Löggæsla er grunnþjónusta við fólkið í landinu

Að standa vörð um ör­yggi fólks er fyrsta skylda stjórn­valda. Þrátt fyr­ir að þetta sé al­gjör frum­skylda rík­is­ins blas­ir al­var­leg innviðaskuld við hér.

Verk­efni lög­gæsl­unn­ar eru fleiri og flókn­ari en áður. Þörf­in fyr­ir þjón­ustu lög­gæsl­unn­ar er alltaf að aukast, kostnaðar­hækk­an­ir eru í rekstri embætta og víða um land er hús­næði lög­reglu þannig að það háir starf­sem­inni. Hlut­fall ófag­lærðra lög­reglu­manna hef­ur farið hækk­andi, sér­stak­lega í byggðum lands­ins, og viðbragðstíma lög­reglu er ábóta­vant víða um land. Sú staða er ógn við ör­yggi fólks.

Í því ljósi er ótrú­legt að aðhaldskrafa upp á 1.500 millj­ón­ir er nú sett á lög­gæslu­stofn­an­ir lands­ins í fjár­mála­áætl­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Það er ekki hægt að halda því fram að grunnþjón­usta sé und­an­skil­in aðhaldi þegar al­gjör grunnþjón­usta eins og lög­gæsla sæt­ir aðhaldi. Það er ekki held­ur hægt að tala um innviði án þess að tala um lög­gæslu.

Rík­is­stjórn­inni geng­ur illa að ná niður verðbólgu. Ný fjár­mála­áætl­un geym­ir því miður ekki betri tæki til að ná niður verðbólgu en sú síðasta og vinna rík­is­stjórn­ar­flokk­anna bygg­ist ekki á grein­ing­um um hvernig er hægt að fara bet­ur með fjár­magn eða auka fram­leiðni.

Hin flata aðhaldskrafa í fjár­mála­áætl­un bein­ist með sama hætti að öll­um mála­flokk­um en ákveðnir grund­vall­ar­mála­flokk­ar eru þó und­an­skild­ir. Þar á meðal er heil­brigðisþjón­usta, sem breið samstaða rík­ir um á Alþingi að verði ekki lát­in sæta aðhaldi. Sömu lög­mál gilda um lög­gæslu og heil­brigðisþjón­ustu. Þar er um al­gjöra grunnþjón­ustu að ræða og aðhald í starf­semi sem fer fram á sól­ar­hrings­vökt­um all­an árs­ins hring leiðir alltaf til þess að fækka þarf starfs­fólki og hegg­ur þar með í þjón­ustu. Nær all­ur kostnaður lög­reglu er launa­kostnaður. Aðhald get­ur þess vegna ekki þýtt annað en fækk­un í starf­semi sem er fáliðuð fyr­ir.

Þessi furðulega sýn stjórn­valda á lög­gæslu og ör­yggi þjóðar­inn­ar birt­ist á sama tíma og gríðarleg fólks­fjölg­un hef­ur orðið í land­inu og mik­ill fjöldi ferðamanna kem­ur til lands­ins all­an árs­ins hring. Verk­efni lög­regl­unn­ar og þjón­usta er fjöl­breytt. Allt frá um­ferðar­mál­um og um­ferðarslys­um yfir í um­fangs­mikl­ar rann­sókn­ir á skipu­lagðri brot­a­starf­semi. Saka­mál­a­rann­sókn­ir nú­tím­ans eru af meiri gæðum sem ger­ir þær að sama skapi tíma­frek­ari. Það er óraun­hæft að ætla að efla varn­ir gegn skipu­lagðri glæp­a­starf­semi til lengri tíma án þess að al­menn lög­gæsla sé sam­hliða vel mönnuð. Báðar stoðir þarf þess vegna að styrkja og horfa þarf á lög­gæsl­una yfir landið allt.

