Yfirvofandi gjaldþrot

Síðustu and­ar­tök­in í lífi fyr­ir­tækja sem eru á leið í þrot geta verið dýr­keypt. Stjórn­end­ur sem róa lífróður við að bjarga rekstr­in­um eiga þá til að taka ákv­arðanir um mjög áhættu­söm verk­efni sem annaðhvort fela í sér mik­inn ávinn­ing eða rústa rekstr­in­um end­an­lega. Fari allt á versta veg get­ur staða allra hlutaðeig­andi orðið verri en hefði þurft að vera. Það er svo vel þekkt að þessi áhættu­sömu verk­efni sem farið er í á loka­sprett­in­um geta ekki síður verið til þess fall­in að þjóna eig­in hags­mun­um stjórn­enda, að jafn­vel séu eng­ar lík­ur á nein­um ávinn­ingi fyr­ir aðra en þá.

Rekst­ur sam­fé­laga er auðvitað á marg­an hátt ólík­ur rekstri fyr­ir­tækja. Ákveðin grund­vall­ar­lög­mál eru þó hin sömu. Rík­is­stjórn Vinstri-grænna, Sjálf­stæðis­flokks og Fram­sókn­ar­flokks hef­ur senni­lega sjald­an verið nær því að liðast í sund­ur og það er orðinn hálf­gerður sam­kvæm­is­leik­ur að veðja á hvenær það ger­ist. Mik­il­væg­ari spurn­ing að mínu mati er hins veg­ar hversu dýr­keypt síðustu and­ar­tök­in í lífi rík­is­stjórn­ar­inn­ar verða.

Það eru mörg brýn mál sem bíða úr­lausn­ar. Mál sem varða mikla þjóðar­hags­muni. Erfið staða í efna­hags­mál­um, mennta­mál, kjara­samn­ing­ar, út­lend­inga­mál, orku­skipti og upp­bygg­ing at­vinnu­greina sem kalla á frek­ari orku­vinnslu svo dæmi séu tek­in. Þetta eru sann­ar­lega ekki ein­föld mál en rík­is­stjórn­in hef­ur í besta falli skilað auðu. Úrræðal­eysið í bar­átt­unni við verðbólg­una er vel þekkt og í tengl­um við kjara­samn­inga virðist í kort­un­um ný teg­und af þjóðarsátt sem fel­ur í sér gríðarlega aukn­ingu á út­gjöld­um rík­is­sjóðs. Ein­hverj­ir myndu segja að það væri ekki á þau út­gjöld bæt­andi en senni­lega tel­ur rík­is­stjórn­in þetta létt­væg­an kostnað í sam­an­b­urði við upp­haf­leg­ar kröf­ur verka­lýðshreyf­ing­ar­inn­ar um stöðugan gjald­miðil til hags­bóta fyr­ir all­an al­menn­ing. Aðgerðal­eysið varðandi mik­il­væg orku­skipti er dap­ur­legt, svo ekki sé meira sagt. Fram­taksleysið þegar kem­ur að því að tryggja óum­deil­an­legt eign­ar­hald þjóðar­inn­ar á nátt­úru­auðlind­um lands­ins og eðli­leg­an afrakst­ur af nýt­ingu þeirra er fyr­ir neðan all­ar hell­ur.

And­legt þrot rík­is­stjórn­ar­inn­ar blas­ir við öll­um. Það er hætt við því að síðustu and­ar­tök­in verði þjóðinni dýr­keypt. Og er nú nóg samt þegar kem­ur að um­gengni stjórn­valda við rík­is­sjóð. Því til viðbót­ar má bú­ast við að brýn­ar aðgerðir í ein­staka mála­flokk­um sem varða al­manna­hags­muni nái ekki í gegn því stjórn­ar­flokk­ar beiti neit­un­ar­valdi hver gegn öðrum og að ein­staka ráðherr­ar nýti jafn­vel tím­ann frek­ar í at­hafn­ir sem þjóna sér­tæk­um hags­mun­um frek­ar en al­manna­hag.

Von­andi er þetta óþarfa svart­sýni í mér. Von­andi rifjar rík­is­stjórn­in upp gott og mik­il­vægt leiðarljós Viðreisn­ar um al­manna­hags­muni um­fram sér­hags­muni. Því yrði hægt að fagna.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. janúar