Viðreisn vill skýra afstöðu gegn hörmungunum á Gaza

Þingflokkur Viðreisnar krefst þess að utanríkisráðherra fordæmi þau mannréttindabrot sem hafa verið framin í Palestínu og kalli eftir vopnahléi milli Ísrael og Hamas. Þá fer Viðreisn fram á það að forsætisráðherra og utanríkisráðherra beiti sér á alþjóðavettvangi fyrir því að morð á almennum borgurum á svæðinu verði stöðvuð, að Hamas-samtökin leysi alla gísla úr haldi án skilyrða og að mannúðaraðstoð verði aukin á Gaza.

Þetta kemur fram í þingsályktunartillögu sem þingflokkur Viðreisnar hefur lagt fram. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir um málið: „Við getum ekki setið lengur undir þessu hörmungarástandi fyrir botni Miðjarðarhafs. Alþjóðasamfélagið verður að stíga sterkar og mun ákveðnar inn en það hefur gert. Hver rödd skiptir máli og þess vegna höfum við í Viðreisn lagt fram mál til að styðja við fólkið sem býr við þessar miklu hörmungar á Gaza-svæðinu.

Sigmar Guðmundsson er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. Hann segir útgangspunktinn vera að við Íslendingar eigum að standa með óbreyttum borgurum í báðum ríkjum. „Við viljum vopnahlé strax, við viljum mannúðaraðstoð á staðinn og við viljum að Hamas sleppi öllum gíslum tafarlaust“, segir Sigmar.

Þingsályktunartillöguna má finna hér í heild sinni: https://www.althingi.is/altext/154/s/1658.html