10 feb Stefnuræða 2025: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Ræða Þorgerðar Katrín Gunnarsdóttur utanríkisráðherra í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra 10. febrúar 2025
Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Ég man vel eftir því að hafa setið sögutíma í Breiðholtsskóla sem ung stúlka og lesið um stóra atburði í mannkynssögunni og hugsað með mér: Hvernig ætli það hafi verið að upplifa þessa tíma? Svo líður tíminn og skyndilega er svarið við nákvæmlega þeirri spurningu farið að birtast okkur sífellt skýrar. Áskoranir síðustu ára hafa sett sitt mark á söguna. Við horfum fram á ólgu og átök víða um heim þar sem alþjóðalög eru virt að vettugi og mannréttindi eru hrifsuð af fólki sem hefur barist fyrir þeim áratugum saman. Tíma sem komandi kynslóðir munu lesa um í sögubókum, rétt eins og ég gerði hér forðum. En þá þurfum við að standa einmitt vörð um okkar grundvallargildi og leyfa sögunni ekki að endurtaka sig.
Við Íslendingar, við getum jú sannarlega þrætt og við getum karpað en þegar virkilega á reynir stöndum við saman. Og nú reynir á samstöðuna, líka á meðal vestrænna lýðræðisþjóða. Við Íslendingar höfum rödd til að verja okkar grundvallargildi um frelsi, um frið og um lýðræði, svo börnin okkar og barnabörn alist upp í heimi þar sem lög, réttur og mennska ráða för, ekki ofbeldi, ekki yfirgangur eða valdníðsla. En þrátt fyrir að þessar áskoranir allar séu flóknar þá merkir það ekki að við eigum að vera óttaslegin eða halda okkur til hlés heldur þvert á móti eigum við að vera ákveðin og við eigum að nýta fullveldi okkar til að vinna náið með vinum okkar og bandalagsríkjum. Við eigum að undirstrika mikilvægi frelsisins, þess dýrmætasta sem við eigum, og við eigum að tala skýrt, standa með frelsi þjóða til að ákveða framtíð sínar sjálfar, sömuleiðis frelsi einstaklinga til að vera þeir sjálfir. Frelsi og friður eru hornsteinar lýðræðis sem við verðum alltaf, öll hér inni, að standa með.
Frú forseti. Þjóðin kallaði eftir breytingum, eftir festu, eftir ábyrgð en ekki síst samheldni í stjórn landsins. Ríkisstjórnin sem nú hefur tekið við hefur það að leiðarljósi og tekur hlutverk sitt alvarlega. Við ætlum okkur að taka á þeim viðfangsefnum sem gera það að verkum að það getur stundum reynst dálítið erfitt að búa á okkar annars stórbrotna og góða landi.
Hæstv. forsætisráðherra fór vel yfir stóru línurnar í stefnuræðu sinni hér fyrr í kvöld; um efnahagslegan sjálfsaga í ríkisfjármálunum sem gerir heimilisbókhaldið ögn skaplegra fyrir okkur öll, um húsnæðisuppbyggingu sem gerir það líka aðeins auðveldara fyrir fólk að koma sér þaki yfir höfuðið, um umbætur í mennta- og heilbrigðismálum sem taka sérstaklega til ungs fólks og líðan þess, um meiri græna orku fyrir fólk og fyrir fyrirtæki án þess að fyrirgera umhverfisvernd, og um skynsamar breytingar í sjávarútvegi sem vonandi auka aðeins á réttlætistilfinningu fólks.
Við ætlum að standa með samkeppni, með neytendum, enda er neytandi bara fínt orð yfir venjulegt fólk. Við ætlum að einfalda í stjórnkerfinu og við ætlum að fjölga í lögregluliðinu, en ekki síst þá þurfum við að huga að líðan þjóðar því að við höfum því miður þurft að horfa upp á hvert áfallið á fætur öðru síðasta árið. Við ætlum að gera það sem við sögðumst saman ætla að gera. Við ætlum að taka til svo almenningur njóti góðs af, endurinnrétta samfélag sem hefur alla burði til að vera fyrir alla landsmenn, setja almannahagsmuni framar sérhagsmunum, eitthvað sem við í Viðreisn höfum talað fyrir frá stofnun flokksins og ríkisstjórnarflokkarnir eru einhuga um. Við sem hér sitjum sækjum nefnilega umboð til þjóðarinnar allrar og það verðum við ætíð að hafa hugfast.
Virðulegi forseti. Ísland er í grunninn algjörlega frábært land. Þótt við séum að mörgu leyti einangruð í alþjóðlegu tilliti þá búum við hér við mikil lífsgæði sem eru ekki síst til komin vegna samskipta okkar við aðrar þjóðir. Þessi ríkisstjórn hefur allan hug á því að efla þessi tengsl og styrkja enn frekar en við ætlum okkur engan flumbrugang í þeim efnum. Við ætlum okkur að gera það sem þarf til þess að standa við EES-samninginn, þann mikilvæga samning fyrir neytendur, fyrir heimilin og fyrir fyrirtækin í landinu. Við ætlum að gera það sem þarf til að tryggja öryggi, varnir og samvinnu við okkar helstu bandamenn innan NATO. Við ætlum einfaldlega að spyrja þjóðina, spyrja hana sjálfa, hvort hún sé tilbúin í samningaviðræður með okkur um að verða enn tengdari nágrönnum okkar í Evrópu út frá öryggi, út frá velferð og út frá efnahag. Það er a.m.k. mín bjargfasta trú að við eigum ekki að loka neinum dyrum, allra síst nú um stundir því að smáþjóð eins og okkar á allt undir alþjóðasamstarfi og að alþjóðalög séu virt. Við verðum að vera þátttakendur. Við verðum að vera virkir þátttakendur og beita rödd okkar markvisst.
Kæru landsmenn. Við vitum sem er að yfirvegun, þrautseigja, samvinna og pólitískur vilji er það sem þarf til að yfirstíga hindranir sem óumflýjanlega koma upp og það reglulega í samfélagi manna. Stjórnarflokkarnir hafa ekki bara skýr og sameiginleg markmið heldur hafa líka komið sér saman um hvernig skuli vinna að málum svo að botn fáist í þau. Við ætlum að vera ríkisstjórn sem gengur í verkin, tekur á málunum af festu, forgangsraðar, tekur utan um fólkið sitt og gefur því frið frá pólitísku dægurþrasi. Við ætlum ekki — við ætlum ekki — að láta söguna endurtaka sig. Við ætlum að setja okkar mark á hana. Hún skrifaði sig nefnilega ekki sjálf. Hún mótast af þeim ákvörðunum sem við tökum hér og nú, hvert og eitt okkar.
Takk fyrir traustið, kæra, kæra þjóð. Við ætlum okkur að standa undir því.