11 sep Nýsköpunarlandið Ísland
Fyrir nokkrum árum hélt bandarískur fyrirlesari námskeið um frumkvöðlastarfsemi á vegum Stjórnunarfélags Íslands. Eftir námskeiðið bað hann mig að keyra sig til Grindavíkur en hann hafði heyrt að þar væru fleiri fyrirtæki en heimili, sem var raunin þá. Við heimsóttum fjölskyldu þar sem var með þrjú fyrirtæki í blómlegum rekstri. Fyrirlesarinn upplifði Ísland sem land frumkvöðla og sprotafyrirtækja og fjallaði um það á sínum námskeiðum víða um heim að hans sögn.
Erlendur fyrirlesari við Háskólann í Reykjavík sem er ráðgjafi ríkisstjórna um allan heim sagði mér eitt sinn að það sem einkennir helst sterk hagkerfi og góð lífskjör að hans mati væri öflugt frumkvöðlaumhverfi og vilji fólks til að stofna eigin fyrirtæki. Ísland var að hans mati meðal öflugstu ríkja á þessu sviði.
Hugsanlega er óvíða að finna eins mikinn vilja til að stofna fyrirtæki um hugmyndir og á Íslandi. Marel sem er eitt verðmætasta fyrirtæki landsins byrjaði með tvo starfsmenn. Fjöldi örfyrirtækja sem eru með undir 10 starfsmönnum er yfir 24 þúsund sem samsvarar um 80% allra ársreikningaskyldra félaga.
Á næstu árum þarf að skapa tugþúsundir nýrra starfa hér á landi sem flest verða til hjá litlum sprotafyrirtækjum. Það skiptir því höfuðmáli að rekstrarumhverfi nýsköpunar- og frumkvöðlafyrirtækja sé hagstætt hjá okkur.
Glötuð tækifæri?
Ég tel að fjölmörg tækifæri til nýsköpunar hafi glatast á síðustu árum.
Eftir að pistill minn um atvinnumál birtist nýlega í Morgunblaðinu hef ég fengið fjölda ábendinga um þessi glötuðu tækifæri.
Mér var sagt frá því að mörg hugvits- og ráðgjafarfyrirtæki, fyrirtæki í tölvuleikja- og hugbúnaðargerð og fyrirtæki í auglýsingageiranum hefðu ýmist verið flutt til útlanda, til dæmis Hollands, Póllands, Ungverjalands og Bandaríkjanna, eða misst viðskipti vegna óstöðugs viðskiptaumhverfis á Íslandi.
Viljum efla nýsköpun með stöðugra gengi
Óstöðug króna með sífelldum gengissveiflum er einn helsti óvinur nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi. Erfitt er að gera áreiðanlegar áætlanir með útgjöld í krónum og tekjur í evrum eða dollurum en frá 2017 hefur krónan sveiflast gagnvart evru frá um 110 krónum í um 165 krónur, síðan seig hún í um 145 og í dag er hún aftur komin í um 150. Þetta er óboðlegt umhverfi fyrir öll fyrirtæki og má helst líkja við að búa við óstöðugt rafmagn.
Nýleg könnun meðal frumkvöðla sýnir að yfir 73% þeirra telja krónuna vera helstu hindrun vaxtar. Í skýrslu Viðskiptaráðs um málefni smáfyrirtækja frá 2009 segir meðal annars að „fyrirkomulag gjaldeyrismála hefur um langa hríð verið mikil hindrun í rekstri lítilla og meðalstórra fyrirtækja hér á landi“.
Síðar í skýrslunni segir að „íslenska krónan hefur lagt mikinn aukakostnað á íslensk fyrirtæki“ og að „með upptöku annarrar myntar aukast líkur á fjölbreyttu atvinnulífi“. Þessar viðvaranir eiga einnig við í dag.
Auk þess má nefna að erlend fjárfesting fæst oft ekki inn í íslensk fyrirtæki nema hugverkaréttindi séu flutt í lögsögu með stöðugum gjaldmiðli. Það hefur og verið gerð krafa um að fyrirtæki séu flutt í erlenda lögsögu af þessum sökum.
Flest sprotafyrirtækin stefna á alþjóðlegan markað og þau eru því í alþjóðlegri samkeppni frá fyrsta degi, samkeppni sem býr í flestum tilfellum við stöðugan gjaldmiðil. Könnun Samtaka iðnaðarins í síðustu viku sýndi að helsta krafa iðnfyrirtækja er stöðugur gjaldmiðill.
Viðreisn tækifæranna
Það þarf kjark og þor til að gera nauðsynlegar breytingar sem styðja við nýsköpun. Kosningarnar í haust snúast því meðal annars um að tryggja að frumkvöðlarnir og viðskiptatækifærin verði áfram í landinu.
Í kosningunum mun Viðreisn leggja sérstaka áherslu á stöðugra rekstrarumhverfi atvinnulífsins og sérstaklega umhverfi sprotafyrirtækja. Til að bæta stöðu þeirra vill Viðreisn binda gengi krónunnar við evru með samningi við Seðlabanka Evrópu sem fyrsta skref að upptöku evru. Fyrirsjáanlegt gengi mun gjörbreyta skilyrðum fyrir nýsköpun og uppbyggingu þekkingariðnaðar. Lífskjör fólks og samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja mun batna með þessari breytingu og vaxtakjör munu breytast strax til lækkunar.
Með þessum áherslum vill Viðreisn gefa framtíðinni tækifæri.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. september 2021