarr undir yfirskriftinni: „Hjálpræðisherinn biður fyrir þeim synduga manni Jóni Sigurðssyni fyrrverandi kadett.“ Hann hreinsaðist sem alkunna er af sérhverri synd og komst til herrans heim.

Ljóðlínurnar komu upp í huga minn þegar forsætisráðherra stýrði blaðamannafundi formanna stjórnarflokkanna í Eddu, húsi íslenskunnar, í tilefni af því að þeir höfðu þá í fulla viku ráðið með sér hvernig bregðast skyldi við því áliti umboðsmanns Alþingis að fjármálaráðherra hafi skort hæfi við sölu á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka.

Þau höfðu sannarlega, rétt eins og Jón Kristófer kadett , fundið lyktina „af forrétti þeim, sem frelsarinn hefur á borðum.“

 

Syndaaflausn forsætisráðherra

Álitaefnið um skort á sérstöku hæfi kom strax upp við söluna.

Framkvæmd hennar hefur að öðru leyti fengið falleinkunn hjá Ríkisendurskoðun og bankaeftirliti Seðlabankans. Alvarlegir ágallar komu sem sagt fram á öllum þremur framkvæmdastigum sölunnar. Stjórnsýslan getur varla verið verri.

Fjármálaráðherra taldi frá upphafi að fjarri öllu lagi væri að hann hefði í þessu tilviki átt að gæta að sérstöku hæfi sínu og leiðbeiningarskyldu samkvæmt stjórnsýslulögum.

Allar götur síðan hefur hann starfað í því skjóli að forsætisráðherra var sammála honum um að grundvallarregla stjórnsýslulaganna ætti ekki við og óþarft hefði verið að leiðbeina Bankasýslunni og undirverktökum um þær lagareglur, sem gilda um sölu á eignarhlutum ríkisins.

Stjórnsýslulögin og siðareglurnar heyra undir forsætisráðherra. Í þessu ljósi er augljóst að áfellisdómur Umboðsmanns Alþingis er ekki síður þungur baggi að bera fyrir forsætisráðherra en fjármálaráðherra. Syndaaflausnin var henni að sama skapi mikilvægari.

 

Boðskapurinn

Blaðamannafundurinn í Eddu snerist um þrennt:

Í fyrsta lagi var þjóðin minnt á hversu vel ríkisstjórnin hefði staðið sig á síðasta kjörtímabili að eigin mati.

Í öðru lagi fékk þjóðin að vita að á sameiginlegum fundi þingmanna stjórnarflokkanna á Þingvöllum, þar sem við trúnni var tekið af lýði, hefðu allar syndir verið afskrifaðar eins og á samkomu hjá Hernum forðum.

Í þriðja lagi var þjóðin upplýst um að staðfesting Umboðsmanns Alþingis á seinustu syndinni hefði gefið forystumönnum stjórnarflokkanna tilefni til að leggja á ráðin um hvernig ljúka ætti átta ára ferli samstarfsins.

Skemmst er frá því að segja að þar kom ekki fram hvernig ætti að leysa bráðavanda ríkissjóðs. Þar var ekki minnst hvernig ætti að mæta kröfum verkalýðshreyfingarinnar um stöðugan gjaldmiðil og sambærilega vexti og eru á öðrum Norðurlöndum. Enginn lausn var kynnt á ógöngunum sem ÍL-sjóður er í.

Einu orði var heldur ekki vikið að samkomulagi um hvernig standa ætti að lokasölunni á Íslandsbanka.

Á fundinum kom ekkert fram um hvernig bæta á úr aðgerðadeyfð í loftslagsmálum. Ekkert var sagt um lausn á orkuvandanum og hvernig ná mætti markmiðum um orkuskipti.

Vandi heilbrigðiskerfisins var ekki nefndur á nafn. Ágreiningur flokkanna um stefnu í sjávarútvegsmálum var í sömu blindgötu og fyrr. Og engin lausn var kynnt á bráðavanda landbúnaðarins og því síður raunhæfar framtíðarlausnir.

 

Sönn lýsing

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar komst þannig að orði um þennan boðskap að í raun og veru væru formenn ríkistjórnarflokkanna að gefa þjóðinni langt nef.

Það má vissulega til sanns vegar færa.

Þannig er pólitísk staða stjórnarsamstarfsins eftir sex ár og gagnkvæma aflausn synda.

 

Greinin birtist fyrst á Eyjunni 18.október 2023