16 sep Sanngirni í gæsalöppum
Ílýðræðissamfélagi leitast menn jafnan við að leggja réttlæti eða sanngirni til grundvallar lagasetningu. Eðli máls samkvæmt geta menn verið ósammála um hvað telst vera réttlátt og sanngjarnt. Þessi hugtök er því ekki unnt að reikna út í excelskjali.
Almenn umræða er helsti leiðarvísirinn fyrir löggjafann við mat á því hvort löggjöf er í samræmi við þetta grundvallarsjónarmið.
Tveggja áratuga þóf
Þegar Morgunblaðið birti á dögunum frétt um stefnu Viðreisnar í sjávarútvegsmálum var orðið sanngirni í gæsalöppum sett í fyrirsögn. Gæsalappir um sanngirnishugtakið í þessu samhengi sýna vel eðli þeirra deilna, sem staðið hafa um fiskveiðilöggjöfina.
Árið 2000 komst nefnd, með fulltrúum allra flokka og helstu hagsmunasamtaka undir forystu Jóhannesar Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóra, að þeirri niðurstöðu að setja þyrfti ákvæði í stjórnarskrá um gjaldtöku fyrir tímabundinn afnotarétt af þjóðareign til þess að fullnægja kröfum um réttláta og sanngjarna löggjöf.
Á Alþingi hefur þessi niðurstaða verið í þófi síðan.
Réttlæti og hagkvæmni
Á því kjörtímabili, sem nú er að ljúka, stóðu stjórnarflokkarnir þrír gegn því að kvöð um tímabindingu yrði fest í lög. Áður en kjörtímabilið hófst voru Framsókn og VG hins vegar fylgjandi slíkri breytingu.
Frá aldamótum hefur minnihluti á Alþingi í 17 ár nýtt aðild að samsteypustjórnum til að hindra framgang tillagna auðlindanefndar um tímabindingu. Í 4 ár frá 2009 til 2013 kom sundurlyndi þáverandi tveggja stjórnarflokka um önnur efni í veg fyrir að sáttatillaga um tímabindingu næði fram að ganga.
Núverandi ríkisstjórn hefur hafnað tillögum um gjald fyrir tímabundinn afnotarétt með þeim rökum að fyrirsjáanleiki sé nauðsynleg forsenda fyrir hagkvæmni í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja.
Tvenns konar óvissa
Gæsalappir Morgunblaðsins benda til þess að röksemdir ríkisstjórnarinnar séu reistar á þeirri trú að réttlæti og hagkvæmni geti ekki farið saman. Skoðum það.
Gildandi lagareglur segja að úthlutun veiðiheimilda myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði. Samkvæmt orðanna hljóðan er því unnt að svipta allar útgerðir veiðiheimildum án fyrirvara, nema dómstólar veiti uppsagnarfrest. Í því tilviki veit enginn hver hann kann að vera.
Fyrirsjáanleikinn byggist því hvorki á stjórnarskrá né almennum lögum. Hann er algjörlega háður tvenns konar pólitískri óvissu:
Annaðhvort þeirri að einn flokkur geti nýtt sér aðild að ríkisstjórn til að koma í veg fyrir breytingar eða hinni að sundurlyndi annarra flokka um óskyld mál leiði til hins sama.
Fyrirsjáanleiki með lögum eða lukku?
Veðmálið um þessar pólitísku forsendur hefur gengið upp í tvo áratugi. Og það getur gengið upp til eilífðar. En það er engin lagaleg trygging fyrir því að svo verði.
Fyrirsjáanleikinn byggist því alfarið á pólitískri lukku en ekki lagareglu.
Kjarni málsins er sá að endurgjald fyrir samning um tuttugu ára nýtingarrétt tryggir mun betur en gildandi löggjöf fyrirsjáanleika og hagkvæmni. Um leið myndi sú nýskipan mála fullnægja betur viðteknum sjónarmiðum um réttlæti og sanngirni.
Kenningin um að hagkvæmni og réttlæti séu andstæður er einfaldlega ekki á rökum reist.
Samþjöppun og markaður
Því er haldið fram að markaðsverðmyndun á tímabundnum aflaheimildum leiði til of mikillar hagræðingar og samþjöppunar í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja.
Nú er það svo að verðmyndun á uppboðsmarkaði er ekki forsenda fyrir tímabundnum heimildum. Hún er bara, rétt eins og á öðrum sviðum, einfaldasta leiðin til að finna sanngjarnt verð. Hafa þarf hugfast að þetta er endurgjald fyrir afnot af sameign en ekki skattur.
Í gildandi löggjöf sætir framsal aflaheimilda margs konar takmörkunum til að hindra of mikla hagræðingu og samþjöppun.
Viðnám gegn frekari samþjöppun getur verið skynsamlegt. En nærtækara er að ná því marki með breytingu á gildandi reglum um takmörkun á framsali og stærð fyrirtækja en með andstöðu við verðmyndun á markaði. Það er þekkt, gegnsæ og sanngjörn leið.
Er ekki sá tími kominn?
Er ekki sá tími kominn að tryggja megi sanngirni og fyrirsjáanleika í sjávarútvegi með öðru en gæsalöppum?