Vilji dóm­stóla ekki virt­ur

Lög­gæsla og fang­els­in hafa lengi dregið aðhaldsvagn­inn fyr­ir ríkið. Lög­regla hef­ur enn ekki náð fyrri styrk frá hruni og fang­els­in búið við aðhalds­kröfu í 20 ár. Áhrif­in eru þau að tug­ir dóma fyr­ir of­beld­is­brot og nokkr­ir dóm­ar fyr­ir kyn­ferðis­brot hafa fyrnst á sl. ára­tug. Dæmd­ir menn hafa af þess­ari ástæðu ein­fald­lega ekki verið látn­ir afplána dóma í sam­ræmi við niður­stöðu dóma. Það eru óboðleg skila­boð til brotaþola og sam­fé­lags­ins alls. Vilji og niðurstaða dóm­stóla er virt að vett­ugi þegar fang­els­is­dóm­ar fyrn­ast. Þessi staða er ógn við rétt­ar­ríkið.

Fáliðuð lög­regla

Frá því að embætti lög­reglu­stjór­ans á höfuðborg­ar­svæðinu var stofnað árið 2007 hef­ur lög­reglu­mönn­um á svæðinu fækkað um 40. Á sama tíma hef­ur orðið spreng­ing í íbúa­fjölda og sam­fé­lags­gerðin breyst. Staðan er orðin sú að fyr­ir hverja þúsund íbúa á höfuðborg­ar­svæðinu er rétt rúm­lega einn lög­reglumaður. Á lands­byggðunum eru um­dæmi víðfeðm sem ger­ir starf lög­reglu þyngra. Þar hef­ur lög­reglu­mönn­um fjölgað sums staðar, en ekki í takt við íbúa­fjölda og ekki í sam­ræmi við verk­efnaþunga. Hér þarf að skoða ís­lensk­ar aðstæður.

Árið 2020 var fjöldi lög­reglu­manna á hverja 100.000 íbúa næst­minnst­ur á Íslandi af 32 Evr­ópu­ríkj­um. Stytt­ing vinnu­vik­unn­ar hef­ur leitt af sér kostnaðar­hækk­an­ir hjá lög­reglu, þar sem unnið er á sól­ar­hrings­vökt­um all­an árs­ins hring. Þess vegna þyrfti fjölg­un í starfsliði bara til að halda starf­semi í horf­inu. Í svari við fyr­ir­spurn minni á Alþingi til dóms­málaráðherra kem­ur fram að til þess að mæta stytt­ingu vinnu­vik­unn­ar þurfi að fjölga lög­reglu­mönn­um um 50-70. Ný­leg­ar mannaráðning­ar fela því ekki í sér neina raun­fjölg­un.

Lög­gæsla er grunnþjón­usta

Viðreisn hef­ur margsinn­is vakið at­hygli á löng­um málsmeðferðar­tíma í rétt­ar­kerf­inu og á stöðu fáliðaðrar lög­reglu. Þolend­ur al­var­legra af­brota, eins og kyn­ferðis­brota, eiga ekki að þurfa að bíða árum sam­an eft­ir því að fá svör um niður­stöðu í mál­um sín­um. Staða lög­gæslu á Íslandi og rétt­ar­kerf­is­ins er ein­fald­lega ekki þannig að það sé hægt að rétt­læta það að fækka þar starfs­fólki.

Viðreisn tel­ur að horfa eigi á lög­gæslu sem grunnþjón­ustu við fólkið í land­inu og að þessa þjón­ustu eigi að efla. Ábyrg fjár­mál snú­ast um heil­brigða skyn­semi og for­gangs­röðun. Flatt aðhald í lög­gæslu hef­ur áhrif á ör­yggi og ör­ygg­is­til­finn­ingu fólks. Það er ein­fald­lega óskyn­sam­leg ráðstöf­un fjár­muna að van­fjár­magna innviði og þjón­ustu sem hafa það hlut­verk að tryggja ör­yggi fólks. Það verður að setja lög­gæslu í sama for­gang og heil­brigðisþjón­ustu.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. maí 2024