Vanrækt pólitík og glötuð tækifæri

Þorsteinn Pálsson

Ísland rekur nokkuð öfluga og vel skipulagða utanríkisþjónustu.

Utanríkispólitíkin sjálf er hins vegar vanrækt. Stefnumörkunin er stöðnuð. Engin ný stór skref fram á við hafa verið stigin í þrjátíu ár.

Við fylgjum straumnum í varnarmálum en mótum ekki stefnuna sjálf. Á sviði efnahags- og viðskiptamála birtast afleiðingarnar í glötuðum tækifærum almennings, flestra atvinnugreina og velferðarkerfisins.

Þrándur í Götu

Fram yfir síðustu aldamót var Sjálfstæðisflokkurinn kjölfesta og helsta frumkvæðisafl í utanríkispólitíkinni ásamt Alþýðuflokknum. Síðustu ár hefur hann í keppni við Miðflokkinn orðið helsti Þrándur í Götu nýrra skrefa.

Þau umskipti endurspeglast vel í því að hann vill ekki lengur vinna með alþjóðasinnuðum flokkum á Alþingi.

Langvarandi samstarf við VG hefur leitt til stöðnunar á ólíkum sviðum eins og orkuskiptum og réttargæslu og líka til lausungar í ríkisfjármálum. Nú er þetta talið ásættanlegt ástand af því að það tryggir pólitíska stöðnun í alþjóðasamsamvinnu.

Samkeppnishæfni

Pólitísku umskiptin birtast líka í þögn um viðfangsefni, sem áður voru kjarnamál, eins og samkeppnishæfni Íslands.

Alþjóðleg könnun, sem Viðskiptaráð birtir árlega, sýnir að Ísland stendur langt að baki öðrum Norðurlöndum í þessum efnum og vermir botnsætin þegar horft er á þrengri mælikvarða samkeppnishæfni eins og erlenda fjárfestingu og alþjóðleg viðskipti.

Þetta stóra viðfangsefni má ekki lengur nefna af því að það vekur spurninguna um ný skref í alþjóðasamvinnu, sem augljóslega myndu auðvelda viðsnúning.

Félagslegt fjármagn tekur yfir

Á sjöunda áratug síðustu aldar var virk aðild að alþjóðlegu bandalagi um stöðuga gjaldmiðla lykilatriði viðreisnarstefnunnar. Nú má ekki nefna alþjóðlegt samstarf á þessu sviði.

Fyrir vikið er meir en heil þjóðarframleiðsla í gjaldeyrishöftum vegna takmarkana á erlendri fjárfestingu lífeyrissjóða. Engin vestræn þjóð býr við jafn umfangsmikil gjaldeyrishöft.

Afleiðingin er sú að félagslegt fjármagn ríkissjóðs og lífeyrissjóða fer með ráðandi hlut í öllum bönkum og félagslegt fjármagn lífeyrissjóða er yfirgnæfandi í skráðum fyrirtækjum. Gjaldeyrishöftin valda því að félagslega fjármagnið ýtir einkafjármagninu í erlenda gjaldmiðla og steinsteypu.

Þetta veikir markaðsbúskapinn. En öfugþróun af þessu tagi má ekki ræða af því að lausnin kallar á alþjóðlegt samstarf í gjaldmiðlamálum.

Á sínum tíma upprætti Sjálfstæðisflokkurinn alræmt fjölgengiskerfi í samstarfi við Alþýðuflokkinn. Nú ver hann fjölmyntakerfi og Samfylkingin er hlutlaus.

Hamskipti

Bæði á þessu kjörtímabili og því síðasta hafa utanríkisráðherrar lent í ógöngum með lögfestingu  Evrópureglna.

Það eru ekki þingmenn VG sem eru til vandræða. Andstaðan í grasrót Sjálfstæðisflokksins veldur því að ráðherrar hans verða að troða marvaðann við framkvæmd mikilvægasta alþjóðasamnings, sem Ísland er aðili að.

Fátt varpar betur ljósi á þau umskipti sem orðið hafa. Kannski væri réttara að kalla þetta hamskipti.

Nýtt forrit

Fyrir nokkrum árum hafði Benedikt Jóhannesson stærðfræðingur og síðar fjármálaráðherra forgöngu fyrir andófi fólks úr ýmsum áttum, sem vildi ekki festast í þessum hamskiptum.

Við stofnun Viðreisnar sagði hann: „Viðreisn er stofnuð kringum málefni, ekki menn. Markmiðið er ekki bara að skipta um fólk heldur um forrit.“

Viðreisn tók við keflinu sem frumkvæðisafl í umræðu um þróun fjölþjóðasamvinnu í samræmi við breytta tíma og hagsmuni almennings og atvinnulífs í landinu.

Í góðu samræmi við það hlutverk flutti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir núverandi formaður Viðreisnar þarfa brýningu á dögunum á Alþingi um mikilvægi utanríkisstefnunnar bæði varðandi varnir landsins og efnahagslegar framfarir.

Samhengi alþjóðlegrar samvinnu og framfara

Eftir að ný forysta í Samfylkingu ákvað að hafa ekki skoðun á utanríkismálum stendur Viðreisn ein þar sem sjálfstæðismenn og jafnaðarmenn töluðu fyrrum einum rómi.

Þessi málflutningur þarf hins vegar meira afl á Alþingi til þess að þar myndist á ný kjölfesta fyrir frjálslyndri og framsækinni stefnu fyrir Ísland.

Það er beint samhengi milli alþjóðlegrar samvinnu og stöðugleika, afkomu heimilanna og samkeppnisstöðu atvinnulífsins. Þar er brú til nýrra tækifæra, sem þarfnast umræðu við eldhúsborðin og í fyrirtækjunum.

Meira að segja ríkissjóður er ekki samkeppnisfær í velferðarmálum af því að við höfum ekki samkeppnishæfan gjaldmiðil.

Þeir sem grípa ekki tækifærin glata þeim.

 

Greinin birtist fyrst á Eyjunni 29. febrúar 2024