Klukkan tifar á kostnað þjóðar

Um áramót reikar hugurinn til tímans. Jólahátíðin er tími vina og vandamanna. Umtalsefnin allt milli himins og jarðar; draumar og þrár, minningar um þá sem hafa kvatt, líðan barna í skólum, heilsa fólksins okkar, afborganir af lánum, verðmiðinn á hamborgarahryggnum, góð sambönd og erfið, góðlátlegt grín og allt þar á milli. Þar er fortíðin, nútíðin og framtíðin á dagskrá.

Á kaffistofum fyrirtækja gilda sömu lögmál. Þar er talað tæpitungulaust og skipst á skoðunum og sögum. Fólk klórar sér í kollinum yfir verðbólgu, vöxtum og samkeppnisskilyrðum við innlenda og erlenda keppinauta. Erfitt reynist að gera raunhæfar áætlanir því umhverfið býður upp á lítinn fyrirsjáanleika.

Umræðan við eldhúsborðið og á kaffistofunum er jarðtengd – hún lýsir þeim raunveruleika sem Íslendingar kljást við hverju sinni.

Rökræður okkar á Alþingi snúast um sömu hluti þótt ég viti að það sé tilfinning margra að umræðan á þinginu fari ofan garð og neðan.

Það er margt til í því.

 

Ekki bara ein vertíð

Pabbi sagði alltaf að tíminn væri það dýrmætasta sem við ættum, hann liði og kæmi ekki aftur. Þau viðhorf höfum við í Viðreisn reynt að tileinka okkur; að horfa fram í tímann. Og hugsa ekki í einni vertíð líkt og stjórnmálafólki hættir til.

Það skiptir máli að nýta tímann og taka honum ekki sem sjálfsögðum. Of miklum tíma á vettvangi stjórnmálanna er varið í upphlaup og hluti sem sýnast skipta máli til skamms tíma. Hugmyndafræði er of lítið rædd og hvernig hún nýtist við uppbyggingu samfélags. Því framtíðin kemur hvort sem okkur líkar betur eða verr og hún kemur aftan að okkur ef við sofnum á verðinum.

Þar liggur ábyrgð okkar stjórnmálafólks.

 

Upp á tærnar

Undanfarin ár hefur stjórnarfar á Íslandi einkennst af því að bregðast við frekar en að skapa okkur framtíð. Nábýli okkar við óbilgjarna náttúru spilar þar eflaust inn í; við erum sterk þegar gefur á bátinn en við eigum líka til að trassa það að marka sporin inn í framtíðina.

Fyrir fólkið sem situr við eldhúsborðið skiptir máli að fá glögga mynd af því hvert þjóðin stefnir. Heimili og fyrirtæki eiga með öðrum orðum að geta með nokkurri vissu gert áætlanir um framtíðina. Þau eiga það hreinlega inni hjá okkur. En þá þurfa stjórnmálin að hafa kjark til að ræða og taka þær ákvarðanir sem ýta okkur áfram. Þau þurfa að fara upp á tærnar.

Málamiðlunarstjórnmál á borð við þau sem nú eru stunduð í stjórnarráðinu standa framtíðinni beinlínis fyrir þrifum.

 

Tiltekt – ekki skattahækkanir

Allan metnað skortir í ákvörðunum stjórnvalda um efnahagsmál. Fyrirsjáanleiki skiptir öllu fyrir venjulegt fólk og fyrirtæki. En hann er vandfundinn í íslensku hagkerfi – því miður. Viðreisn hefur ítrekað bent á raunhæfar lausnir til þess að draga saman seglin og koma jafnvægi á ríkisfjármálin. En hálfvelgja fjármálaráðherra, sem talar um aðhald en hugsar fyrst og síðast um að halda saman ríkisstjórn, hefur leitt til þess að útgjaldaaukning ríkissjóðs er stjórnlaus og hefur verið undanfarin sex ár. Og báknið bólgnar sem aldrei fyrr.

