Heimilislæknar eiga ekki að vera lúxus

Þau okk­ar sem kom­in eru til vits og ára þekkja biðlista­vand­ann sem skapaður hef­ur verið í heil­brigðis­kerf­inu. Þegar kem­ur að heilsu­gæsl­unni, fyrsta viðkomu­stað heil­brigðis­kerf­is­ins sam­kvæmt heil­brigðis­stefnu stjórn­valda, er staðan sú að stór hluti Íslend­inga er án heim­il­is­lækn­is. Víða er ekki hægt að fá bókaðan tíma en starfs­fólk heilsu­gæsl­unn­ar vinn­ur krafta­verk á hverj­um degi við að bjarga fólki úr ógöng­um vegna stöðunn­ar.

Mönn­un heim­il­is­lækna er í sögu­legu lág­marki. Til að upp­fylla staðla Fé­lags ís­lenskra heim­il­is­lækna þyrfti að þre­falda fjölda heim­il­is­lækna í fullu starfi. Sem bet­ur fer hef­ur verið stöðug ásókn í sér­nám í heim­il­is­lækn­ing­um síðustu ár en það eru þó nokk­ur ár í að heim­il­is­lækn­um fari að fjölga aft­ur.

Þessi staða er ekki óvænt. Hún hef­ur legið fyr­ir lengi, en þegar vant­ar stefnu­mót­un sem bygg­ist á skiln­ingi á stöðunni og skýrri þarfagrein­ingu þá þarf ástandið ekki að koma á óvart.

Sú stefna sem stjórn­völd hafa unnið eft­ir, að bæta sí­fellt viðbót­ar­verk­efn­um á heilsu­gæsl­una, geng­ur held­ur ekki leng­ur. Þetta kem­ur niður á getu heilsu­gæsl­unn­ar til að sinna kjarn­a­starf­semi sinni ein­mitt á sama tíma og aldrei hef­ur verið meiri eft­ir­spurn eft­ir þeirri kjarn­a­starf­semi, m.a. vegna fjölg­un­ar og öldrun­ar íbúa. Hér þarf að snúa kúrs­in­um við.

Það þarf að leggja áherslu á að styrkja kjarn­a­starf­semi heilsu­gæsl­unn­ar. Minnka óþarfa álag, draga úr sóun og fækka viðvik­um sem hafa ekki skýr­an til­gang. Tryggja fag­legt og spenn­andi starfs­um­hverfi og stuðla að tækniþróun sem styður við þessi mark­mið. Þar er af nægu að taka varðandi skrán­ingu vott­orða, for­gangs­röðun í tíma, for­skrán­ingu er­inda, al­menna ráðgjöf og fjarþjón­ustu svo dæmi séu tek­in.

Loks þarf að nýta fjár­mögn­un­ar­lík­an heilsu­gæsl­unn­ar til að búa til réttu hvat­ana. Þar hafa stjórn­völd því miður villst af leið frá því að fjár­mögn­un­ar­líkanið var tekið í notk­un fyr­ir tæp­um ára­tug.

En allt þetta er háð því að stjórn­völd hafi skýra og mark­miðasetta stefnu byggða á framtíðar­sýn um þau verk­efni sem við vilj­um að heilsu­gæsl­an okk­ar sinni. Aðrir hlut­ar heil­brigðis­kerf­is­ins verða svo að fá stuðning til að sinna öðrum verk­efn­um. Heil­brigðis­stefna þarf líka að fela í sér al­vöru­samþætt­ingu inn­an heil­brigðis­kerf­is­ins þannig að mis­mun­andi hlut­ar þess, til dæm­is sjúkra­hús, heilsu­gæsla, end­ur­hæf­ing og sér­greina­lækn­ar, starfi á for­send­um sem styðja við sam­eig­in­legt mark­mið.

Hér þarf að gera bet­ur. Verk­efnið ligg­ur fyr­ir og hef­ur gert lengi. Það geng­ur ekki að heim­il­is­lækn­ar verði viðvar­andi lúx­us hér á landi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. maí 2024