Íslendingur og heimsborgari

Því hefur verið fleygt að aðeins eitt sé hægt að læra af sögunni, nefnilega það að ekkert sé
hægt að læra af sögunni. Þótt margt kunni að vera til í þeirri staðhæfingu, er hitt annað mál
að hún getur komið í veg fyrir að við endurtökum sömu vitleysuna aftur og aftur. Það er að
segja ef við þekkjum söguna. Hún varpar oft skýrara ljósi á viðfangsefnið því sagan er eftir allt
saman gjörn á að endurtaka sig.

Fyrir rúmum 200 árum var uppi á Íslandi hugsjónamaður sem trúði á mikilvægi samvinnu
þjóða. Hann barðist fyrir því að Íslendingar nytu frjálsra viðskipta landa á milli. Hann var þess
tíma kyndilberi frjálslyndis. Frjáls viðskipti voru í hans huga fyrsta skrefið í átt að sjálfstæði
Íslendinga. Hann vildi opna Ísland fyrir umheiminum en hafði ást á ættjörðinni. Þessi
hugsjónamaður leyfði sér að dreyma á 19. öld um að Íslendingar gætu stigið fram, sem frjáls,
fullvalda þjóð og virkur þátttakandi í samfélagi þjóða.

Íslendingur og heimsborgari

Maðurinn er Jón Sigurðsson. Táknmynd sjálfstæðisbaráttu okkar. Hann var einn fremsti
vísindamaður okkar í norrænum fræðum og baráttumaður fyrir bættum lífskjörum
Íslendinga. Jón var ekki bara Vestfirðingur, hann var Norðlendingur, Sunnlendingur og
Austfirðingur. Fyrst og fremst Íslendingur. Hann var og er okkar allra.

Á hátíðarstundum erum við ekki í vafa um að góðir Íslendingar eru þeir sem feta í fótspor
Jóns Sigurðssonar forseta. En er þá einhver einn hópur sem fellur undir það að vera betri
Íslendingar en aðrir? Og kann að vera að menn telji til skyldleika við hugsjónir Jóns forseta
þegar þeir í raun tala gegn því sem hann sagði og gerði?

Um miðja síðustu öld beittu andstæðingar Atlantshafsbandalagsins hugsjónum Jóns óspart á
Alþingi, í ræðu og riti. Það sama gerðu andstæðingar EFTA um 1970 og síðan þeir sem
andæfðu samningnum um evrópska efnahagssvæðið, rúmum tuttugu árum síðar. Sagan
hefur hins vegar sýnt annað. Í öllum þessum mikilvægu skrefum sem stigin voru með aukinni
samvinnu þjóða, hefur fullveldi okkar styrkst og sjálfstæðið verið verndað.

Þjóðinni kann að finnast snúið að skoðanir hafi verið skiptar um boðskap Jóns í gegnum
tíðina. Við vitum að Jón forseti var Íslendingur en hann var líka heimsborgari í fegurstu mynd
þess orðs. Hann skildi og skynjaði menningu sína en einnig alþjóðlegt umhverfi sem var í
mikilli gerjun og nýtti það í baráttu sinni fyrir Ísland.

Saga í hringi

Árið 2011 voru tvöhundruð ár liðin frá fæðingu Jóns Sigurðssonar og gefið út afmælisrit af
því tilefni. Einn greinahöfunda var Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri sem fjallaði meðal annars
um hvernig Ísland, þessi litla en um leið stóra eyja, hefur allt frá þessum tíma staðið í innri
togstreitu um þátttöku í samfélagi þjóða annars vegar og jafnvægi í efnahagslífi smáþjóðar
hins vegar.

Bankastjórinn skrifaði einnig að þó að Jón hafi staðið á stalli landsföðursins hafi landsmenn
hreinlega gengið gegn orðum hans og ráðleggingum um hvernig skyldi haga efnahagsstefnu
okkar með ábyrgum hætti.

