Hvað með Grindvíkinga?

Ráðherrarnir í ríkisstjórn Íslands verða ekki sakaðir um að leiðast það að þræta og á sama tíma eru fjölmiðlar í fullri vinnu við að fjalla um sandkassaleik þeirra. Nú bíður hluti ráðherranna eftir því (og vonar) að stjórnarandstaðan leggi fram vantrauststillögu á matvælaráðherra. Svona rær ríkisstjórnin lífróður sinn.

Eitt af þeim málum sem hafa setið á hakanum meðan á rifrildinu stendur er úrlausn fyrir þá Grindvíkinga sem eru með lán hjá lífeyrissjóðum. Þeir hafa ekki notið sömu niðurfellingar og bankarnir hafa veitt.

Nú hafa lífeyrisjóðirnir lýst því yfir að lög kveði á um að heimild þeirra til þess að fella niður afborganir lána sé ekki fyrir hendi. Það verður því að grípa til annara ráða til þess að lántakendur hjá lífeyrisjóðunum sitji við sama borð og aðrir.

Samkvæmt upplýsingum frá formanni Verkalýðsfélags Grindavíkur eru u.þ.b. 100 Grindvíkingar í þessari stöðu og upphæðin gæti numið 60-70 milljónum fyrir þá þrjá mánuði sem þessi aðgerð átti að ná yfir í fyrstu atrennu.

Þetta eru því smáaurar í stóra samhenginu þegar ljóst er að tjónið í Grindavík nemur nú þegar tugum milljarða.

Úr því að ríkistjórnin ætlar sér að eyða tíma sínum í að rífast innbyrðis verður að koma til önnur leið. Ég mun því hafa forgöngu um ásamt minnihluta velferðarnefndar að nefndin leggi fram tillögu um að ríkissjóður taki þennan kostnað á sig. Ríkisstjórnin getur þá haldið áfram að rífast á meðan í friði.

 

Greinin birtist fyrst á Vísi 10. janúar 2024