28 ágú Engin venjuleg kreppa
Fyrri kreppur hérlendis hafa yfirleitt birst í veikingu krónu og verðbólgu, sem hefur í för með sér að kaupmáttur flestra rýrnar. Afleiðingar yfirstandandi kreppu koma hins vegar fram mjög ójafnt. Eftirspurn hvarf snögglega og næstum alfarið úr ákveðnum atvinnugreinum sem hefur haft dramatísk áhrif á fyrirtæki og fólk í ákveðnum atvinnugreinum.
Aðrir í samfélaginu finna minna og jafnvel lítið fyrir áfallinu. Mögulega skýrir það að vissu leyti að sumir upplifa ástandið sem ágætis tækifæri til að endurmeta lífshætti á meðan aðrir búa við nagandi fjárhags- og afkomuáhyggjur. Fólk í ferðaþjónustu, menningu og listum og ungt fólk er meðal þeirra sem urðu fyrir þungu höggi.
Það er til marks um skort á forystu að ríkisstjórninni hafi ekki tekist að tala samkennd í þjóðina og forða okkur frá því að hópar takist á þegar sameiginlegur óvinur er bráðsmitandi og skæð veira, en ekki ákveðnar atvinnugreinar. Þungt efnahagslegt áfall skall á okkur nánast fyrirvaralaust. Engum var um að kenna. Stuðningur og aðgerðir verða að beinast að þeim sem urðu fyrir högginu og að það verði gert með almennum, skýrum og gagnsæjum reglum.
Aðgerðirnar verða að vera fjölbreyttar en um leið taka mið af eðli þessarar kreppu sem bítur fyrirtæki og fólk mjög misjafnlega. Lausnirnar verða að mótast af eðli kreppunnar, svigrúmi ríkissjóðs sem er töluvert og skýrri sýn um hvert markmiðið er.
Ástandið er tímabundið og aðgerðirnar verða líka að taka mið af því. Markmiðið verður að vera að gera fólki og fyrirtækjum kleift að standa af sér áfallið. Stjórnvöld hefðu þess vegna átt að taka stærri skref og hraðari og fjármálastefnan sem nú hefur verið lögð fram hefði átt að endurspegla það markmið. Viðreisn mun áfram tala fyrir því að farið verði af meiri þunga í fjárfestingar sem skapa störf og verja störf og búa til verðmæti til framtíðar.