28 ágú Stjórnmálaályktun landsþings Viðreisnar 2021
Landsþing Viðreisnar – 28. ágúst 2021
Samþykkt stjórnmálaályktun
Gefðu framtíðinni tækifæri
Viðreisn er frjálslyndur og alþjóðlega sinnaður flokkur.
Við viljum réttlátt samfélag sem byggir á jafnrétti, efnahagslegu jafnvægi og alþjóðlegri samvinnu. Samfélag þar sem fólk, heimili, fyrirtæki og byggðir landsins njóta jafnræðis.
Til þess að þessi sýn geti orðið að veruleika þurfum við að nýta þau tækifæri sem við okkur blasa. Kosningarnar í haust snúast um framtíðina, ekki fortíðina.
Við þurfum lausnir sem nálgast kerfi og stoðir samfélagsins með þarfir fólksins í huga en ekki kerfanna.
Betri lífskjör – betra rekstrarumhverfi
Viðreisn vill binda gengi krónunnar við evru með samningi við Seðlabanka Evrópu sem fyrsta skref að upptöku evru. Þannig mun draga verulega úr verðbólgu, erfiðum gengissveiflum og vextir haldast lágir. Kostnaður heimila og fyrirtækja lækkar. Stöðugleiki eykst og fjárhagslegar skuldbindingar verða skýrari.
Fyrirsjáanlegt gengi mun gjörbreyta skilyrðum fyrir nýsköpun og uppbyggingu þekkingariðnaðar. Samkeppni verður möguleg á mörkuðum sem flöktandi króna hindrar í dag, t.d. í bankastarfsemi og tryggingum.
Ávinningurinn skilar sér hratt og áþreifanlega til almennings. Lífskjör fólks og samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja batna.
Viðreisn berst fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.
Sanngjarnar leikreglur í sjávarútvegi
Sjávarauðlindin er þjóðareign og á að vera það í orði sem borði. Sjávarútvegurinn hefur mikla þýðingu fyrir samfélagið. Viðreisn vill að réttur til veiða verði með tímabundnum leigusamningum til 20-30 ára í senn. Hluti kvótans verði boðinn upp á markaði á hverju ári. Í fyllingu tímans verði þannig allar veiðiheimildir bundnar slíkum samningum og útgerðin greiðir fyrir afnot af fiskimiðunum í samræmi við markaðsverðmæti aflaheimilda.
Með réttlátum leikreglum fæst sanngjarnt gjald til þjóðarinnar og meiri arðsemi í greininni án þess að kollvarpa kerfinu. Vissa skapast til lengri tíma hjá þeim sem stunda veiðar.
Hærri tekjum sem þjóðin fær verður hægt að verja til mikilvægra verkefna í þágu almannahagsmuna.
Tækifæri til nýliðunar í sjávarútvegi stóraukast sömuleiðis.
Þjónustuvætt opinbert heilbrigðiskerfi
Öflugt þjónustuvætt heilbrigðiskerfi er forsenda velferðar í íslensku samfélagi. Heilbrigðisþjónusta á að standa öllum til boða óháð efnahag og þjónusta við fólk á að vera leiðarstefið, fremur en rekstrarform þeirra sem þjónustuna veita.
Blönduð leið er best og þess vegna hafnar Viðreisn aðför núverandi ríkisstjórnar að sjálfstætt starfandi stofum og sérfræðingum. Afleiðingarnar eru óboðlegir biðlistar og aukinn kostnaður, ekki síst fyrir íbúa landsbyggðanna.
Fjármunum hins opinbera til heilbrigðismála verður að verja skynsamlega og ráðstafa eftir greiningu á þörf og kostnaðarmati.
Landspítalinn verður að geta risið undir þeim kröfum sem gerðar eru til hans og fá til þess nauðsynlegt fé. Ótækt er að sóttvarnaraðgerðir séu óhóflega íþyngjandi vegna fjárskorts heilbrigðiskerfisins.
Létta þarf á takmörkunum með stórauknu aðgengi að hraðprófum.
Það borgar sig að vera umhverfisvæn
Stærstu áskoranir samtímans eru vegna alvarlegrar stöðu í loftslags- og umhverfismálum.
Ísland hefur getu til að vera leiðandi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Þeim árangri höfum við náð í jafnréttismálum og honum viljum við einnig ná í umhverfis- og loftslagsmálum. Við verðum að taka stór skref strax.
Viðreisn vill hvetjandi grænt kerfi þannig að það borgi sig að vera umhverfisvæn og að þau borgi sem menga.
Sjálfbær og ábyrg umgengni við náttúruauðlindir, þar sem náttúruvernd helst í hendur við skynsamlega nýtingu er lykillinn að grænni framtíð.
Almannahagsmunir krefjast þess að næstu ríkisstjórnir setji baráttuna við loftslagsvána í forgang.
Fjölbreyttara atvinnulíf um allt land
Markviss efnahagsstjórn og aukið viðskiptafrelsi er í þágu allra. Stöðugur gjaldmiðill og virk þátttaka í alþjóðlegu viðskiptalífi eru grunnforsendur fyrir sterkari stöðu heimilanna, efnahagslegum framförum, aukinni framleiðni í atvinnulífinu og varanlegri aukningu kaupmáttar.
Öflug samkeppni á öllum sviðum viðskipta leiðir til betri lífskjara almennings og einfaldara regluverk er í þágu almannahagsmuna. Fjölbreytt atvinnulíf um allt land sem byggir á nýsköpun og tækni getur orðið undirstaða útflutnings.
Viðreisn hefur á fimm ára sögu sinni sýnt í verki að almannahagsmunir eru settir ofar sérhagsmunum.
Komumst við í ríkisstjórn verður það leiðarljós þeirrar stjórnar.