Óbærilegir óþarfa vaxtaverkir

Enn og aft­ur minntu óblíð nátt­úru­öfl­in á sig í gær þegar átt­unda eld­gosið á þrem­ur árum hófst á Reykja­nesskaga. Rým­ing Grinda­vík­ur og Bláa lóns­ins gekk vel enda eru viðbragðsaðilar okk­ar orðnir ansi sjóaðir í þess­um aðstæðum. Það á líka við um viðbrögð við öðrum áföll­um sem reglu­bundið dynja á þjóðinni vegna veðurofsa og nátt­úru­ham­fara af ýms­um toga. Við vit­um að við sveigj­um ekki nátt­úru­lög­mál­in og höf­um þess vegna þurft að læra að lifa með þeim.

Það sem við höf­um hins veg­ar stjórn á eru mann­anna verk. Til dæm­is eru ekki nátt­úru­lög­mál þeir him­in­háu vext­ir sem ís­lensk­ur al­menn­ing­ur hef­ur búið við í lengri tíma. Sturluð vaxta­gjöld heim­ila lands­ins eru ekki ham­far­ir frá nátt­úr­unn­ar hendi. Það sama á við um vaxta­gjöld lít­illa og meðal­stórra fyr­ir­tækja sem hafa ekki fengið sér­stakt leyfi stjórn­valda til að yf­ir­gefa ís­lenska krónu­hag­kerfið og nota er­lenda gjald­miðla. Það er sem sagt ekki nátt­úru­lög­mál að hér flæði tug­ir millj­arða króna frá ís­lensk­um heim­il­um og fyr­ir­tækj­um í vaxta­kostnað um­fram það sem heim­ili og fyr­ir­tæki í ná­granna­lönd­um okk­ar greiða í vexti af sín­um skuld­um.

Það er held­ur ekki nátt­úru­lög­mál að rík­is­sjóður Íslands, sem er í raun hóf­lega skuld­sett­ur í sam­an­b­urði við önn­ur lönd, greiði miklu hærri vexti af sín­um skuld­um. Gögn frá Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðnum sýna að hlut­fall vaxta­gjalda rík­is og sveit­ar­fé­laga nem­ur um 6% af lands­fram­leiðslu. Þau lönd sem koma næst, Bret­land og Ítal­ía, greiða um 4% af sinni lands­fram­leiðslu á meðan skuld­ir þeirra sem hlut­fall af lands­fram­leiðslu eru mun hærri en okk­ar. Að meðaltali er vaxta­kostnaður þeirra ríf­lega 30 ríkja sem Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn skoðar um 2% af lands­fram­leiðslu.

Á manna­máli þýðir þetta að við erum heims­meist­ar­ar í því að nota pen­ing­ana í vit­leysu. Því það er auðvitað ekk­ert annað en vit­leysa að halda hér dauðahaldi í gjald­miðil sem er okk­ur svona rán­dýr. Vext­ir í ís­lensku krónu­hag­kerfi eru og verða miklu hærri en vext­ir í hag­kerf­um með stærri og stöðugri gjald­miðil. Við vit­um öll hvernig staðan er. Að á sama tíma og ríki og sveit­ar­fé­lög þurfa að dæla fleiri tug­um millj­arða króna í sér­ís­lensk­an vaxta­kostnað þá skort­ir hér til­finn­an­lega fjár­magn í ýmsa nauðsyn­lega fjár­fest­ingu í innviðum og aðra þjón­ustu við al­menn­ing.

Af hverju sætt­um við okk­ur við þetta? Er það af því það er búið að sann­færa okk­ur um að þessi staða sé nátt­úru­lög­mál sem ekki er hægt að breyta? Að óbæri­leg­ir vaxta­verk­ir ís­lenskra heim­ila og fyr­ir­tækja séu af­leiðing óblíðra nátt­úru­afla sem við þurf­um bara að læra að lifa með?

Við vit­um bet­ur. Breyt­um þessu.

 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. maí 2024