Gasið er að rjúka úr henni

Þorsteinn Pálsson

„Við erum að eltast við vökvafræðilega eiginleika. Það er, að sjá hvernig sveigjanlegir eiginleikar kvikunnar breytast frá upptökum og út í jaðra. Því er svolítið stjórnað af gasinu, sem er í kvikunni. Gasið er að rjúka úr henni.“

Þetta er ekki greining Ólafs Þ. Harðarsonar prófessors á sveigjanlegum eiginleikum kvikunnar í stjórnarsamstarfi jaðarflokkanna á Alþingi. Þetta er bara Morgunblaðsfrétt þar sem Ármann Höskuldsson prófessor í eldfjallafræði lýsir eðli jarðelda.

En hitt er, að lýsingin „gasið er að rjúka úr henni“ gæti eins átt við eðlisfræði kvikunnar í stjórnarsamstarfinu.

Ríkisvæðing

Samningaviðræður Landsbankans um að ríkisvæða tryggingafélag stóðu lengi. Frá þeim var sagt opinberlega og Bankasýslan var munnlega upplýst án þess að gefa því gaum.

Meðan á samningum stóð virtust þessi áform því endurspegla vel vökvafræðilega eiginleika í samstarfi þriggja ólíkra flokka.

Einkavæðing fjármálafyrirtækja var eina sérmálið sem stærsti flokkurinn í samstarfinu fékk inn í stjórnarsáttmála. Aðrir sigrar flokksins í samstarfinu hafa byggst á því að koma í veg fyrir að sérmál VG næðu fram að ganga.

Hótunin

Þegar gjörningurinn lá fyrir sagðist fjármálaráðherra ekki ætla að samþykkja ríkisvæðingu tryggingastarfseminnar nema Landsbankinn yrði seldur.

Ekki er ljóst gegn hverjum hótunin beindist. Landsbankinn hefur ekkert með sölu á sjálfum sér að gera. Hún er samkvæmt eðli kvikunnar í stjórnarsamstarfinu alfarið háð samþykki þingmanna VG. En nú er upplýst að sveigjanleiki þeirra hefur stirðnað eins og hraunið.

Hinn möguleikinn er sá að vökvafræðileg lögmál í stjórn Landsbankans séu þess háttar að hún rjúfi gerðan samninga vegna ákalls úr fjármálaráðuneytinu. Bankastjórinn hafnar því enda gufar þá gasið upp úr armslengdarreglunni.

Ábyrgðin

Góð ráð eru dýr við slíkar aðstæður. Þá var kallað eftir liðsinni Bankasýslunnar, sem ákveðið var að leggja niður fyrir tveimur árum af því að enginn treysti henni eftir Íslandsbankasöluna.

Grundvöllur eigendastefnu ríkisins, sem fjármálaráðherra ákveður, mælir skýrt fyrir um að ríkisbanka skuli í einu og öllu reka eftir sömu lögmálum og einkabanka en ekki sem samfélagsbanka. Kaup á öðru fjármálafyrirtæki falla að þeim fyrirmælum.

Klípan er sú að þau falla ekki að eðlilegum pólitískum sjónarmiðum um að standa gegn ríkisvæðingu einkafyrirtækja. Að réttu lagi átti fjármálaráðherra að setja þessa takmörkun á almennu reglunni inn í eigendastefnuna. Þar liggur ábyrgðin á mistökunum.

Vegna þessara pólitísku mistaka þarf „virt og vönduð“ Bankasýsla að velja á milli þess hvort varðveita eigi viðskiptalegan trúverðugleika stjórnenda Landsbankans eða pólitískan trúverðugleika fjármálaráðherra. Eftir bréf frá ráðherranum sýnast nöfn fórnarlambanna þegar vera skrifuð á vegginn.

Valdaframsal

Eðlisfræðin í framgangi eigendastefnu ríkisins rímar við vel við eðlisfræði ríkisfjármála, verðbólgu og vaxta.

Undanfarin ár hafa þingmenn þess flokks sem fer með ríkisfjármálin verið sammála um að ábyrgðin á þrefalt hærri verðbólgu en í grannlöndunum, þrefalt hærri vöxtum og vaxandi halla ríkissjóðs lægi á herðum leiðtoga Eflingar.

En það lýsir vel sveigjanlegum eiginleikum stjórnarsamstarfsins að nú féllust þingmenn þessa sama flokks á að gefa leiðtoga Eflingar sjálfdæmi um að ákveða aukin útgjöld ríkissjóðs til velferðarmála í tengslum við kjarasamninga.

Flestum þykir sem það hafi verið happaákvörðun.

Albaníuaðferðin

Á þeirri samstöðu er ein undantekning.

Sveitarstjórnarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa mótmælt hástöfum að þeirra eigin þingmenn skyldu framselja ákvörðunarvald um gjaldfrjálsar skólamáltíðir til Eflingar.

En að hætti gamalla sovétleiðtoga, sem skömmuðu Albaníu þegar koma þurfti höggi á Kína, skamma þeir nú Samfylkingarformann Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Eitraður sveigjanleiki

Fjármálaráðherra hafnar því að mæta auknum útgjöldum með nýjum sköttum eða niðurskurði en mælir með aðhaldi í fjármálaáætlun, sem kemur til framkvæmda á næsta ári, en hefur verið ríkisstjórninni ofviða til þessa.

Heilbrigðisráðherra þarf svo að þrefalda framlög til byggingar nýs Landspítala og innviðaráðherra þarf tvöfalt fleiri krónur í samgönguframkvæmdir.

Loks var fjórða þingmanni Suðurkjördæmis alvarlega brugðið við tilkynningu menningarráðherra um margföldun listmannalauna. Menningarráðherra segir að hún sé bara brotabrot af útgjaldaþenslu háskólaráðherra.

Engu er líkara en eiturgas rjúki nú upp úr þessu sveigjanlega samstarfi.

Greinin birtist fyrst á Eyjunni 21. mars 2024