Að vera sigldur

Þorsteinn Pálsson

Sú var tíð að talað var um siglda menn og sigldar konur. Það var til marks um að þeir sem í hlut áttu hefðu aflað sér þekkingar og reynslu eða stækkað sjóndeildarhring sinn meðal annarra þjóða.

Á vef Samtaka atvinnulífsins má sjá að forystumenn þess flugu til Brüssel fyrir tveimur vikum „til þess að fá innsýn í stöðu atvinnulífsins í Evrópu og koma á framfæri mikilvægum skilaboðum sem snúa að hagsmunum íslensks atvinnulífs.“

Allrar athygli er vert að forystumenn atvinnulífsins, sitjandi á fundum í Brüssel, skuli hafa jafn ríkan skilning á mikilvægi Evrópusamvinnu eins og þar kemur fram.

Samkeppnisstaða Evrópu

Nærri lætur að þau 6% jarðarbúa, sem lifa og starfa á innri markaði Evrópusambandsins, ráði um 15% af efnahagsstarfsemi heimsins. Evrópuríkjum stendur nú ógn af vaxandi verndarstefnu í Bandaríkjunum og örum vexti margra annarra ríkja.

Í þessu samhengi bentu forystumenn SA og samtaka atvinnufyrirtækja frá öðrum 35 ríkjum í Evrópu á að erlend fjárfesting hefur dregist saman í Evrópu meðan hún hefur aukist í Bandaríkjunum.

Sameiginlega komust forystumenn frá þessum 36 Evrópuríkjum að þeirri niðurstöðu að áhrifaríkasta leiðin til að snúa þessari þróun við væri að ljúka „innleiðingu á evrópskum tilskipunum sem eru nauðsynlegar fyrir samkeppnishæfni og þróun lítilla og meðalstórra fyrirtækja.“

Skilaboðin eru skýr: Evrópuríkin þurfa að auka samvinnu sín á milli ætli þau að halda hlut sínum í heimsbúskapnum.

Samkeppnisstaða Íslands

Á undanförnum árum hefur Viðskiptaráð vakið athygli á því að samkvæmt rannsóknum háskóla í Sviss vermi Ísland botnsæti í fjölþjóðlegum samanburði þegar kemur að samkeppnisskilyrðum um alþjóðaviðskipti og erlenda fjárfestingu.

Nú eru horfur á 2,1% hagvexti á næsta ári. Á sama tíma og dregið hefur úr hagvexti hefur vinnandi höndum fjölgað um ríflega 4 %.

Hagvöxtur á mann gæti því beinlínis dregist saman. Hann hefur reyndar verið minni hér síðustu ár en í flestum Evrópuríkjum.

Að sama skapi hefur framleiðni íslensks atvinnulífs verið minni.

Framleiðni

Samtök atvinnulífsins hafa réttilega bent á að launahækkanir umfram framleiðnivöxt skili sér í aukinni verðbólgu eða froðutekjum.

Minna hefur á hinn bóginn farið fyrir umræðu um það hvernig auka megi hagvöxt á mann og bæta framleiðni.

Síendurteknar staðhæfingar um að Ísland standi framar öllum öðrum Evrópuþjóðum eiga í raunveruleikanum helst stoð í verðbólgutölum og froðutekjum. Reynslan kennir okkur að til  lengdar eru slíkar hagtölur ekki traustar undirstöður.

Upplýsingar um að fjármunamyndun hafi á fjórða ársfjórðungi minnkað um 4,3% en samneysla aukist um 1,2% eru ekki vísbending um markvissa stjórnarstefnu til að stækka froðulausa þjóðarköku.

Ráð óháðra sérfræðinga

Fyrir fimm árum kom út skýrsla tveggja sænskra sérfræðinga um kosti Íslands varðandi stjórnun krónunnar og mögulega aðra gjaldmiðla. Skýrslan var unnin fyrir nefnd, sem fyrri ríkisstjórn skipaði.

Erlendu sérfræðingarnir draga þar fram kosti þess að Ísland tengist fjölþjóðlegu myntbandalagi. Þeir staðhæfa meðal annars að slík ráðstöfun myndi efla alþjóðleg viðskipti og bæta samkeppnisstöðu landsins.

Þegar þeir hafa vegið saman kosti og galla myntbandalagsaðildar er niðurstaða þeirra að kostirnir séu þyngri á metaskálunum.

Nú er spurning hvort Brüsselferð Samtaka atvinnulífsins opni umræðuna um nauðsyn þess að bæta samkeppnisstöðu Íslands.

Þegi atvinnulífið áfram um þá hluti er lítil von til þess að stefna þessarar stjórnar breytist. Þá verður það í höndum kjósenda að ákveða stefnubreytingu.

Greinin birtist fyrst á Eyjunni 7. desember 2023