Hvar er þessi agi?

Það voru von­brigði að ekki tókst að lækka stýri­vexti Seðlabank­ans við síðustu vaxta­ákvörðun. Aðilar vinnu­markaðar­ins fylgdu því hand­riti sem Seðlabank­inn sagði að myndi helst leiða til vaxta­lækk­un­ar. Samt var ekki talið rými til að hefja lækk­un­ar­ferlið. Ekki síst, að sögn seðlabanka­stjóra, vegna þess að það er enn óljóst hvernig stjórn­völd fjár­magna sína aðkomu að kjara­samn­ingn­um.

Það er ný­lunda og ekki góð þróun að rík­is­stjórn­in er orðin lyk­ilaðili í því að landa kjara­samn­ing­um. Að þessu sinni hyggst rík­is­stjórn­in leggja til 80 millj­arða króna en það sem vant­ar er að segja hvernig hún hyggst fjár­magna fram­lag sitt. Á meðan ráðamenn þjóðar­inn­ar geta ekki svarað þeirri grund­vall­ar­spurn­ingu get­ur Seðlabank­inn ekki metið áhrif þessa fram­lags á verðbólgu­horf­ur og farið í að lækka vexti. Það er ekki bara hlut­deild­in í kjara­samn­ing­um sem þarf að svara fyr­ir held­ur líka fjár­mögn­un aðgerða vegna elds­um­brota í Grinda­vík. Rík­is­stjórn­in seg­ist ekki ætla að hækka skatta um­fram það sem þegar hef­ur verið ákveðið, ekki skera niður í rekstri og ekki taka lán. Eitt­hvað af þessu þarf þó að ger­ast.

Öllum sem fylgst hafa með verk­um þess­ar­ar rík­is­stjórn­ar virðist ljóst að ekki verður farið í al­vöruaðhald, sem væri sú leið sem myndi hjálpa okk­ur lang­best til að tak­ast á við verðbólg­una og hraða því að lækka vexti. Þess í stað virðast ráðherr­ar okk­ar komn­ir með kosn­inga­skrekk og kepp­ast við að lofa enn frek­ari út­gjöld­um. Enn virðist rík­is­stjórn­in þannig frek­ar ýta und­ir verðbólg­una í stað þess að kæla hana niður. Ef ekki verður gripið hér í taum­ana erum við að horfa upp á áfram­hald­andi hag­stjórn­ar­mis­tök sem þegar hafa kostað ís­lensk­ar fjöl­skyld­ur og fyr­ir­tæki millj­arða króna.

Við fáum reglu­lega að heyra úr ranni rík­is­stjórn­ar­inn­ar og þeirra bak­hjarla að við þurf­um ekki ann­an gjald­miðil til að byggja hér und­ir stöðug­leika í efna­hags­kerf­inu. Við gæt­um gert þetta sjálf með meiri aga. Hvenær kem­ur þessi agi? Ætlar þessi rík­is­stjórn að finna hann?

Á sama tíma og Viðreisn hef­ur verið óþreyt­andi í því að gagn­rýna þann óþarfa auka­kostnað sem krón­an legg­ur á okk­ur treyst­um við okk­ur í það verk að byggja hér upp stöðug­leika til lengri tíma en nokk­urra mánaða, hvaða gjald­miðil sem við not­um. Stöðug­leika sem leyf­ir okk­ur að lækka vexti til framtíðar og hjálp­ar okk­ur að áætla fram í tím­ann. Stöðug­leika sem dreg­ur úr þörf­inni á því að ríkið stígi inn sem lyk­ilaðili í kjara­samn­ing­um, til að greiða niður kostnað heim­il­anna við stöðugan óstöðug­leika.

 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. mars 2024