24 ágú Vinir Dóru
Suma skortir algjörlega raunsæið, fólk sem dettur í hug að gera hluti sem allir aðrir eru sammála um að gangi ekki upp. Þeir vaða áfram að sínu markmiði, stundum yfir allt og alla. Þegar upp er staðið gerðist svo hið ómögulega, þvert á heilbrigða skynsemi. Svoleiðis kona var Dóra S. Bjarnason. Sem var mikil blessun.
Dóra var fyrirferðarmikil, yfirþyrmandi fannst sumum. Hún var stór í bókstaflegri merkingu og eftir að hún var komin af stað var eins gott að verða ekki fyrir henni. Ekkert var fráleitt í hennar huga.
Einu sinni hittum við hjónin Dóru úti í Kaupmannahöfn, nýkomna frá Afríku. Hún fékk skyndilega þá hugdettu að slást í för með nemendum upp á næsthæsta tind Keníu. Dóra hafði hvorki stundað fjallgöngur né heilbrigt líferni, en það fannst henni algjört aukaatriði, pakkaði niður lopapeysunni og kartonum af sígarettum og arkaði upp fjallið.
Hún eignaðist soninn Benedikt fyrir fjörutíu árum og þá breyttist lífið allt. Benni var frá fæðingu með margvíslega fötlun, fötlun sem hefði orðið til þess að margt foreldrið hefði lagt árar í bát. En ekki Dóra. Þaðan í frá barðist hún af krafti fyrir því að sonur hennar nyti allra þeirra réttinda sem flest börn njóta. Hann skyldi ganga í skóla með öðrum sem jafningi, gera það sem jafnaldrar hans gerðu.
Sonur minn og skólafélagar hans urðu þeirrar gæfu aðnjótandi að vera í bekk með Benna. Þeir sögðu í minningargrein: „Hún varð aðsópsmikil baráttukona fyrir bættum réttindum fatlaðra, drifin áfram af þeirri sannfæringu að fötlun sonar hennar skyldi aldrei hamla honum, hvort sem er í menntun, ferðalögum eða vináttu. Dóru tókst til dæmis að koma Benna í bekkinn okkar, þótt það væru engin fordæmi fyrir því að svo fjölfatlaður einstaklingur sæti þar. Guði sé lof fyrir þrautseigju hennar og ákveðni, því annars hefðum við aldrei kynnst honum eða henni. Síðar þegar við komumst á fullorðinsár og urðum einnig vinir Dóru áttuðum við okkur betur á því hvers konar baráttukona og hugsjónamanneskja hún var.“
Ég var líka svo heppinn að kynnast Dóru. Hún velti því fyrir sér meira en nokkur sem ég hef kynnst hvað tæki við þegar hún félli frá. Ekki hjá henni, heldur syni hennar. Stundum spurði hún mig ráða í fjármálum, en allar spurningarnar tengdust nafna mínum og framtíð hans.
Sumt af því sem Dóra barðist fyrir sem móðir og fræðimaður hefur nú þegar nýst fjölmörgu fólki með fötlun með svonefndri notendastýrðri persónulegri aðstoð, NPA. Segja má að þar hafi þau mæðgin rutt braut. Í útfararræðu sagði presturinn frá ónefndum embættismanni sem sagði: „Gerið þið allt sem hún Dóra biður um. Og haldið henni frá mér.“
Stundum þarf fólk sem skortir raunsæið til þess að breyta samfélaginu. Fólk eins og Dóru. Stóru konuna með stóra hjartað.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24 ágúst 2020