Millistéttin er skilin eftir

Ekk­ert verk­efni stjórn­mál­anna er stærra en glím­an við verðbólgu og ógn­ar­háa vexti. Hvert sem komið er tal­ar fólk um dýrtíðina. Af­borg­an­ir af óverðtryggðum lán­um á breyti­leg­um vöxt­um hafa hækkað marg­falt og eina bjargráðið er að flytja sig yfir í sér­ís­lensk verðtryggð lán þar sem verðbólga leggst ofan á höfuðstól láns og eign­ir skerðast.

At­hygli rík­is­stjórn­ar­inn­ar ætti að vera á þessu verk­efni. Rík­is­stjórn­in er hins veg­ar hætt að hlusta á fólkið í land­inu því öll at­hygli henn­ar fer í inn­byrðis átök. Dag­lega þarf al­menn­ing­ur að hlusta á vand­ræðal­eg­ar frétt­ir af karpi inn­an rík­is­stjórn­ar­inn­ar í stað þess að heyra hvernig hún ætl­ar að koma bönd­um á verðbólgu. Svo sundruð stjórn get­ur ekki náð ár­angri. Fjár­laga­frum­varpið, sem er mik­il­væg­ara í ár en oft áður, er hlut­laust gagn­vart verðbólg­unni. Hlut­laust seg­ir í sjálfu sér bara að rík­is­stjórn ger­ir ekki illt verra. Í krefj­andi aðstæðum dug­ar það ekki til.

Í sterkri um­sögn BHM um fjár­laga­frum­varpið varp­ar banda­lagið ljósi á áhuga­verðar staðreynd­ir um veru­leika al­menn­ings. Kaup­mátt­ur meðallauna hef­ur sveifl­ast fjór­um sinn­um meira sl. 20 ár á Íslandi en kaup­mátt­ur inn­an OECD-landa. Verðbólga jókst um helm­ing milli ág­úst­mánaða 2022 og 2023 sem er eins­dæmi. Hér verður að þora að horfa á mein­semd­ina sem ein­kenn­ir ís­lenskt sam­fé­lag; óstöðug­leika hag­kerf­is­ins. Þessi ís­lenski veru­leiki flæk­ir kjaraviðræður.

Al­menn­ing­ur er langþreytt­ur á ástand­inu. Stýri­vext­ir eru rúm­lega tvö­fald­ir á við ná­granna­lönd. Fólk sem ný­lega keypti fast­eign og er með hlut­falls­lega mik­il út­gjöld vegna barna og náms­lána finn­ur ræki­lega fyr­ir ástand­inu. Þetta er millistétt­in á Íslandi. Fjár­laga­frum­varp rík­is­stjórn­ar­inn­ar geym­ir hins veg­ar eng­in svör fyr­ir þetta fólk. Þessi hóp­ur er skil­inn eft­ir.

Viðreisn vill að í því ástandi sem núna rík­ir beiti stjórn­völd vaxta­bót­um, barna­bót­um og hús­næðis­bót­um hærra upp tekju­stig­ann en verið hef­ur. Tíma­bundið úrræði í ljósi þess að millistétt­in hef­ur tekið á sig þungt högg vegna vaxta­hækk­ana. Það er ein­fald­lega rétt­læt­is­mál. Op­in­ber­ir sjóðir eru hins veg­ar ekki botn­laus­ir og við eig­um að stefna að því að kom­ast út úr því ástandi að ríkið þurfi að niður­greiða vaxta­kostnað.

Val á gjald­miðli spegl­ar póli­tískt hags­muna­mat. Það er póli­tísk ákvörðun að halda sig við krón­una. Rík­is­stjórn sem ver óbreytt ástand þarf að svara hvers vegna henni þykir rétt­læt­an­legt að láta heim­il­in taka á sig þann mikla kostnað sem fylg­ir ís­lensku krón­unni. Á Íslandi búa í dag tvær þjóðir: Sú sem lif­ir í krónu­hag­kerf­inu og stór­fyr­ir­tæk­in sem standa fyr­ir utan það og gera upp í evru og doll­ara. Það er skilj­an­legt að stór­fyr­ir­tæki vilji starfa í ör­ugg­ara um­hverfi og njóta betri láns­kjara. En ætti það ekki að eiga við um þjóðina alla?

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8 nóvember