Jón lagði áherslu á markaðsfrelsi, alþjóðahyggju en undirstrikaði um leið gildi þjóðfrelsis.
„Það er ljóst að hvorki Jón Sigurðsson, né nokkur annar af leiðtogum sjálfstæðisbaráttunnar
leit á sjálfstæða mynt og/eða sjálfstæða peningamálastjórnun sem fullveldismarkmið í sjálfu
sér.“ segir Ásgeir í grein sinni og sagði jafnframt að ekki yrði annað séð en að Jón Sigurðsson
hefði talið myntsamvinnu við önnur lönd heppilegan kost. Enda trúði Jón því að
alþjóðasamvinna tryggði okkur betri lífskjör.

Þessa togstreitu þekkjum við, því við höfum lifað hana. Á fyrrnefndu stórafmæli Jóns forseta
var þjóðin í enn eitt skiptið föst í gjaldeyrishöftum. Sagan hafði endurtekið sig.
Og sagan heldur áfram að fara í hringi. Nú ríkir meiri verðbólga og vextir eru þrefaldir miðað
við það sem nágrannaþjóðir okkar búa við. Gamalkunnugt stef hjá íslenskri þjóð.

Og hvað svo?

Ekki veit ég hvort Jón Sigurðsson hefði verið hlynntur inngöngu Íslands í Evrópusambandið.
Eða hvaða skoðun hann hefði haft á þeirri hnattvæðingu sem nú hefur raungerst. Ég held
reyndar að hann hefði verið nokkuð stoltur af þeim framfaraskrefum sem við höfum tekið
með aukinni samvinnu við aðrar þjóðir.

Í niðurlagi fyrrnefndrar greinar seðlabankastjóra segir um afstöðu Jóns til
Evrópusambandsins: „Hvort hann hefði viljað ganga í Evrópusambandið til að tryggja slíkt
samstarf eða talið Íslendinga eiga þar heima með öðrum Evrópuríkjum skal ósagt látið. Hins
vegar er ekki að efa að hann hefði tekið afstöðu til Evrópusambandsins á grundvelli vel
rökstudds og yfirvegaðs hagsmunamats með landsins gagn og nauðsynjar í huga.“

Það tel ég vera skynsama nálgun á stórt viðfangsefni. Jón Sigurðsson var sannspár um það að
við höfum átt erfitt uppdráttar með sjálfstæða mynt. Við höfum reynt margt. En allar
tilraunir við að halda krónunni stöðugri til lengri tíma hafa mistekist á þeirri rúmu öld sem
liðin er í samneyti við krónuna. Með ómældu tjóni fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu.

Við höfum reynt að binda hana, skera af henni, bæta við hana, frysta hana og hefta hana en
hvorki gengur né rekur. Erfiðar spurningar eru því óhjákvæmilegar. Er krónan að virka fyrir
heimilin? Litlu og meðalstóru fyrirtækin? Er gjaldmiðill, sem misst hefur meira en 99% af
verðgildi sínu síðustu 70 árin, þess virði að ríghalda í hann?

Mýtan um afsal fullveldis

Hún er þrálát mýtan að með því að gera alþjóðasamninga séum við að missa frá okkur
fullveldi. En fullvalda ríki tekur einmitt upplýstar ákvarðanir um aðild að samningum og
stofnunum sem eru því hagfelldar. Fullveldishugtakið er ekki ólíkt lögræðishugtakinu. Þegar
við giftum okkur, tökum lán eða ráðum okkur í vinnu lítum við ekki svo á að við séum að
framselja lögræði okkar. Heldur notum við það, okkur til framdráttar. Til efnahagslegrar og
félagslegrar velsældar.

Aðild Íslands að alþjóðasamningum og -stofnunum sem þegar hefur verið fest í sessi ýtir
einmitt undir öryggi, hagsæld og stöðugleika.

Minnumst sögunnar og til hvers var barist. Þökkum um leið fyrir þau lífsgæði sem slík barátta
og markverðir alþjóðasamningar í kjölfarið hafa fært okkur. Nýtum fullveldið okkar og verum
stolt af því.

Gleðilegan fullveldisdag kæru Íslendingar.

 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. desember 2023