Langdregið sáttaferli milli ríkisstjórnarflokkanna þriggja hefur beinlínis skaðleg áhrif á fjárhagslega stöðu heimila og fyrirtækja. Ríkisstjórnarflokkarnir koma sér ekki saman um aðgerðir heldur benda á Seðlabankann. Hann hefur hins vegar þann eina kost í þröngri stöðu að hækka vexti.

Viðreisn vill að allt kapp verði lagt á að taka rækilega til í ríkisfjármálunum og stöðva innistæðulausa útgjaldaaukningu sem á endanum bitnar á venjulegu fólki. Vextir eiga heldur ekki að vera einn stærsti útgjaldaliður ríkis né heimila. Stjórnvöld þurfa einfaldlega að taka til heima hjá sér áður en þau leggja þyngri byrðar á herðar almennings.

 

Vaxtagjöld eða sterkt heilbrigðiskerfi?

Átök jaðarflokkanna við ríkisstjórnarborðið hafa einnig lamað framkvæmd heilbrigðisáætlunar. Togstreitan er þess valdandi að fjármagn fylgir ekki fögrum fyrirheitum um betri heilbrigðisþjónustu. Það bitnar á fólkinu okkar.

Tvístígandaháttur ríkisstjórnarinnar birtist í skorti á hjúkrunarrýmum, biðlistum barna, hiki í samningum við sérfræðilækna og torveldu aðgengi að heimilislæknum, svo dæmi séu nefnd. Með öðrum orðum, er venjulegu fólki gert erfiðara um vik að sækja sér nauðsynlega heilbrigðisþjónustu vegna vonlausra friðarumleitana stjórnarliða í ríkisstjórnarsamstarfi, sem er löngu kulnað.

Í ljósi þess að Ísland er í hópi þeirra ríkja sem innheimta mesta heildarskatta er lausnina ekki að finna í skattahækkunum. Af samanburði við þau lönd sem við miðum okkur við sjáum við að það eru fyrst og fremst há vaxtagjöld ríkissjóðs sem þrengja að velferðarkerfinu. Á þeim vanda þarf að taka.

Það væri vel hægt að beita ríkissjóði til þess að efla heilbrigðiskerfið og aðra nauðsynlega innviði í stað þess að höggva sífellt í sama knérunn og setja fjármagnið í að halda úti örmynt með tilheyrandi kostnaði. En til þess þarf að þora að taka ákvarðanir.

 

Menntamálin aftur á dagskrá 

Þekking er undirstaða skapandi hugsunar og grundvöllur hvers samfélags. Menntun er einnig helsta forsenda verðmætasköpunar í atvinnulífinu.

Niðurstaða PISA-könnunarinnar er áfall. Hugmyndafræði okkar um jöfn tækifæri fyrir alla stendur og fellur með menntakerfinu. Við deilum ekki um markmiðið. En við höfum vanrækt pólitíska umræðu sem skipulag skólastarfs byggist á.

Í samtölum mínum við kennara og skólastjórnendur síðustu vikur hefur meðal annars verið bent á þörf á aðlögun aðalnámsskrár með skýrum markmiðum, fleiri og sterkari námsgögn og verkefni þeim til stuðnings, aðgengi skóla að upplýsingum og markvissari mælingum.

Skammtímahugsun og jafnvel þögn ríkjandi stjórnvalda fleytir okkur skammt í þessum efnum. Við verðum að þora að spyrja erfiðra spurninga til að efla kerfi sem þjónað getur betur markmiðum okkar í menntamálum.

Viðreisn leggur áherslu á stórsókn í menntamálum þjóðarinnar en vægi þeirra á hinu pólitíska sviði síðustu ár hefur ekki verið nægilegt. Til þess þarf forystu og öflugt samtal innan menntakerfisins, þingsins og samfélagsins alls.

