Miðjulausn

Þorsteinn Pálsson

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um stefnu í málefnum innflytjenda og hælisleitenda er skref í rétta átt.

Breytingarnar eru hófsamar. Í þeim felst aukið aðhald. Þess er þörf. Á hinn bóginn felst ekki í þeim nein grundvallarbreyting frá ríkjandi stefnu.

Aðeins lítill hluti verkefnanna kemur til framkvæmda strax. Að stórum hluta er þeim vísað inn í framtíðina. Væntanlega til næstu ríkisstjórnar. Það er í góðu samræmi við annað um þessar mundir.

 

Síðbúin stefnuyfirlýsing

Frá pólitísku sjónarhorni og í ljósi þess að komið er að lokum seinna kjörtímabils ríkisstjórnarinnar hljóta margir að spyrja:

Hvers vegna í ósköpunum tók það svona langan tíma að komast að svo hófsamri niðurstöðu? Svarið felst í innri veikleika stjórnarsamstarfsins.

Efnislega má segja að þessar breytingar séu mjög í anda þeirrar miðjulausnar sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar hóf máls á í fyrra haust og Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingar nálgaðist afgerandi nú fyrir nokkrum dögum.

 

Málefnalegt frumkvæði

Í fyrra haust freistaði formaður Viðreisnar þess að gera tilraun til að draga umræður um innflytjendamál og hælisleitendur úr þeim átakafravegi sem ráðherrar höfðu þá haldið þeim í mánuðum saman.

Í þeim tilgangi skrifaði hún forsætisráðherra formlegt bréf og bauð upp á samtal um breytingar og framtíðarskipan þessara mála.

Sérstaklega var vitnað til frumkvæðis Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Ólafar Nordal, sem leiddi til þverpólitískrar sáttar um útlendingalöggjöf 2016. En breyttar aðstæður hafa kallað á samstöðu um nýjar lausnir.

Forsætisráðherra tók erindinu vel og stofnaði til samtals allra flokka um efnið. Niðurstaða ríkisstjórnarflokkanna virðist þó hafa verið unnin algjörlega utan við þetta þverpólitíska samtal. Eigi að síður er hún undir áhrifum þeirra hugmynda, sem að baki því bjuggu.

 

Stjórnleysið

Ráðherrar sjálfstæðismanna hafa borið ábyrgð á þessum málaflokki samfellt í ellefu ár. Þeir hafa sjálfir notað hugtakið stjórnleysi til að lýsa árangrinum.

Hins vegar segjast þeir enga ábyrgð bera á stjórnleysinu. Í fyrra var skuldinni skellt á VG. Síðustu mánuði hafa þeir skrifað stjórnleysið á reikning stjórnarandstöðunnar.

Fyrri skýringin gæti átt við einhver rök að styðjast. Sú síðari er of barnaleg til að vera tekin alvarlega.

 

Breiddin á miðjunni

Á miðvikudag í síðustu viku skrifaði formaður Viðreisnar grein á Vísi þar sem hún hvatti til þess að ríkisstjórnin léti reyna á samtalsvettvanginn, sem forsætisráðherra stofnaði til, og freistaði þess að ná samstöðu á miðjunni fyrir vorið.

Í greininni taldi hún að tveir til þrír af fimm flokkum í stjórnarandstöðu gætu mögulega náð saman með stjórnarflokkunum, ef vilji væri fyrir hendi af þeirra hálfu.

Einmitt þennan sama dag lýsti Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingar svipuðum viðhorfum til þessara mála og fram komu í bréfi Þorgerðar Katrínar í fyrra haust.

 

Mikilvægur þrýstingur

Ummælin hafa vakið verðskuldaða athygli. Einu gildir hvort þau teljast vera stefnubreyting eða ekki. Þau staðfesta einfaldlega að það eru pólitískar forsendur fyrir hófsömum miðjulausnum með auknu aðhaldi til að hemja vöxt hælisleitenda og markvissum aðgerðum til koma í veg fyrir að nýir íbúar í landinu einangrist.

Enginn vafi leikur á því að málefnalegt frumkvæði formanna Viðreisnar og Samfylkingar að umræðu um nauðsyn hófsamra aðhaldsaðgerða hefur þrýst á ráðherra sjálfstæðismanna og VG til að nálgast lausn á þeim grundvelli. Framsókn hefur verið þar.

Átökin voru farin að skaða bæði Sjálfstæðisflokk og VG verulega. Stjórnleysið var á þeirra ábyrgð. Á sama tíma varð jarðvegurinn fyrir jaðarskoðanir frjósamari.

 

Opnari kosningabarátta

Reynsla annarra þjóða sýnir að mikilvæg umræða um efnahagsmál og velferð fellur gjarnan í skuggann þegar tilfinningahiti jaðranna í útlendingamálum verður alls ráðandi. Margt benti til þess að kosningaumræðan myndi fara fram á þeim forsendum í fyrsta skipti.

Ávinningurinn af breiðri samstöðu um hófsamar miðjulausnir skilar ekki aðeins efnislega góðri niðurstöðu á þessu afmarkaða sviði. Hann opnar um leið meira svigrúm fyrir málefnalega umræðu um langtíma stefnumörkun fyrir íslenskt samfélag.

Stjórnleysið hefur ekki bara verið bundið við útlendingamál. Það er því mikilvægt að kosningabaráttan geti farið fram á opnari vígvelli.

 

Greinin birtist fyrst á Eyjunni 22. febrúar 2024