Það er vor í lofti

Það er vor í lofti. Þessi full­yrðing hljóm­ar vissu­lega sér­kenni­lega núna í lok októ­ber en er engu að síður sönn. Það liggja breyt­ing­ar í loft­inu, nýtt upp­haf, ný tæki­færi. Á meðan aðrir flokk­ar virðast verja mik­illi orku í inn­byrðis erj­ur hef­ur Viðreisn hlustað eft­ir ákalli fólks um skyn­sam­leg­ar breyt­ing­ar sem bæta líðan þess. Um það eiga stjórn­mál­in fyrst og fremst að snú­ast.

Þegar við hlust­um þá verða verk­efn­in fram und­an skýr. Það þarf al­vöru­efna­hags­stjórn. Ekki bara í orði held­ur á borði. Það þarf að nýta skatt­pen­inga al­menn­ings í þágu hags­muna al­menn­ings. Koma bönd­um á vexti og verðbólgu. For­gangs­ráða verk­efn­um í þágu heim­ila. Það þarf að huga að líðan barna og ung­menna. Skelfi­leg­ir harm­leik­ir síðustu mánaða þurfa að vera okk­ur öll­um áminn­ing um að gera bet­ur, að taka utan um unga fólkið. Skól­arn­ir okk­ar og heil­brigðis­kerfið gegna þar lyk­il­hlut­verki. Þar er fókus Viðreisn­ar. Við ætl­um að byrja á því að for­gangsraða í þágu barna og ung­menna.

„Er það ekki aðallega efna­hags­lífið, verðbólga og vext­ir?“ Þetta er spurn­ing­in sem ég fæ helst núorðið um póli­tísk­ar áhersl­ur Viðreisn­ar. Jú, vissu­lega, en ekki síður frelsið. Þetta fal­lega lát­lausa orð fel­ur svo margt í sér, meðal ann­ars frelsi frá niður­drep­andi fjötr­um vaxta­ok­urs og verðbólgu. Frelsi fjöl­skyldna til þess að ræða aðra og skemmti­legri hluti við eld­hús­borðið en hvort laun­in dugi fyr­ir af­borg­un­um hús­næðislána um næstu mánaðamót. Frelsi und­an ákvörðunum um hvernig eigi að skera enn frek­ar niður í heim­il­is­bók­hald­inu.

Börn­in okk­ar eru ekki frjáls til að blómstra á meðan þau eru lát­in hanga árum sam­an á biðlist­um eft­ir nauðsyn­legri heil­brigðisþjón­ustu. Eng­inn er frjáls án nauðsyn­legr­ar aðstoðar við að viðhalda and­legri heilsu.

Það eru ekki hærri skatt­ar sem leysa þess­ar áskor­an­ir. Það þarf bara kjark og þor til fara í skyn­sam­leg­ar breyt­ing­ar. Þetta er ekki flókið verk­efni að mati okk­ar í Viðreisn, það kall­ar ein­fald­lega á skýr­an fókus í þágu al­manna­hags­muna.

Það er líka risa­stórt frels­is­mál að al­menn­ing­ur, ekki síst ungt fólk, fái að ákv­arða eig­in framtíð. Það er veru­lega öf­ug­snúið að stjórn­mála­menn ótt­ist skoðun þjóðar­inn­ar svo mjög að þeir standi í veg­in­um fyr­ir því að hún fái að segja hug sinn um aðild­ar­viðræður við Evr­ópu­sam­bandið í þjóðar­at­kvæðagreiðslu. Í stað þess að drepa mál­um á dreif með til­búnu rifr­ildi um bók sem ekki hef­ur verið skrifuð eig­um við að fá þetta á hreint. Leyfa þjóðinni að ákveða.

Það er uppi ákall um skyn­sam­leg­ar breyt­ing­ar. Svarið við því ákalli er leiðarljós Viðreisn­ar: Al­manna­hags­mun­ir um­fram sér­hags­muni. Það er lang­stærsta frels­is­málið.