28 okt Það er vor í lofti
Það er vor í lofti. Þessi fullyrðing hljómar vissulega sérkennilega núna í lok október en er engu að síður sönn. Það liggja breytingar í loftinu, nýtt upphaf, ný tækifæri. Á meðan aðrir flokkar virðast verja mikilli orku í innbyrðis erjur hefur Viðreisn hlustað eftir ákalli fólks um skynsamlegar breytingar sem bæta líðan þess. Um það eiga stjórnmálin fyrst og fremst að snúast.
Þegar við hlustum þá verða verkefnin fram undan skýr. Það þarf alvöruefnahagsstjórn. Ekki bara í orði heldur á borði. Það þarf að nýta skattpeninga almennings í þágu hagsmuna almennings. Koma böndum á vexti og verðbólgu. Forgangsráða verkefnum í þágu heimila. Það þarf að huga að líðan barna og ungmenna. Skelfilegir harmleikir síðustu mánaða þurfa að vera okkur öllum áminning um að gera betur, að taka utan um unga fólkið. Skólarnir okkar og heilbrigðiskerfið gegna þar lykilhlutverki. Þar er fókus Viðreisnar. Við ætlum að byrja á því að forgangsraða í þágu barna og ungmenna.
„Er það ekki aðallega efnahagslífið, verðbólga og vextir?“ Þetta er spurningin sem ég fæ helst núorðið um pólitískar áherslur Viðreisnar. Jú, vissulega, en ekki síður frelsið. Þetta fallega látlausa orð felur svo margt í sér, meðal annars frelsi frá niðurdrepandi fjötrum vaxtaokurs og verðbólgu. Frelsi fjölskyldna til þess að ræða aðra og skemmtilegri hluti við eldhúsborðið en hvort launin dugi fyrir afborgunum húsnæðislána um næstu mánaðamót. Frelsi undan ákvörðunum um hvernig eigi að skera enn frekar niður í heimilisbókhaldinu.
Börnin okkar eru ekki frjáls til að blómstra á meðan þau eru látin hanga árum saman á biðlistum eftir nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Enginn er frjáls án nauðsynlegrar aðstoðar við að viðhalda andlegri heilsu.
Það eru ekki hærri skattar sem leysa þessar áskoranir. Það þarf bara kjark og þor til fara í skynsamlegar breytingar. Þetta er ekki flókið verkefni að mati okkar í Viðreisn, það kallar einfaldlega á skýran fókus í þágu almannahagsmuna.
Það er líka risastórt frelsismál að almenningur, ekki síst ungt fólk, fái að ákvarða eigin framtíð. Það er verulega öfugsnúið að stjórnmálamenn óttist skoðun þjóðarinnar svo mjög að þeir standi í veginum fyrir því að hún fái að segja hug sinn um aðildarviðræður við Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í stað þess að drepa málum á dreif með tilbúnu rifrildi um bók sem ekki hefur verið skrifuð eigum við að fá þetta á hreint. Leyfa þjóðinni að ákveða.
Það er uppi ákall um skynsamlegar breytingar. Svarið við því ákalli er leiðarljós Viðreisnar: Almannahagsmunir umfram sérhagsmuni. Það er langstærsta frelsismálið.