03 apr Moggaléttúð
Viðreisn hefur lagt fram á Alþingi tillögu um að fela ríkisstjórninni nú þegar að taka upp viðræður við Evrópusambandið um samstarf í gjaldeyrismálum til þess að styrkja stöðugleika krónunnar og tryggja að Ísland geti gripið til jafn öflugra viðreisnaraðgerða og helstu viðskiptalöndin.
Jafnframt þessu höfum við kynnt tillögu sem felur í sér að treysta þjóðinni til að ákveða hvort halda eigi áfram viðræðum við Evrópusambandið. Það er varfærið en eðlilegt skref. Það kostar hins vegar vandaðan undirbúning og krefst lengri tíma.
Ný nálgun
Hér er á ferðinni ný nálgun. Við leggjum höfuðáherslu á að ná alþjóðlegu samstarfi um að styrkja krónuna. Til þess að geta notið kosta innri markaðar Evrópusambandsins til fulls þurfum við gjaldmiðil sem stenst samanburð við evruna eða samstarf sem nær sama markmiði.
Viðreisn atvinnulífsins þolir enga bið. Upptaka evru með fullri aðild að Evrópusambandinu tekur tíma. En við getum á grundvelli EES-samningsins farið fram á gjaldmiðlasamstarf með sama hætti og Danir. Það verkefni viljum við nú setja í forgang. Samkeppnishæfni Íslands er undir.
Þjóðviljalummur
Ritstjórar Morgunblaðsins rísa upp á afturlappirnar á skírdag vegna þessarar nýju nálgunar á þeim vanda sem við hverjum manni blasir. Þegar ég rýni í rökin þá minnir það mig á þegar ég fletti einhverju sinni í gömlum eintökum af Þjóðviljanum. Hann hamaðist gegn sérhverju skrefi sem Ísland tók í átt til aukinnar alþjóðasamvinnu með nákvæmlega sama málflutningi.
Auðvitað styrkjum við fullveldi landsins með aukinni samvinnu við Evrópuþjóðirnar. Við gerum það með varnarsamstarfi við þær sömu þjóðir í NATÓ. Það er rökleysa að halda því fram að efnahagssamstarf við þessar þjóðir ógni fullveldinu en varnarsamstarfið styrki það.
Með aðildinni að innri markaði Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn tökum við sjálfkrafa upp kjarnann í allri löggjöf þess. Við sitjum hins vegar ekki við borðið eins og í NATÓ. En enginn hefur haldið því fram að Ísland hafi glatað fullveldinu 1994 þegar EES-aðild var ákveðin. Viðbótarskrefið til fullrar aðildar er miklu minna.
Leiðarahöfundar loka augunum
Hitt atriðið sem leiðarahöfundarnir nefna gegn tillögunum er staðhæfing þeirra um að krónan hafi reynst traustari gjaldmiðill en evran.
Hvernig rímar þetta nú við veruleikann?
Evran haggaðist ekki þrátt fyrir efnahagssamdrátt í kjölfar Covid-19. Íslenska krónan hrundi. Ísland er eina landið á Vesturlöndum þar sem efnahagssamdráttur hefur leitt til aukinnar verðbólgu. Verðbólguþak Seðlabankans er sprungið.
Mun alvarlegri staðreynd blasir við. Krónuhagkerfið er of lítið til þess að prenta peninga fyrir ríkissjóð við þessar aðstæður. Fyrir vikið er ríkissjóður að taka innlend lán á hærri vöxtum en grannþjóðirnar og erlend lán með mikilli gengisáhættu.
Þetta gerir það að verkum að svigrúm ríkissjóðs er minna til björgunaraðgerða en annarra þjóða, nema beita eigi skattahækkunum eða niðurskurði eins og Samtök atvinnulífsins telja hættu á. Fyrir utan þetta er mesta atvinnuleysi sögunnar staðreynd.
Fyrir öllu þessu loka leiðarahöfundar augunum.
Léttúð
Fjármálaráðherra hefur nú lagt fram frumvarp sem færir Seðlabankanum völd til þess að beita jafn umfangsmiklum höftum og gert var eftir hrun. Ísland er eina vestræna ríkið sem er með gjaldmiðil sem heldur ekki velli án þess að Seðlabankinn fái varanlegar heimildir af þessu tagi.
Viðskiptaráð líkti þessu frumvarpi við léttúð. Ritstjórar Morgunblaðsins hafa ekki fjallað mikið um þetta frumvarp. En það er viðurkenning Sjálfstæðisflokksins á því að ekki er unnt að stjórna krónunni án hafta.
Hvað veldur þögn ritstjóra Morgunblaðsins um haftafrumvarp formanns Sjálfstæðisflokksins?
Morgunblaðið hefur spáð dauða evrunnar á hverju ári í meir en áratug. Samt er hún annar sterkasti gjaldmiðill í heimi.
Lítill skilningur
Kjarni málsins er að íslenskt atvinnulíf þarf rekstrarumhverfi sem auðveldar því að hlaupa hraðar.
Það gerist ekki með hærri verðbólgu en í samkeppnislöndunum, ekki með hærri vöxtum en í samkeppnislöndunum, ekki með óstöðugri gjaldmiðli en í samkeppnislöndunum og ekki með valdframsali til Seðlabankans til þess að beita umfangsmeiri gjaldeyrishöftum en samkeppnislöndin.
Ég veit að Viðskiptaráð notaði stórt orð þegar það hakkaði niður haftafrumvarp fjármálaráðherra og sagði það bera vott um léttúð. En ég finn ekki annað betra orð til þess að lýsa skrifum ritstjóranna. Alltént lýsa þau ekki ríkum skilningi á þeim vanda sem við blasir í ríkisfjármálum og þeim miklu áskorunum sem atvinnulífið stendur frammi fyrir.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. apríl 2021