Hlýjar hugsanir og skýr svör

Síðastliðinn sunnu­dag vor­um við öll með önd­ina í háls­in­um, þar sem við fylgd­umst með nátt­úru­ham­förun­um á Reykja­nesskaga og vonuðum það allra besta fyr­ir Grind­vík­inga og Grinda­vík. Þetta var einn af þess­um dög­um þar sem við viss­um öll að hlut­irn­ir yrðu ekki sam­ir á ný. Eld­gos inn­an bæj­ar­marka Grinda­vík­ur breytti öllu.

Það er erfitt að setja sig í spor Grind­vík­inga. Að hafa flúið heim­ili sitt fyr­ir rúm­um tveim­ur mánuðum og lifa í al­gjörri óvissu um hvenær eða hvort bær­inn verði ör­ugg­ur aft­ur. Að horfa á heim­ili brenna í beinu streymi og hraun renna yfir svæði sem þau hafa alltaf tengt við ör­yggi og hlýju. Að vera út­hýst frá heim­ili sínu án þess að vita hvert fram­haldið verður. Að vera föst í hringiðu áfalla sem ekki sér fyr­ir end­ann á.

Nátt­úr­an er okk­ur hér á landi mjög gjöf­ul á marg­an hátt. En hún get­ur líka verið grimm og við finn­um reglu­lega fyr­ir van­mætti okk­ar. Svo er klár­lega núna. En það er verk að vinna. Á meðan haldið er áfram að byggja upp varn­argarða gegn nátt­úru­öfl­un­um verðum við að lina þján­ing­ar Grind­vík­inga og gefa þeim ein­hvern fyr­ir­sjá­an­leika sem fyrst.

Fólk er van­mátt­ugt og sorg­mætt vegna þess­ara nátt­úru­ham­fara og af­leiðinga þeirra. Það má aldrei van­meta hversu mik­il­vægt það ör­yggi sem felst í heim­il­inu er okk­ur. Verk­efnið fram und­an er hvorki ein­falt né auðvelt en með sam­stilltu átaki get­um við brugðist við á þann hátt sem ger­ir þessa erfiðu og sáru stöðu eins létt­bæra fyr­ir íbúa Grinda­vík­ur og mögu­legt er. Besta leiðin til þess er að hlusta á ósk­ir Grind­vík­inga og finna leiðir til að koma til móts við þær eins og mögu­legt er. Við þurf­um að hlúa að fólki sem á um sárt að binda á sama tíma og við ráðumst í verk­efni sem lúta að hús­næði fólks til skemmri og lengri tíma, námi barna og ung­linga og tóm­stundaiðkun. Staða fyr­ir­tækja á svæðinu og framtíð þeirra er líka mik­il­vægt úr­lausn­ar­efni.

Rík­is­stjórn­in þarf að leggja spil­in á borðið. Ákvarðanir mega ekki drag­ast mikið enda eru það eðli­leg­ar kröf­ur til stjórn­valda að hafa til­bú­in viðbrögð í gróf­um drátt­um við þeirri svörtu sviðsmynd sem raun­gerðist um helg­ina. Til þess hafa viðvar­an­irn­ar verið næg­ar síðustu vik­ur og mánuði.

Við höld­um áfram að senda Grind­vík­ing­um hlýj­ar hugs­an­ir en skýr svör um næstu skref verða að fylgja með.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðið 17. janúar