Barna­bið­listar og banka­skattur

Þorsteinn Pálsson

Hvað er sameiginlegt með bankaskatti og löngum listum með nöfnum barna, sem bíða eftir þjónustu í heilbrigðiskerfinu eða hjá félagsmálastofnunum?

Bæði fyrirbærin eru hluti af póli­tískum veruleika. En þau eiga annað sameiginlegt: Þau eru nefnilega tákn um hljómandi málm og hvellandi bjöllu í málflutningi ráðherra Framsóknar.

Boðskapur um kraftaverk fyrir börn

Kjörfylgi Framsóknar sveiflaðist á örfáum vikum síðasta haust upp í einn mesta kosningasigur sem um getur.

Framsókn tryggði ríkisstjórninni framhaldslíf með fimm nýjum þingmönnum.

Þessi uppsveifla byggðist mest á málflutningi um kraftaverk Ásmundar Einars Daðasonar í em­bætti barnamálaráðherra.

Veruleikinn

Fyrr í vikunni birti Umboðsmaður barna greinargerð um biðlista barna í heilbrigðiskerfinu og hjá félagsmálastofnunum. Þar kom fram að sautján hundruð börn bíða nú þjónustu.

Hjá Þroska- og hegðunarstöð höfðu þrjú börn af hverjum fjórum beðið lengur en í þrjá mánuði. Meðalbiðtíminn var tólf til fjórtán mánuðir. Hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins höfðu öll börnin beðið lengur en þrjá mánuði og meðal biðtími var tólf til nítján mánuðir. Hjá Barna- og unglingageðdeild hafði helmingur barnanna beðið í meir en þrjá mánuði og venjulegur biðtími er frá fimm mánuðum upp í heilt ár.

Þetta eru hræðilegar tölur. Þær sýna að lítil innistæða var fyrir kraftaverkaboðskapnum. Kjósendur fengu ekki þær upplýsingar, sem máli skiptu.

Á öðru kjörtímabili ráðherra er ekki einu sinni komin tímasett áætlun um styttingu barnabiðlistanna.

Boðskapur um bankaskatt og auðlindagjöld

Um síðustu helgi bar Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra þann boðskap til þjóðarinnar að Framsókn vildi vegna mikilla vaxtahækkana leggja skatt á banka og innleiða raunverulegt auðlindagjald.

Ráðherra segir að hugmyndin hafi fengið miklar undirtektir hjá almenningi. Það er mjög sennilegt. Hún virðist hins vegar hvorki hafa verið rædd í ráðherranefnd um efnahagsmál né í ríkisstjórn.

Fjármálaráðherra hefur lýst yfir andstöðu sinni. Forsætisráðherra hefur ekki sagt annað um stefnuna í efnahagsmálum en að hún hafi boðað til tímasettrar fundaraðar í þjóðhagsráði með aðilum vinnumarkaðarins og Seðlabanka.

Afstaða í verki

En hver hefur afstaða viðskiptaráðherra verið í verki til auðlindagjalds og bankaskatts?

Á síðasta kjörtímabili voru nokkrum sinnum greidd atkvæði á Alþingi um tillögur til hækkunar á auðlindagjaldi. Þar var bæði um að ræða tillögur um markaðsgjald og hækkun á núgildandi kerfi. Viðskiptaráðherra greiddi alltaf atkvæði á móti eins og aðrir þingmenn Framsóknar.

Fyrir aðeins sex vikum var borin upp tillaga um framlengingu bankaskattsins. Viðskiptaráðherra greiddi atkvæði á móti eins og aðrir þingmenn Framsóknar.

Í kosningunum blöstu öll þau vandamál við, sem nú eru að koma fram með enn meiri þunga. Viðskiptaráðherra þagði þá þunnu hljóði um nauðsyn auðlindagjalds og bankaskatts.

Í stjórnarsáttmálaviðræðunum lét hún ekkert frá sér heyra um þau efni. Þar var þó bæði réttur staður og rétt stund til að láta reyna á rétt úrræði.

Rökin

Frá aldamótum hafa rökin fyrir gjaldi fyrir tímabundna nýtingu sjávarauðlinda legið fyrir. Framsókn hefur í fimm ríkisstjórnum á því tímabili látið þau rök víkja fyrir öðrum hagsmunum.

Sérstakur bankaskattur er við eðlilegar aðstæður ekki eins sjálfgefinn. Guðrún Hafsteinsdóttir verðandi dómsmálaráðherra og formaður efnahagsnefndar, hefur lýst andstöðu við tillögu viðskiptaráðherra með þeim rökum að skattahækkun myndi lækka söluverð Íslandsbanka. Þetta er trúlega rétt.

Hin hliðin á þessari röksemdafærslu segir okkur að bankarnir hafi notað niðurfellingu skattsins til þess að bæta afkomu hluthafanna en ekki til að koma til móts við atvinnulíf og almenning. Það eru aftur rök fyrir tímabundinni skattlagningu þar til Covid-19 skuldir ríkissjóðs hafa verið greiddar.

Þetta er afleiðing ófullnægjandi samkeppni viðskiptabankanna þriggja.

Tvær útgönguleiðir

Takist viðskiptaráðherra á næstu dögum að breyta afstöðu samstarfsflokkanna bætir hún fyrir neikvæða afstöðu sína á síðasta kjörtímabili og sinnuleysi við gerð stjórnarsáttmálans.

Gangi það ekki á hún aðra útgönguleið. Hún er sú að sýna vilja í verki með því að mynda meirihluta um þessi tvö mál með öðrum flokkum.

Geri hún hvorugt er boðskapur hennar ekki innihaldsríkari en lýsingarnar á kraftaverkum barnamálaráðherrans.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 17. febrúar 2022