Sátt um sjávarútveginn

Viðreisn vill tryggja sátt um sjávarútveginn til framtíðar. Við viljum að sanngjarnt verð sé greitt fyrir aðgang að auðlindunum okkar og að samningar um auðlindanýtingu séu tímabundnir. Í stað veiðileyfagjalds verði ákveðinn hluti kvótans settur á markað á hverju ári og seldur sem nýtingarsamningar til ákveðins tíma. Með samningum til 20-30 ára sé pólitískri óvissu eytt og eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni staðfest. Með þessu fyrirkomulagi fæst sanngjarnt markaðsverð sem ræðst hverju sinni af framboði og eftirspurn innan greinarinnar, og umgjörð sjávarútvegs verður skýr, gagnsæ og stöðug til frambúðar. Það er vont fyrir útgerðina að búa við stöðuga pólitíska óvissu. Grundvallarhlutverk fiskveiðistjórnunarkerfis er að koma í veg fyrir ofveiði og tryggja þannig að nýting auðlindarinnar sé sjálfbær. Því hlutverki sinnir kvótakerfið vel. Innheimta veiðigjalda er hins vegar of flókin og ógagnsæ. Viðreisn leggur áherslu á dreifða eignaraðild í sjávarútvegi og auka gagnsæi með kröfum um skráningu á skipulögðum hlutabréfamarkaði fyrir fyrirtæki af ákveðinni stærð. Tryggja að vilji löggjafans um hámarkskvótaeign ráðandi aðila í sjávarútvegi sé virkur.

Lestu atvinnustefnu Viðreisnar hér

 

Sjálfbærar veiðar

Vernda og efla þarf fiskistofna við Íslandsstrendur og auka eftirlit og eftirfylgni með sjálfbærum fiskveiðum þar sem brottkast er ekki stundað og skemmdir á vistkerfum hafsins lágmarkaðar. Móta þarf heildarstefnu um málefni hafsins með umhverfis- og loftslagsmál að leiðarljósi. Leggja þarf áherslu á stuðning við verðmætaskapandi og umhverfisvæna nýsköpun í ræktun sjávarafurða og tryggja að fiskeldi á landi og í sjó uppfylli strangar kröfur til dýravelferðar ásamt verndar umhverfis og lífríkis. Þannig verði dregið úr neikvæðum umhverfisáhrifum framleiðslunnar og hámarks útflutningsverðmæti hennar tryggt.

 

Viðreisn vill að Ísland verði kolefnishlutlaust og laust við jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2040. Þá verði hugað að minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði og fiskeldi, m.a. með því að efla starfsemi í lægri þrepum fæðukeðjunnar. Sett verði markmið um að ná 50% hlutdeild endurnýjanlegrar orku í skipum fyrir 2030.

 

Viðreisn telur að vernd og nýting náttúruauðlinda geti og verði að fara saman og mun leggja áherslu á að tryggja það til framtíðar. Stefna Viðreisnar er að nýta náttúruauðlindir á sjálfbæran hátt. Nýtingin á að byggjast á heildstæðu mati á þjóðhagslegum ávinningi og afleiðingum og skerði ekki kosti komandi kynslóða til að fullnægja sínum þörfum. Allar auðlindir lofts, lagar og sjávar, óháð eignarhaldi, verði nýttar á ábyrgan hátt og skili jákvæðum áhrifum til samfélagsins. Aðgangur að sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar verði tímabundinn og upphæð gjalds fyrir nýtingu verði ákvörðuð af markaðnum þegar því verður við komið.

Lestu umhverfis- og auðlindastefnu Viðreisnar hér

 

Ísland á að hafa sterka rödd í málefnum norðurslóða

Viðreisn leggur áherslu á að Ísland hafa sterka rödd í málefnum norðurslóða. Stuðla þarf að áframhaldandi  samtali um áskoranir sem áhrif loftslagsbreytinga munu hafa í för með sér. Beina þarf sjónum að heilbrigði hafsins og hvernig nýta megi tækifæri með sjálfbærni að leiðarljósi. Efla þarf Akureyri sem miðstöð norðurslóðamála á Íslandi og styðja rækilega við alþjóðlegt vísindasamstarf um málefni svæðisins. Með opnun siglingaleiða og auknum tækifærum til nýtingar náttúruauðlinda á norðurslóðum þarf að gæta að öryggismálum landsins og fylgjast með auknum umsvifum annarra ríkja á svæðinu.

Lestu utanríkisstefnu Viðreisnar hér

 

Náttúruauðlindir eru sameign þjóðarinnar og þær ber að nýta á sjálfbæran og skynsamlegan hátt. Greiða skal markaðsverð fyrir aðgang að þeim

Lestu grunnstefnu Viðreisnar hér