Af hverju ekki að jafna leikinn?

Seðlabank­inn hef­ur aukið veru­lega hina svo­kölluðu bindiskyldu bank­anna. Það þýðir að viðskipta­bank­arn­ir þurfa að leggja meira fé inn á vaxta­lausa reikn­inga í Seðlabank­an­um. Þetta er ugg­laust skyn­sam­leg ráðstöf­un.

Ákvörðunin staðfest­ir að stjórn­völd eru enn langt frá því að ná jafn­vægi í þjóðarbú­skapn­um. Sú staðreynd kem­ur ekki á óvart. Heim­il­in í land­inu finna fyr­ir því. Við erum í þriðja sæti eða á eft­ir Rússlandi og Úkraínu þegar kem­ur að vöxt­um. Í könn­un Maskínu sem gerð var um dag­inn segja um 70 pró­sent ís­lenskra heim­ila að verðbólga og vext­ir hafi mik­il eða mjög mik­il áhrif á heim­il­is­bók­haldið.

Það sem mér finnst hins veg­ar tíðind­um sæta við þessa ákvörðun Seðlabank­ans um aukna bindiskyldu er rök­stuðning­ur bank­ans.

Hvað er hægt að gera við 40 millj­arða, á hverju ári?

Gjald­eyr­is­vara­sjóður Seðlabank­ans er mik­il­væg­ur. Við þurf­um hann ekki síst vegna krón­unn­ar. Það gleym­ist hins veg­ar að hann kost­ar mikla fjár­muni. Yfir 40 millj­arða ár­lega. Vaxta­greiðslurn­ar eru þung­ar byrðar fyr­ir bank­ann. Krónu­byrðar. En þetta er val stjórn­valda og gömlu flokk­anna. Í raun kost­ar krón­an ís­lenskt sam­fé­lag meira en einn millj­arð á dag. Meðan þessi krónu­skatt­ur er til staðar er hol­ur hljóm­ur í að tala um hagræðingu og lækk­un skatta ef ekki má ráðast á um­svifa­mik­inn kostnað ís­lenskra heim­ila, fyr­ir­tækja og rík­is­sjóðs. Svo ekki sé minnst á rétt­lætið sem fylg­ir traust­um gjald­miðli eins og evru.

Helsti rök­stuðning­ur Seðlabank­ans fyr­ir hækk­un bindiskyld­unn­ar er sá að rétt sé að viðskipta­bank­arn­ir beri þenn­an kostnað með Seðlabank­an­um. Það má jafn­vel skilja sem svo að þetta sé brýnt jafn­rétt­is­mál.

Seðlabank­inn er með öðrum orðum að segja að hann ráði ekki sjálf­ur við það vaxta­stig sem hann hef­ur ákveðið. Vext­irn­ir af gjald­eyr­is­vara­sjóðnum leiða til halla í reikn­ing­um bank­ans. Það er ekki góð lat­ína á þenslu­tím­um. Þess vegna er bank­an­um nauðugur einn kost­ur að dreifa byrðunum á fleiri herðar.

Hér nýt­ur Seðlabank­inn hins veg­ar sér­stöðu. Hann hef­ur vald til þess að ákveða að viðskipta­bank­arn­ir beri þess­ar vaxta­byrðar vegna gjald­eyr­is­vara­sjóðsins með hon­um. Það er bara ákveðið með einu penn­astriki.

Rík­is­sjóður er í sömu aðstöðu. Hann ræður ekki við þá vexti sem rík­is­stjórn­in fel­ur Seðlabank­an­um að ákveða. Vaxta­gjöld síðasta árs voru um 80 millj­arðar króna. Und­ir for­ystu þing­manna Sjálf­stæðis­flokks­ins hef­ur rík­is­sjóður valið þá leið að auka skuld­ir og láta skatt­greiðend­ur framtíðar­inn­ar borga brús­ann. Heill ára­tug­ur af halla á rík­is­sjóði er arf­leifð þess­ar­ar rík­is­stjórn­ar.

Stærsta jafn­rétt­is­spurn­ing sam­tím­ans

Útflutn­ings­fyr­ir­tæki með 42 pró­sent af þjóðarfram­leiðslunni starfa í vaxtaum­hverfi sem stýrt er af Seðlabanka Evr­ópu og Seðlabanka Banda­ríkj­anna. Of­ur­vext­ir Seðlabanka Íslands snerta ekki einu sinni þenn­an stóra hluta í þjóðarbú­skapn­um.

Seðlabank­inn get­ur sem sagt velt hluta af sín­um eig­in vaxta­vanda yfir á viðskipta­bank­ana. Rík­is­sjóður velt­ir sín­um vaxta­vanda yfir á unga fólkið, skatt­greiðend­ur framtíðar­inn­ar. Útflutn­ings­fyr­ir­tæk­in vita hins veg­ar ekki af vaxta­vand­an­um.

Þá er komið að garm­in­um hon­um Katli. Heim­il­in í land­inu geta ekki eins og Seðlabank­inn, rík­is­sjóður eða út­flutn­ings­fyr­ir­tæk­in velt vaxta­vand­an­um yfir á aðra. Þau bera sín­ar byrðar sjálf. Sama má segja um litlu og meðal­stóru fyr­ir­tæk­in sem eru í inn­lendri sam­keppni. Það sjá flest­ir að það þarf að jafna leik­inn. Nokkuð sem all­ir gömlu flokk­arn­ir eiga erfitt með að beita sér fyr­ir.

Það er í ljósi jafn­rétt­is­hug­sjón­ar að Seðlabank­inn get­ur dreift vaxta­byrðinni af gjald­eyr­is­forðanum að hluta til yfir á viðskipta­bank­ana. Og það er á grund­velli jafn­rétt­is­hug­sjón­ar að út­flutn­ings­fyr­ir­tæk­in búa í sama vaxtaum­hverfi og keppi­naut­arn­ir á er­lend­um mörkuðum. Það er jafn­rétt­is­mál að þau geti starfað í öðru vaxtaum­hverfi en því sem Seðlabanki Íslands ákveður.

En þegar kem­ur að heim­il­un­um í land­inu lok­ar rík­is­stjórn­in aug­un­um. Þá má ekki nefna jafn­rétti og jafna mögu­leika allra. Að verka­kon­an, tré­smiður­inn eða kenn­ar­inn njóti jafn­rétt­is við eig­end­ur út­flutn­ings­fyr­ir­tækj­anna er ekki hægt. Það er víst vegna „stærra sam­heng­is“, eins og einn for­ystumaður rík­is­stjórn­ar­inn­ar komst að orði um þessa stærstu jafn­rétt­is­spurn­ingu sam­tím­ans!

Af átta flokk­um á Alþingi hef­ur Viðreisn ein sett þetta jafn­rétt­is­mál á dag­skrá.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. apríl 2024