Viðreisn hafnar allri mismunun á fólki á grundvelli jaðarsetningar og tekur skýra afstöðu gegn hvers kyns hatri gagnvart jaðarsettum hópum samfélagsins.

 

Tryggjum lagaleg réttindi hinsegin fólks

Baráttunni fyrir jöfnum réttindum hinsegin fólks er hvergi nær lokið. Ísland er eftirbátur samkvæmt alþjóðlegum mælingum ILGA-Europe um réttindastöðu hinsegin fólks í Evrópu, þar sem enn vantar nokkuð upp á að lög og reglur tryggi hinsegin fólki fullnægjandi réttindi. Tryggja þarf réttindi hinsegin fólks í stjórnarskrá. Útvíkka þarf jafnréttislöggjöf á vinnumarkaði þannig að hún nái einnig til hinsegin fólks.

 

Viðreisn telur brýnt að lagaleg réttindi hinsegin fólks séu tryggð með heildstæðri og víðtækri löggjöf þar sem mannréttindi og sjálfræði einstaklingsins yfir eigin líkama eru höfð að leiðarljósi.

 

Tryggja þarf lagaleg og félagsleg réttindi transfólks, intersex fólks og kynsegin einstaklinga.

 

Viðreisn leggst gegn inngripum á ódæmigerðum kyneinkennum barna og sjúkdómavæðingu hinsegin fólks. Meðferðir við hinseginleika eiga ekki að líðast.

 

Endurskoða þarf lög um hatursglæpi og hatursáróður til að tryggja stöðu og réttindi hinsegin fólks.

 

Samtökin ’78 hafa gegnt veigamiklu hlutverki í að efla vitund almennings um stöðu hinsegin fólks á Íslandi og á að hafa burði til að halda því mikilvæga starfi áfram. Tryggja þarf fjármögnun samtakanna með langtímasamningum.

 

Jafnréttismál

Vitund og virðing fyrir kvenfrelsi og jafnrétti allra kynja er forsenda þess að uppræta staðalímyndir um hlutverk kynjanna og tryggja jafnrétti í raun á öllum sviðum samfélagsins. Hugrekki og framsýni þarf til að tryggja að Ísland verði áfram í fararbroddi á alþjóðavettvangi um jafnrétti. Áhersla er lögð á jafna stöðu og jöfn réttindi allra einstaklinga óháð kyni, aldri, búsetu, líkamlegu atgervi, fötlun, trúarbrögðum, skoðunum, uppruna, kynþætti, litarhætti, kynhneigð, kynvitund, kyntjáningu og stöðu að öðru leyti. Uppræta þarf rótgróna fordóma í samfélaginu og huga sérstaklega að stöðu þeirra sem höllustum fæti standa. Samfélagið á að styðja jafnt við alla foreldra, óháð stöðu, og áhersla sé á að foreldrar og börn geti notið samvista í sanngjörnu kerfi.

 

Stjórnvöld þurfa að taka stærri skref til að tryggja samninga við þjóðir sem heimila ættleiðingar til hinsegin fólks.

 

Opinber stjórnsýsla þarf að þróast í takt við samfélagið. Breyta þarf því hvernig staðið er að málum er varðar viðurkenningu foreldra til að tryggja jafnrétti þegar kemur að fjölbreyttum fjölskylduformum.

 

Kynbundið ofbeldi er ólíðandi

Kynbundið ofbeldi skal uppræta með opinni umræðu, ásamt forvörnum og fræðslu. Lögregla, ákæruvald og dómstólar þurfa að vera í stakk búin til að sinna þessum mikilvægu og viðkvæmu málum og þjónusta þarf að vera til staðar fyrir þolendur um land allt. Brýnt er að tryggja þolendum ofbeldis nauðsynlegan stuðning og þjónustu. Mikilvægt er að styrkja réttarstöðu brotaþola og efla traust þeirra á kerfinu, veita þeim aðild í sakamálum og skerpa hlutverk réttargæslumanna. Auka þarf aðgengi þeirra sem beita ofbeldi að úrræðum til þess að koma í veg fyrir áframhaldandi ofbeldi. Þá þarf að veita þolendum mansals fullnægjandi réttarvernd og stuðning.

 

Tryggja þarf að löggjöf sé nútímaleg og geti tekið á nýjum tegundum afbrota. Fjármagna þarf samstillt átak ríkis, sveitarfélaga, fræðasamfélagsins og grasrótarsamtaka til að sinna þessu verkefni. Lög og réttarvörslukerfi eru ekki nægjanlega vel í stakk búin til þess að taka á málum á borð við kynferðisofbeldi. Því þarf að skoða og leggja fram fleiri leiðir í úrvinnslu þessara mála. Kynbundið ofbeldi er kerfisbundið ofbeldi. Kerfisbundið ofbeldi gegn hinum ýmsu hópum samfélagsins er staðreynd. Hafa þarf minnihlutahópa og fólk af erlendum uppruna sérstaklega í huga þegar lagðar eru fram úrbætur á kerfinu.

Lestu jafnréttisstefnu Viðreisnar hér

 

Menntun fyrir öll – Nám alla ævi

Öflugt menntakerfi byggir á framúrskarandi menntun með áherslu á þekkingu, vellíðan, þrautseigju og öfluga félagsfærni og tekur tillit til þeirra öru breytinga sem samfélagið tekur. Aðgengi að námi, skapandi félags- og tómstundastarfi og fjölbreyttu menningaruppeldi frá unga aldri skal vera jafnt með tilliti til kynja, kynhneigðar, fötlunar, trúarbragða, búsetu, efnahags eða annarrar stöðu.

 

Menntun er undirstaða jafnréttis, tækifæra og velferðar í samfélagi okkar og er um leið forsenda framþróunar. Við viljum tryggja einstaklingum nám við hæfi með tilliti til ólíkrar færni, fötlunar, trúarbragða, kynhneigðar, búsetu eða annarrar stöðu. Nám fer fram alla ævi og er því mikilvægt að byggja brýr milli allra skólastiga og tryggja frelsi einstaklinga til að fara á sinn hátt í gegnum menntakerfið. Viðreisn leggur jafnt vægi á bók-, verk-, iðn- og listnám á öllum skólastigum með fjölbreyttu rekstrarformi og sveigjanlegu þrepaskiptu námi sem leiðir til viðurkenningar á vinnumarkaði þar sem þörfum einstaklinga er mætt.

 

Íþróttir

Tryggja þarf að skipulagt íþróttastarf hafi skýrar jafnréttisáætlanir og að þátttakendum sé ekki mismunað á grundvelli kyns, kynhneigðar, uppruna eða ólíkrar getu.

Lestu mennta-, menningar-, félags- og tómstundastefnu Viðreisnar

 

Við fögnum fjölbreytileikanum og gætum þess að enginn gjaldi fyrir að tilheyra jaðarhópi.

Lestu grunnstefnu Viðreisnar hér