Hvert er hneykslið?

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins fetar í fótspor ýmissa samflokksmanna sinna og hjólar í Ríkissjónvarpið fyrir umfjöllun sem honum er ekki þóknanleg. Það var umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kveiks um íslensku krónuna sem fór svona fyrir brjóstið á honum, helst þeir viðmælendur sem bentu á galla gjaldmiðilsins. Hann kallaði umfjöllunina hneyksli.

Nú er ég efnislega ósammála Bjarna. Þetta var ágæt umfjöllun um álitamál sem varðar eina stærstu hagsmuni íslensks samfélags. Að við formaður Sjálfstæðisflokksins séum ósammála um krónuna er ekkert nýtt og ekki það sem vekur sérstök viðbrögð hjá mér. Þessar fýlubombur úr garði Sjálfstæðisflokksins á fjölmiðla sem ekki flytja þeim þóknanlegar fréttir eða eru með umfjöllun sem ekki er löguð að hagsmunum þeirra eru hins vegar komnar út úr öllu korti.

Það er lykilhlutverk fjölmiðla í lýðræðissamfélagi að upplýsa almenning, vera vettvangur gagnrýninnar þjóðfélagsumræðu og veita stjórnvöldum nauðsynlegt aðhald. Ég trúi ekki að það sé sjálfstætt markmið Sjálfstæðisflokksins að koma í veg fyrir slíkt aðhald. Þótt umræðan sé þeim erfið og fátt um svör.

Íslenska krónan er heimilum og minni fyrirtækjum óhagstæð líkt og Viðreisn hefur ítrekað bent á og rökstutt. Krónuhagkerfið kostar íslensk heimili og minni fyrirtæki gríðarlegar fjárhæðir og viðbótarkostnaður felst svo í því að ríkissjóður greiðir tugi milljarða króna í vaxtakostnað umfram það sem yrði með öðrum gjaldmiðli. Það eru peningar sem eru ekki notaðir í önnur og öllu áhugaverðari verkefni. Ekki notaðir til að bæta stöðu bágstaddra og ekki notaðir til að styrkja heilbrigðiskerfi svo dæmi séu tekin.

Nei Bjarni, hneykslið er að ríkisstjórnin neitar að horfast í augu við ábyrgð sína hér.

 

Greinin birtist fyrst á Vísi 6. desember 2023