 

Hrossakaup bitna á loftslagsmálum

Langvarandi stöðnun í orkumálum hefur leitt til þess að Ísland ræðir nú skömmtunarkerfi á raforku af fullri alvöru. Það hefur í för með sér þá öfugþróun að við, eitt ríkasta land veraldar af auðlindum, gætum þurft að byggja hagvöxt næstu ára í auknum mæli á óvistvænni orku. Það er afleitt.

Meðan grannþjóðir okkar taka skref fram á við í þessum efnum, er okkar svar að taka skref tilbaka. Markmið í loftslagsmálum verða líka fjarlægari en ella. Aftur liggur orsök og ábyrgð í eðli stjórnarsamstarfsins og þess hugarstríðs sem þar á sér stað.

Sjálfhelda stjórnarflokkanna er svo leyst með því að sá flokkur sem vill óbreytt ástand ræður. Í þessu tilfelli fórnar Sjálfstæðisflokkurinn stefnu sinni í einu stærsta lífshagsmunamáli þjóðarinnar til þess eins að viðhalda þessari ríkisstjórn. Rándýr skiptimynt sem kemur niður á fólkinu og framtíðinni. Það er í svona hrossakaupum sem trúnaður um hugsjónir, markmið og leiðir hverfur.

 

Stækkum Ísland 

Í fáum löndum ræðst afkoma heimila og fyrirtækja í jafn ríkum mæli af umfangi samstarfs við aðrar þjóðir. Slíkt samstarf verðum við að byggja á sameiginlegum gildum og hugsjónum um lýðræði, athafnafrelsi, jöfn tækifæri, velferð og neytendavernd.

Alþjóðlegar kannanir sýna að samkeppnishæfni Íslands er lakari en annarra norðurlanda. Þegar kemur að erlendri fjárfestingu og alþjóðlegum viðskiptum er samkeppnisstaða landsins mæld með þeim sem verma botnsætin.

Við getum stækkað þjóðarkökuna, tryggt meiri stöðugleika, lækkað vaxtastig, eflt velferðarkerfið og bætt samkeppnisstöðu atvinnulífsins – líka í landbúnaði – með því að stíga lokaskrefið. Frá aðild að innri markaði Evrópusambandsins til fullrar aðildar.

Þess vegna leggur Viðreisn áherslu á að þjóðin fái að ráða hvort halda eigi áfram með aðildarviðræður að ESB. Ef þjóðin segir já við framhaldi viðræðna fæst aðildarsamningur sem þjóðin tekur afstöðu til. Það á enginn að óttast.

 

Tökum til hendinni

Þau stóru verkefni sem ég hef nefnt hér – gjaldmiðilsmál, heilbrigðismál, menntamál og orkumál, snúast ekki um upphlaup eða lausnir til skamms tíma. Markmiðin byggjast á skýrri sýn á framtíðina og trú á hugmyndafræði.

Viðreisn vill að látið verði af leikaraskap og grandvaraleysi í stóru málunum og að stjórnmálin fari að marka sporin inn í framtíðina á nýjan leik.

Íslensk þjóð hefur sýnt seiglu síðastliðið ár í ólgusjó vaxta og verðbólgu og undir það síðasta í skugga umbrota við Grindavík. Við erum samheldin þjóð sem siglir áfram á hinni séríslensku staðfestu og þrautseigju. Okkur er ekki alltaf tamt að hugsa of langt inn í framtíðina – þetta reddast bara. Við megum vera stolt af þessum persónueinkennum en það er merki um þroska að þora að fara í dálitla naflaskoðun. Nýtum dýrmætan tíma okkar vel.

Það er tími til þess að taka forystu. Við í Viðreisn erum reiðubúin að standa undir þeirri ábyrgð.

 

Gleðilegt ár kæru landsmenn – megi gæfa og gleði fylgja ykkur öllum.

 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. desember 2023