15 júl Samfélagsleg ábyrgð
Loksins:
- Forsætisráðherra segist hafa áhyggjur af samþjöppun í íslenskum sjávarútvegi.
- Forsætisráðherra hefur einnig áhyggjur af skorti á samfélagsleg ábyrgð í sjávarútvegi.
- Forsætisráðherra hefur ofan á allt áhyggjur af tilflutningi auðs í sjávarútvegi.
Þetta eru viðbrögð forsætisráðherra eftir kaup Síldarvinnslunnar á Vísi í Grindavík.
Þjóðin hefur lengi haft þessar áhyggjur. Hvers vegna hellast þær allt í einu yfir forsætisráðherra á þessum tímapunkti?
Í viðtölum höfðar forsætisráðherra til samfélagslegrar ábyrgðar sjávarútvegsins. Ríkisstjórnin hefur aftur á móti borið samfélagslega ábyrgð á málefnum landsins í heilt kjörtímabil og einum þingvetri betur.
Er ekki jafn rík þörf á að skírskota til þeirrar ábyrgðar? Er ekki rétt að skoða hvað ríkisstjórnin hefur aðhafst í allan þennan tíma.
Viðreisn flutti á síðasta kjörtímabili og aftur á þessu, frumvarp sem miðaði að því að létta áhyggjur vegna samþjöppunar í sjávarútvegi. Þar voru reglur um aukið gegnsæi, virkar reglur til að hindra að farið verði í kringum hámarks aflahlutdeild og reglur um dreifða eignaraðild stærstu fyrirtækja.
Þegar ríkisstjórnin lét ítrekað svæfa þetta mál í nefnd komu ekki fram neinar áhyggjur.
Viðreisn flutti einnig frumvörp um tímabundinn veiðirétt. Þegar ríkisstjórnin svæfði þau í nefnd var engum áhyggjum lýst.
Viðreisn stóð einnig að frumvörpum um sanngjarnari gjaldtöku fyrir einkarétt til fiskveiða. Þegar ríkisstjórnarflokkarnir felldu þær eða svæfðu í nefnd heyrði enginn minnst á áhyggjur.
Þegar Viðreisn bauðst til þess að samþykkja stjórnarskrárfrumvörp forsætisráðherra með þeirri einu breytingu að framsalið á sameign þjóðarinnar yrði tímabundið ákvað forsætisráðherra að svæfa eigin frumvörp í nefnd. Engin orð féllu af því einstæða tilefni um áhyggjur.
Á síðasta kjörtímabili og aftur núna er öruggur meirihluti fyrir þeim breytingum, sem létta myndu áhyggjur forsætisráðherra. Vandinn hér er að hún hefur sjálf kosið að standa með minnihlutanum, sem engar áhyggjur hefur.
Það er einfaldlega ekki nóg að lýsa áhyggjum og vísa þeim í nefnd eftir fimm ára samfellda stjórnarsetu. Það þarf athafnir. Aðeins þannig axlar ríkisstjórnin samfélagslega ábyrgð.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. júlí 2022