Hver á að borga?

Frá árinu 2019 hafa þingmenn Viðreisnar varað við óheillaþróun í fjármálum ríkisins. Þá þegar var ljóst að rekstur ríkissjóðs var ósjálfbær. Ljóst var að kraftaverk þyrfti til ef forðast átti verðbólgu, með tilheyrandi neikvæðum afleiðingum fyrir almenning og fyrirtæki. Viðreisn hefur einnig varað ítrekað við skuldasöfnun ríkisins og gert árlegar tillögur um aðhaldsaðgerðir, aukna tekjuöflun og einföldun kerfisins. Viðreisn benti einnig ítrekað á að þeir lágu vextir sem ríktu á COVID tímanum væru líklegir til þess að vera tímabundnir ef áframhald yrði á þensluhvetjandi fjáraustri hins opinbera. Og þá myndu bæði ríkissjóður, skuldsett heimili og leigjendur vera í erfiðri stöðu. Á þessi varnarorð var ekki hlustað. Miklu heldur auglýsti flokkur fjármálaráðherra digurbarklega fyrir síðustu kosningar að Ísland væri orðið lágvaxtaland!

 

Mikilvægir langtímasamningar

Verðbólga varð hærri og lengur viðvarandi en gerðist í nágrannalöndum okkar. Svo ekki sé talað um hið háa vaxtastig. Vextir verða reyndar ávallt tvisvar til þrisvar sinnum hærri en gerist annars staðar. Sama hvernig árar. Hinn rammíslenski krónuskattur leggst miskunnarlaust á fjölskyldur landsins.

Viðreisn hefur haldið þessum málflutningi áfram eftir að verðbólga jókst. Viðreisn hefur varað við því að skella allri ábyrgð um aðhald á þröngan hóp skuldsettra heimila. Það er vont að láta þau bera stærstan part af kostnaði vegna vaxtahækkana sem voru beinar afleiðingar útgjaldaaukningar ríkisins. Nú loks hefur verkalýðshreyfinunni tekist að sannfæra stjórnvöld um ósanngirni hagstjórnar núverandi ríkisstjórnar. Samið hefur verið um verulega hækkun húsnæðisstuðnings. Það er gott og mikilvægt.

Það er einnig mikið fagnaðarefni að samningar hafa náðst til langs tíma. Það veitir von. En krefst um leið skýrra svara þegar kemur að ríkisfjármálum.

Það er því ákveðin kaldhæðni örlaganna að þessum kjarasamningum er ætlað að vinna til baka það tjón sem slök efnahagsstjórn, verðbólga og séríslenskir vextir hafa valdið heimilum og fyrirtækjum landsins. Þar spilar gjaldmiðillinn okkar auðvitað stórt hlutverk en árlegur kostnaður þjóðarinnar vegna hærri vaxta miðað við evru er vel yfir 200 milljarðar. Þrátt fyrir það var kjarkmikil og framsýn tillaga Vilhjálms Birgissonar verkalýðsforingja um að skipa hóp óháðra erlendra aðila til að fara yfir kosti og galla íslensku krónunnar, lögð til hliðar. Áfram á því að pissa í skóinn sinn.

 

Þurfum ríkisstjórn sem talar skýrt

Fyrrnefnd húsæðisaðgerð er mikilvæg. En ein og sér auk annarra skuldbindinga ríkisins er þetta skammgóður vermir. Því eftir stendur hvernig ríkisstjórnin ætlar að fjármagna útgjaldaaukninguna sem fylgir skuldbindingum hennar. Hver borgar? Ætla stjórnvöld að fjármagna þennan pakka með erlendri lántöku? Ef það verður nálgunin er líklegt að nýlega undirritaðir kjarasamningar verða skammlífir.

Ríkisstjórnin hefur imprað á að fara í aðhald og hagræðingu. Í þeim efnum er trúverðugleikinn lítill enda afrekaskrá ríkisstjórnar þar engin. Hún kann hins vegar eitt og annað fyrir sér í skattahækkunum og þarf því að tala tæpitungulaust um hvaða skatta og gjöld hún ætlar sér að hækka.

Ríkisstjórnin þarf að svara því hvernig hún ætlar að koma í veg fyrir að dýrmæt kaupmáttaraukning sem nýir kjarasamningar skapa muni ekki brenna upp í áframhaldandi verðbólgu? Annars gerist hún sek um verstu gerð svika – að skrifa undir samning sem hún hefur ekki í hyggju að standa við. Blekkja þjóðina.

Þjóðin á kröfu á að vita hvernig ríkisstjórnin ætlar að tryggja að kostnaður við þessa kjarasamninga fari ekki beint út í verðlag og geri þá að tómum bókstaf. Óljós svör þar um duga ekki. Því miður er reynslan af þessari ríkisstjórn sú að hún hefur hvorki haft getu til að draga úr þenslu báknsins né sækja meiri tekjur. Flest allt er fjármagnað með lánum. Þau varpa kostnaðinum inn í framtíðina. Axla ekki ábyrgð. Það verður hins vegar verkefni næstu ríkisstjórnar. Viðreisn er tilbúin í það verkefni.

 

Greinin birtist fyrst á Vísi 10. mars 2024