Nýtum frelsið fallega

Enn eitt árið naut ég þeirr­ar lífs­ins lukku að eiga dá­sam­leg­ar og friðsæl­ar stund­ir um jól­in með fjöl­skyldu og vin­um. Það er sann­ar­lega ekki sjálf­gefið. Þessi jól sæk­ir hryll­ing­ur mann­skæðra átaka víða um heim sterkt á hug­ann.

Í Úkraínu held­ur fólk nú sín önn­ur jól í skugga inn­rás­ar Rússa sem hófst í fe­brú­ar 2022 og var knú­in áfram af ótta Pútíns Rúss­lands­for­seta við frelsi ná­grannaþjóðar og rétt henn­ar til að ráða sér sjálf. Aug­ljóst er að stríð Pútíns er ekki bara við Úkraínu held­ur er frelsi næstu landa líka í húfi. Það er því ekki að undra að Evr­ópa og Banda­rík­in hafi veitt Úkraínu mik­il­væga aðstoð frá upp­hafi inn­rás­ar­inn­ar. Eft­ir því sem stríðið dregst á lang­inn er hins veg­ar hætta á að dýpra verði á stuðningn­um vegna kostnaðar, vegna átaka um inn­an­rík­is­mál ein­staka landa og vegna stríðsátaka ann­ars staðar í heim­in­um. Þannig hafa til dæm­is Banda­ríkja­menn dregið að verða við ósk­um um frek­ari fjár­stuðning til Úkraínu og öfga­aft­ur­haldið í stól for­sæt­is­ráðherra Ung­verja­lands tef­ur frek­ari fjár­stuðning Evr­ópu­sam­bands­ins.

Fyr­ir botni Miðjarðar­hafs hertu svo Ísra­el­ar árás­ir sín­ar á Gasa yfir jól­in og ekk­ert lát virðist ætla að verða á þeim skelfi­legu dráp­um sem þar eiga sér stað. Né held­ur virðist lausn vera í sjón­máli á því hvernig þjóðirn­ar tvær, Ísra­el og Palestína, geta lifað sam­an. Ef ekki í sátt og sam­lyndi, þá að minnsta kosti án skelfi­legra grimmd­ar­verka og drápa sem hóf­ust að þessu sinni með hræðilegri hryðju­verka­árás Ham­as á óbreytta borg­ara í Ísra­el í byrj­un októ­ber.

Nú sjást merki þess að átök­in á Gasa séu far­in að breiðast út til annarra landa. Þannig hafa borist frétt­ir af því að Banda­ríkja­menn og Ísra­els­menn hafi gert árás­ir á ír­ansk­ar her­deild­ir í Sýr­landi og Írak en Íran­ar hafa verið dygg­ustu stuðnings­menn Ham­as-hryðju­verka­sam­tak­anna. Írösk stjórn­völd hafa for­dæmt árás­irn­ar sem brot gegn full­veldi Íraks.

Það er því ekk­ert sér­stak­lega bjart yfir ár­inu 2024 á alþjóðavett­vangi og það er ekki að undra að Ísland, líkt og aðrar vest­ræn­ar lýðræðisþjóðir, leggi vax­andi áherslu á öfl­uga sam­vinnu í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um við ná­granna- og vinaþjóðir. Lít­il, vopn­laus, friðsöm þjóð á norður­hjara ver­ald­ar get­ur líka lagt sitt af mörk­um með því að nota rödd sína til að tala fyr­ir friðsam­leg­um lausn­um, tala fyr­ir gild­um lýðræðis og mann­rétt­inda og með því að veita alla þá aðstoð sem okk­ur er unnt.

Nú líður að nýju ári. Það er ekki sjálf­gefið að upp­lifa það sem frjáls, friðsæl og full­valda þjóð. Nýt­um það fal­lega.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. desember